Revised Common Lectionary (Semicontinuous)
34 Og Móse gekk neðan af Móabsheiðum upp á Nebófjall, Pisgatind, sem er gegnt Jeríkó. Þaðan sýndi Drottinn honum gjörvallt landið: Gíleað allt til Dan,
2 allt Naftalí og Efraímsland og Manasse, og allt Júdaland allt til vesturhafsins,
3 og Suðurlandið og Jórdan-sléttlendið, dalinn hjá Jeríkó, pálmaborginni, allt til Sóar.
4 Og Drottinn sagði við hann: "Þetta er landið, sem ég sór Abraham, Ísak og Jakob, er ég sagði: ,Niðjum þínum vil ég gefa það!` Ég hefi látið þig líta það eigin augum, en yfir um þangað skalt þú ekki komast."
5 Móse, þjónn Drottins, dó þar í Móabslandi, eins og Drottinn hafði sagt,
6 og hann var grafinn í dalnum í Móabslandi, gegnt Bet Peór, en enginn maður veit enn til þessa dags, hvar gröf hans er.
7 Og Móse var hundrað og tuttugu ára gamall, er hann andaðist. Eigi glapnaði honum sýn, og eigi þvarr þróttur hans.
8 Ísraelsmenn grétu Móse á Móabsheiðum í þrjátíu daga, þá enduðu sorgargrátsdagarnir eftir Móse.
9 En Jósúa Núnsson var fullur vísdómsanda, því að Móse hafði lagt hendur sínar yfir hann, og Ísraelsmenn hlýddu honum og gjörðu svo sem Drottinn hafði boðið Móse.
10 En eigi reis framar upp í Ísrael annar eins spámaður og Móse, er Drottinn umgekkst augliti til auglitis,
11 þegar litið er til allra þeirra tákna og undra, er Drottinn hafði sent hann til að gjöra í Egyptalandi á Faraó og öllum þjónum hans og öllu landi hans,
90 Bæn guðsmannsins Móse. Drottinn, þú hefir verið oss athvarf frá kyni til kyns.
2 Áður en fjöllin fæddust og jörðin og heimurinn urðu til, frá eilífð til eilífðar ert þú, ó Guð.
3 Þú lætur manninn hverfa aftur til duftsins og segir: "Hverfið aftur, þér mannanna börn!"
4 Því að þúsund ár eru í þínum augum sem dagurinn í gær, þegar hann er liðinn, já, eins og næturvaka.
5 Þú hrífur þá burt, sem í svefni, þá er að morgni voru sem gróandi gras.
6 Að morgni blómgast það og grær, að kveldi fölnar það og visnar.
13 Snú þú aftur, Drottinn. Hversu lengi er þess að bíða, að þú aumkist yfir þjóna þína?
14 Metta oss að morgni með miskunn þinni, að vér megum fagna og gleðjast alla daga vora.
15 Veit oss gleði í stað daga þeirra, er þú hefir lægt oss, ára þeirra, er vér höfum illt reynt.
16 Lát dáðir þínar birtast þjónum þínum og dýrð þína börnum þeirra.
17 Hylli Drottins, Guðs vors, sé yfir oss, styrk þú verk handa vorra.
2 Sjálfir vitið þér, bræður, að koma vor til yðar varð ekki árangurslaus.
2 Yður er kunnugt, að vér höfðum áður þolað illt og verið misþyrmt í Filippí, en Guð gaf oss djörfung til að tala til yðar fagnaðarerindi Guðs, þótt baráttan væri mikil.
3 Boðun vor er ekki sprottin af villu né af óhreinum hvötum og vér reynum ekki að blekkja neinn.
4 En Guð hefur talið oss maklega þess að trúa oss fyrir fagnaðarerindinu. Því er það, að vér tölum ekki eins og þeir, er þóknast vilja mönnum, heldur Guði, sem rannsakar hjörtu vor.
5 Aldrei höfðum vér nein smjaðuryrði á vörum, það vitið þér. Og ekki bjó þar ásælni að baki, _ Guð er vottur þess.
6 Ekki leituðum vér vegsemdar af mönnum, hvorki yður né öðrum, þótt vér hefðum getað beitt myndugleika sem postular Krists.
7 Nei, vér vorum mildir yðar á meðal, eins og móðir, sem hlúir að börnum sínum.
8 Slíkt kærleiksþel bárum vér til yðar, að vér vildum glaðir gefa yður ekki einungis fagnaðarerindi Guðs, heldur og vort eigið líf því að þér voruð orðnir oss ástfólgnir.
34 Þegar farísear heyrðu, að hann hafði gjört saddúkea orðlausa, komu þeir saman.
35 Og einn þeirra, sem var lögvitringur, vildi freista hans og spurði:
36 "Meistari, hvert er hið æðsta boðorð í lögmálinu?"
37 Hann svaraði honum: ",Elska skalt þú Drottin, Guð þinn, af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni og öllum huga þínum.`
38 Þetta er hið æðsta og fremsta boðorð.
39 Annað er þessu líkt: ,Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig.`
40 Á þessum tveimur boðorðum hvílir allt lögmálið og spámennirnir."
41 Meðan farísearnir voru saman komnir, spurði Jesús þá:
42 "Hvað virðist yður um Krist? Hvers son er hann?" Þeir svara: "Davíðs."
43 Hann segir: "Hvernig getur þá Davíð, innblásinn andanum, kallað hann drottin? Hann segir:
44 Drottinn sagði við minn drottin: Set þig mér til hægri handar, þangað til ég gjöri óvini þína að fótskör þinni.
45 Fyrst Davíð kallar hann drottin, hvernig getur hann þá verið sonur hans?"
46 Enginn gat svarað honum einu orði, og frá þeim degi þorði enginn að spyrja hann neins framar.
by Icelandic Bible Society