Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Revised Common Lectionary (Semicontinuous)

Daily Bible readings that follow the church liturgical year, with sequential stories told across multiple weeks.
Duration: 1245 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 119:41-48

41 Lát náð þína koma yfir mig, Drottinn, hjálpræði þitt, samkvæmt fyrirheiti þínu,

42 að ég fái andsvör veitt þeim er smána mig, því að þínu orði treysti ég.

43 Og tak aldrei sannleikans orð burt úr munni mínum, því að ég bíð dóma þinna.

44 Ég vil stöðugt varðveita lögmál þitt, um aldur og ævi,

45 þá mun ég ganga um víðlendi, því að ég leita fyrirmæla þinna,

46 þá mun ég tala um reglur þínar frammi fyrir konungum, og eigi skammast mín,

47 og leita unaðar í boðum þínum, þeim er ég elska,

48 og rétta út hendurnar eftir boðum þínum, þeim er ég elska, og íhuga lög þín.

Önnur bók Móse 34:29-35

29 En er Móse gekk ofan af Sínaífjalli, og hann hafði báðar sáttmálstöflurnar í hendi sér, þegar hann gekk ofan af fjallinu, þá vissi Móse ekki að geislar stóðu af andlitshörundi hans, af því að hann hafði talað við Drottin.

30 Og Aron og allir Ísraelsmenn sáu Móse, og sjá: Geislar stóðu af andlitshörundi hans. Þorðu þeir þá ekki að koma nærri honum.

31 En Móse kallaði á þá, og sneru þeir þá aftur til hans, Aron og allir leiðtogar safnaðarins, og talaði Móse við þá.

32 Eftir það gengu allir Ísraelsmenn til hans, og bauð hann þeim að halda allt það, sem Drottinn hafði við hann talað á Sínaífjalli.

33 Er Móse hafði lokið máli sínu við þá, lét hann skýlu fyrir andlit sér.

34 En er Móse gekk fram fyrir Drottin til þess að tala við hann, tók hann skýluna frá, þar til er hann gekk út aftur. Því næst gekk hann út og flutti Ísraelsmönnum það, sem honum var boðið.

35 Sáu Ísraelsmenn þá andlit Móse, hversu geislar stóðu af andlitshörundi hans. Lét Móse þá skýluna aftur fyrir andlit sér, þar til er hann gekk inn til þess að tala við Guð.

Hið almenna bréf Jakobs 2:14-26

14 Hvað stoðar það, bræður mínir, þótt einhver segist hafa trú, en hefur eigi verk? Mun trúin geta frelsað hann?

15 Ef bróðir eða systir eru nakin og vantar daglegt viðurværi

16 og einhver yðar segði við þau: "Farið í friði, vermið yður og mettið!" en þér gefið þeim ekki það, sem líkaminn þarfnast, hvað stoðar það?

17 Eins er líka trúin dauð í sjálfri sér, vanti hana verkin.

18 En nú segir einhver: "Einn hefur trú, annar verk." Sýn mér þá trú þína án verkanna, og ég skal sýna þér trúna af verkum mínum.

19 Þú trúir, að Guð sé einn. Þú gjörir vel. En illu andarnir trúa því líka og skelfast.

20 Fávísi maður! Vilt þú láta þér skiljast, að trúin er ónýt án verkanna?

21 Réttlættist ekki Abraham faðir vor af verkum, er hann lagði son sinn Ísak á altarið?

22 Þú sérð, að trúin var samtaka verkum hans og að trúin fullkomnaðist með verkunum.

23 Og ritningin rættist, sem segir: "Abraham trúði Guði, og það var honum til réttlætis reiknað," og hann var kallaður Guðs vinur.

24 Þér sjáið, að maðurinn réttlætist af verkum og ekki af trú einni saman.

25 Svo var og um skækjuna Rahab. Réttlættist hún ekki af verkum, er hún tók við sendimönnunum og lét þá fara burt aðra leið?

26 Eins og líkaminn er dauður án anda, eins er og trúin dauð án verka.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society