Revised Common Lectionary (Semicontinuous)
107 Þakkið Drottni, því að hann er góður, því að miskunn hans varir að eilífu.
2 Svo skulu hinir endurleystu Drottins segja, þeir er hann hefir leyst úr nauðum
3 og safnað saman úr löndunum, frá austri og vestri, frá norðri og suðri.
4 Þeir reikuðu um eyðimörkina, um veglaus öræfin, og fundu eigi byggilegar borgir,
5 þá hungraði og þyrsti, sál þeirra vanmegnaðist í þeim.
6 Þá hrópuðu þeir til Drottins í neyð sinni, hann bjargaði þeim úr angist þeirra
7 og leiddi þá um slétta leið, svo að þeir komust til byggilegrar borgar.
33 Hann gjörir fljótin að eyðimörk og uppsprettur að þurrum lendum,
34 frjósamt land að saltsléttu sakir illsku íbúanna.
35 Hann gjörir eyðimörkina að vatnstjörnum og þurrlendið að uppsprettum
36 og lætur hungraða menn búa þar, að þeir megi grundvalla byggilega borg,
37 sá akra og planta víngarða og afla afurða.
15 Þá lét hún þá síga í festi út um gluggann, því að hús hennar stóð við borgarmúrinn og sjálf bjó hún úti við múrinn.
16 Og hún sagði við þá: "Haldið til fjalla, svo að leitarmennirnir finni ykkur ekki, og leynist þar þrjá daga, uns leitarmennirnir eru aftur horfnir. Eftir það getið þið farið leiðar ykkar."
17 Mennirnir sögðu við hana: "Lausir viljum við vera eiðs þess, er þú lést okkur sverja þér,
18 nema svo verði, að þegar vér komum inn í landið, þá bindir þú í gluggann, þann er þú lést okkur síga út um, festina þessa rauðu, og kallir saman í hús þitt föður þinn og móður og bræður þína og allt heimilisfólk föður þíns,
19 en gangi nokkur út fyrir húsdyr þínar, þá er hann sjálfur valdur að dauða sínum, en við sýknir, en verði hönd lögð á nokkurn þann, sem í þínu húsi er, þá skal dauði hans verða gefinn okkur að sök.
20 Og ef þú lætur vitnast erindi okkar, þá erum við lausir þess eiðs, er þú lést okkur sverja þér."
21 Hún sagði: "Svo skal vera sem þið segið!" Lét hún þá síðan fara, og þeir gengu burt, en hún batt rauðu festina í gluggann.
22 Gengu þeir þá á burt og héldu til fjalla og dvöldust þar þrjá daga, uns leitarmennirnir voru aftur heim horfnir. Höfðu leitarmennirnir leitað þeirra alla leiðina, en ekki fundið.
23 Hurfu þá þessir tveir menn aftur og gengu niður af fjöllunum og fóru yfir um og komu til Jósúa Núnssonar og sögðu honum frá öllu, er fyrir þá hafði komið.
24 Og þeir sögðu við Jósúa: "Drottinn hefir gefið allt landið oss í hendur, enda hræðast allir landsbúar oss."
13 Vei yður, fræðimenn og farísear, hræsnarar! Þér læsið himnaríki fyrir mönnum. Sjálfir gangið þér ekki þar inn, og þeim, sem inn vilja ganga, leyfið þér eigi inn að komast. [
14 Vei yður, fræðimenn og farísear, hræsnarar! Þér etið upp heimili ekkna og flytjið langar bænir að yfirskini. Þér munuð fá því þyngri dóm.]
15 Vei yður, fræðimenn og farísear, hræsnarar! Þér farið um láð og lög til að snúa einum til yðar trúar, og þegar það tekst, gjörið þér hann hálfu verra vítisbarn en þér sjálfir eruð.
16 Vei yður, blindir leiðtogar! Þér segið: ,Ef einhver sver við musterið, þá er það ógilt, en sverji menn við gullið í musterinu, þá er það gildur eiður.`
17 Blindu heimskingjar, hvort er meira gullið eða musterið, sem helgar gullið?
18 Þér segið: ,Ef einhver sver við altarið, þá er það ógilt, en sverji menn við fórnina, sem á því er, þá er það gildur eiður.`
19 Blindu menn, hvort er meira fórnin eða altarið, sem helgar fórnina?
20 Sá sem sver við altarið, sver við það og allt, sem á því er.
21 Sá sem sver við musterið, sver við það og við þann, sem í því býr.
22 Og sá sem sver við himininn, sver við hásæti Guðs og við þann, sem í því situr.
23 Vei yður, fræðimenn og farísear, hræsnarar! Þér gjaldið tíund af myntu, anís og kúmeni, en hirðið ekki um það, sem mikilvægast er í lögmálinu, réttlæti, miskunn og trúfesti. Þetta ber að gjöra og hitt eigi ógjört að láta.
24 Blindu leiðtogar, þér síið mýfluguna, en svelgið úlfaldann!
25 Vei yður, fræðimenn og farísear, hræsnarar! Þér hreinsið bikarinn og diskinn utan, en innan eru þeir fullir yfirgangs og óhófs.
26 Blindi farísei, hreinsaðu fyrst bikarinn innan, að hann verði líka hreinn að utan.
27 Vei yður, fræðimenn og farísear, hræsnarar! Þér líkist hvítum kölkuðum gröfum, sem sýnast fagrar utan, en innan eru fullar af dauðra manna beinum og alls kyns óþverra.
28 Þannig eruð þér, sýnist hið ytra réttlátir í augum manna, en eruð hið innra fullir hræsni og ranglætis.
by Icelandic Bible Society