Revised Common Lectionary (Semicontinuous)
90 Bæn guðsmannsins Móse. Drottinn, þú hefir verið oss athvarf frá kyni til kyns.
2 Áður en fjöllin fæddust og jörðin og heimurinn urðu til, frá eilífð til eilífðar ert þú, ó Guð.
3 Þú lætur manninn hverfa aftur til duftsins og segir: "Hverfið aftur, þér mannanna börn!"
4 Því að þúsund ár eru í þínum augum sem dagurinn í gær, þegar hann er liðinn, já, eins og næturvaka.
5 Þú hrífur þá burt, sem í svefni, þá er að morgni voru sem gróandi gras.
6 Að morgni blómgast það og grær, að kveldi fölnar það og visnar.
13 Snú þú aftur, Drottinn. Hversu lengi er þess að bíða, að þú aumkist yfir þjóna þína?
14 Metta oss að morgni með miskunn þinni, að vér megum fagna og gleðjast alla daga vora.
15 Veit oss gleði í stað daga þeirra, er þú hefir lægt oss, ára þeirra, er vér höfum illt reynt.
16 Lát dáðir þínar birtast þjónum þínum og dýrð þína börnum þeirra.
17 Hylli Drottins, Guðs vors, sé yfir oss, styrk þú verk handa vorra.
44 Móse kom og flutti lýðnum öll orð þessa kvæðis í heyranda hljóði, hann og Hósea Núnsson.
45 Og er Móse hafði lokið að mæla öll þessi orð til alls Ísraels,
46 sagði hann við þá: "Hugfestið öll þau orð, sem ég flyt yður í dag, til þess að þér getið brýnt þau fyrir börnum yðar, svo að þau gæti þess að halda öll orð þessa lögmáls.
47 Því að það er ekkert hégómamál fyrir yður, heldur er það líf yðar, og fyrir þetta orð munuð þér lifa langa ævi í landinu, sem þér haldið nú inn í yfir Jórdan til þess að taka það til eignar."
39 Þér rannsakið ritningarnar, því í þeim hyggist þér eiga eilíft líf. Og það eru þær, sem vitna um mig,
40 en þér viljið ekki koma til mín og öðlast lífið.
41 Ég þigg ekki heiður af mönnum,
42 en ég þekki yður að þér hafið ekki í yður kærleika Guðs.
43 Ég er kominn í nafni föður míns, og þér takið ekki við mér. Ef annar kæmi í sínu eigin nafni, tækjuð þér við honum.
44 Hvernig getið þér trúað, þegar þér þiggið heiður hver af öðrum, en leitið ekki þess heiðurs, sem er frá einum Guði?
45 Ætlið eigi, að ég muni ákæra yður fyrir föðurnum. Sá sem ákærir yður, er Móse, og á hann vonið þér.
46 Ef þér tryðuð Móse, munduð þér líka trúa mér, því um mig hefur hann ritað.
47 Fyrst þér trúið ekki því, sem hann skrifaði, hvernig getið þér þá trúað orðum mínum?"
by Icelandic Bible Society