Revised Common Lectionary (Semicontinuous)
128 Sæll er hver sá, er óttast Drottin, er gengur á hans vegum.
2 Já, afla handa þinna skalt þú njóta, sæll ert þú, vel farnast þér.
3 Kona þín er sem frjósamur vínviður innst í húsi þínu, synir þínir sem teinungar olíutrésins umhverfis borð þitt.
4 Sjá, sannarlega hlýtur slíka blessun sá maður, er óttast Drottin.
5 Drottinn blessi þig frá Síon, þú munt horfa með unun á hamingju Jerúsalem alla ævidaga þína,
6 og sjá sonu sona þinna. Friður sé yfir Ísrael!
6 Hliðum Jeríkó hafði verið lokað, og var borgin harðlokuð vegna Ísraelsmanna, svo að enginn maður komst þar út né inn.
2 Þá sagði Drottinn við Jósúa: "Sjá, nú gef ég Jeríkó í þínar hendur, konung hennar og kappa.
3 Og þér skuluð, allir vígir menn, ganga kringum borgina, hringinn í kringum borgina einu sinni. Svo skalt þú gjöra í sex daga.
4 Og sjö prestar skulu bera sjö lúðra úr hrútshornum fyrir örkinni, og sjöunda daginn skuluð þér ganga sjö sinnum kringum borgina, og prestarnir þeyta lúðrana.
5 En þegar hrútshornið kveður við, þá skal allur lýðurinn æpa heróp mikið, jafnskjótt og þér heyrið lúðurhljóminn. Mun þá borgarmúrinn hrynja til grunna og lýðurinn mega upp ganga, hver þar sem hann er staddur."
6 Þá lét Jósúa Núnsson kalla prestana og sagði við þá: "Þér skuluð bera sáttmálsörkina, og sjö prestar skulu bera sjö lúðra úr hrútshornum fyrir örk Drottins."
7 Og við lýðinn sagði hann: "Farið og gangið kringum borgina, en þeir sem hertygjaðir eru, skulu fara fyrir örk Drottins."
8 Er Jósúa hafði talað til lýðsins, gengu sjö prestarnir, þeir er báru lúðrana sjö úr hrútshornunum, fram fyrir augliti Drottins og þeyttu lúðrana, en sáttmálsörk Drottins fór á eftir þeim.
9 Þeir sem hertygjaðir voru, gengu á undan prestunum, þeim sem lúðrana þeyttu, en múgurinn fylgdi eftir örkinni, og var í sífellu blásið í lúðrana.
10 Og Jósúa bauð lýðnum á þessa leið: "Þér skuluð ekki æpa heróp og enga háreysti gjöra og ekkert orð mæla, fyrr en ég segi við yður: ,Æpið nú heróp!` Þá skuluð þér æpa heróp."
11 Og hann lét fara með örk Drottins hringinn í kringum borgina einu sinni. Síðan gengu menn til herbúðanna og voru um nóttina í herbúðunum.
12 Jósúa reis árla um morguninn. Tóku nú prestarnir örk Drottins,
13 og prestarnir sjö, þeir er báru lúðrana sjö úr hrútshornunum fyrir örk Drottins, gengu og þeyttu lúðrana í sífellu, og þeir, sem hertygjaðir voru, gengu á undan þeim, en múgurinn fylgdi eftir örk Drottins, og var í sífellu blásið í lúðrana.
14 Þeir gengu og einu sinni kringum borgina annan daginn, fóru síðan aftur til herbúðanna. Svo gjörðu þeir í sex daga.
15 Hinn sjöunda dag risu þeir, þegar er lýsti af degi, og gengu með sama hætti kringum borgina sjö sinnum. Þennan daginn gengu þeir sjö sinnum kringum borgina.
16 En í sjöunda sinnið þeyttu prestarnir lúðrana. Þá sagði Jósúa við lýðinn: "Æpið nú heróp, því að Drottinn hefir gefið yður borgina.
20 Þá æpti lýðurinn heróp, og þeir þeyttu lúðrana. Og er lýðurinn heyrði lúðurhljóminn, æpti lýðurinn heróp mikið. Hrundi þá múrinn til grunna, en lýðurinn gekk inn í borgina, hver þar sem hann var staddur. Þannig unnu þeir borgina.
13 Í söfnuðinum í Antíokkíu voru spámenn og kennarar. Þar voru þeir Barnabas, Símeon, nefndur Níger, Lúkíus frá Kýrene, Manaen, samfóstri Heródesar fjórðungsstjóra, og Sál.
2 Eitt sinn er þeir voru að þjóna Drottni og föstuðu sagði heilagur andi: "Skiljið frá mér til handa þá Barnabas og Sál til þess verks, sem ég hef kallað þá til."
3 Síðan föstuðu þeir og báðust fyrir, lögðu hendur yfir þá og létu þá fara.
4 Þeir fóru nú, sendir af heilögum anda, til Selevkíu og sigldu þaðan til Kýpur.
5 Þegar þeir voru komnir til Salamis, boðuðu þeir orð Guðs í samkunduhúsum Gyðinga. Höfðu þeir og Jóhannes til aðstoðar.
6 Þeir fóru um alla eyna, allt til Pafos. Þar fundu þeir töframann nokkurn og falsspámann, Gyðing, er hét Barjesús.
7 Hann var hjá landstjóranum Sergíusi Páli, hyggnum manni, sem hafði boðað þá Barnabas og Sál á fund sinn og fýsti að heyra Guðs orð.
8 Gegn þeim stóð Elýmas, töframaðurinn, en svo er nafn hans útlagt. Reyndi hann að gjöra landstjórann fráhverfan trúnni.
9 En Sál, sem og er nefndur Páll, hvessti á hann augun og sagði, fylltur heilögum anda:
10 "Þú djöfuls sonur, fullur allra véla og flærðar, óvinur alls réttlætis, ætlar þú aldrei að hætta að rangsnúa réttum vegum Drottins?
11 Nú er hönd Drottins reidd gegn þér, og þú munt verða blindur og ekki sjá sól um tíma." Jafnskjótt féll yfir hann þoka og myrkur, og hann reikaði um og leitaði einhvers til að leiða sig.
12 Þegar landstjórinn sá þennan atburð, varð hann gagntekinn af kenningu Drottins og tók trú.
by Icelandic Bible Society