Revised Common Lectionary (Semicontinuous)
107 Þakkið Drottni, því að hann er góður, því að miskunn hans varir að eilífu.
2 Svo skulu hinir endurleystu Drottins segja, þeir er hann hefir leyst úr nauðum
3 og safnað saman úr löndunum, frá austri og vestri, frá norðri og suðri.
4 Þeir reikuðu um eyðimörkina, um veglaus öræfin, og fundu eigi byggilegar borgir,
5 þá hungraði og þyrsti, sál þeirra vanmegnaðist í þeim.
6 Þá hrópuðu þeir til Drottins í neyð sinni, hann bjargaði þeim úr angist þeirra
7 og leiddi þá um slétta leið, svo að þeir komust til byggilegrar borgar.
33 Hann gjörir fljótin að eyðimörk og uppsprettur að þurrum lendum,
34 frjósamt land að saltsléttu sakir illsku íbúanna.
35 Hann gjörir eyðimörkina að vatnstjörnum og þurrlendið að uppsprettum
36 og lætur hungraða menn búa þar, að þeir megi grundvalla byggilega borg,
37 sá akra og planta víngarða og afla afurða.
1 Eftir andlát Móse, þjóns Drottins, mælti Drottinn við Jósúa Núnsson, þjónustumann Móse, á þessa leið:
2 "Móse, þjónn minn, er andaður. Rís þú nú upp og far yfir ána Jórdan með allan þennan lýð, inn í landið, sem ég gef þeim, Ísraelsmönnum.
3 Hvern þann stað, er þér stígið fæti á, mun ég gefa yður, eins og ég sagði Móse.
4 Frá eyðimörkinni og Líbanon allt til fljótsins mikla, Efratfljótsins, allt land Hetíta, allt til hafsins mikla mót sólar setri skal land yðar ná.
5 Enginn mun standast fyrir þér alla ævidaga þína. Svo sem ég var með Móse, svo mun ég og með þér vera. Ég mun eigi sleppa af þér hendinni né yfirgefa þig.
6 Ver þú hughraustur og öruggur, því að þú skalt skipta meðal þessa lýðs landi því, er ég sór feðrum þeirra að gefa þeim.
7 Ver þú aðeins hughraustur og harla öruggur að gæta þess að breyta eftir öllu lögmálinu, því er Móse þjónn minn fyrir þig lagði. Vík eigi frá því, hvorki til hægri né vinstri, til þess að þér lánist vel allt, sem þú tekur þér fyrir hendur.
8 Eigi skal lögmálsbók þessi víkja úr munni þínum, heldur skalt þú hugleiða hana um daga og nætur, til þess að þú gætir þess að gjöra allt það, sem í henni er skrifað, því að þá munt þú gæfu hljóta á vegum þínum og breyta viturlega.
9 Hefi ég ekki boðið þér: Ver þú hughraustur og öruggur? Lát eigi hugfallast og óttast eigi, því að Drottinn Guð þinn er með þér í öllu, sem þú tekur þér fyrir hendur."
10 Þá bauð Jósúa tilsjónarmönnum lýðsins á þessa leið:
11 "Farið um allar herbúðirnar og bjóðið lýðnum og segið: ,Búið yður veganesti, því að þrem dögum liðnum skuluð þér fara yfir ána Jórdan, svo að þér komist inn í og fáið til eignar landið, sem Drottinn, Guð yðar, gefur yður til eignar."`
17 En nú ert þú Gyðingur að nafni og styðst við lögmál og ert hreykinn af Guði.
18 Þú þekkir vilja hans og kannt að meta rétt það, sem máli skiptir, þar eð lögmálið fræðir þig.
19 Þú treystir sjálfum þér til að vera leiðtogi blindra, ljós þeirra sem eru í myrkri,
20 kennari fávísra, fræðari óvita, þar sem þú hefur þekkinguna og sannleikann skýrum stöfum í lögmálinu.
21 Þú sem þannig fræðir aðra, hví fræðir þú ekki sjálfan þig? Prédikar þú, að ekki skuli stela, og stelur þó?
22 Segir þú, að ekki skuli drýgja hór, og drýgir þó hór? Hefur þú andstyggð á skurðgoðum og rænir þó helgidóma?
23 Hrósar þú þér af lögmáli, og óvirðir þó Guð með því að brjóta lögmálið?
24 Svo er sem ritað er: "Nafn Guðs verður yðar vegna fyrir lasti meðal heiðingjanna."
25 Umskurn er gagnleg ef þú heldur lögmálið, en ef þú brýtur lögmálið, er umskurn þín orðin að engu.
26 Ef því óumskorinn maður fer eftir kröfum lögmálsins, mun hann þá ekki metinn sem umskorinn væri?
27 Og mun þá ekki sá, sem er óumskorinn og heldur lögmálið, dæma þig, sem þrátt fyrir bókstaf og umskurn brýtur lögmálið?
28 Ekki er sá Gyðingur, sem er það hið ytra, og ekki það umskurn, sem er það hið ytra á holdinu.
29 En sá er Gyðingur, sem er það hið innra, og umskurnin er umskurn hjartans í anda, en ekki í bókstaf. Lofstír hans er ekki af mönnum, heldur frá Guði.
by Icelandic Bible Society