Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Revised Common Lectionary (Semicontinuous)

Daily Bible readings that follow the church liturgical year, with sequential stories told across multiple weeks.
Duration: 1245 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 90:1-6

90 Bæn guðsmannsins Móse. Drottinn, þú hefir verið oss athvarf frá kyni til kyns.

Áður en fjöllin fæddust og jörðin og heimurinn urðu til, frá eilífð til eilífðar ert þú, ó Guð.

Þú lætur manninn hverfa aftur til duftsins og segir: "Hverfið aftur, þér mannanna börn!"

Því að þúsund ár eru í þínum augum sem dagurinn í gær, þegar hann er liðinn, já, eins og næturvaka.

Þú hrífur þá burt, sem í svefni, þá er að morgni voru sem gróandi gras.

Að morgni blómgast það og grær, að kveldi fölnar það og visnar.

Sálmarnir 90:13-17

13 Snú þú aftur, Drottinn. Hversu lengi er þess að bíða, að þú aumkist yfir þjóna þína?

14 Metta oss að morgni með miskunn þinni, að vér megum fagna og gleðjast alla daga vora.

15 Veit oss gleði í stað daga þeirra, er þú hefir lægt oss, ára þeirra, er vér höfum illt reynt.

16 Lát dáðir þínar birtast þjónum þínum og dýrð þína börnum þeirra.

17 Hylli Drottins, Guðs vors, sé yfir oss, styrk þú verk handa vorra.

Fimmta bók Móse 32:1-14

32 Hlustið, þér himnar, því að nú mun ég mæla, og jörðin hlýði á mál munns míns!

Kenning mín streymi sem regn, ræða mín drjúpi sem dögg, eins og gróðrarskúrir á grængresið og sem þungaregn á jurtirnar.

Ég vil kunngjöra nafn Drottins: Gefið Guði vorum dýrðina!

Bjargið _ fullkomin eru verk hans, því að allir vegir hans eru réttlæti. Trúfastur Guð og tállaus, réttlátur og réttvís er hann.

Synir hans eru spilltir orðnir, blettur er á þeim, rangsnúin og rammspillt kynslóð.

Ætlið þér að launa Drottni þannig, þú heimska og óvitra þjóð? Er hann ekki faðir þinn, sá er skóp þig, sá er gjörði þig og myndaði?

Minnstu fyrri tíða, hyggið að árum liðinna alda! Spyr föður þinn, að hann megi fræða þig, gamalmenni þín, að þau megi segja þér frá!

Þá er hinn hæsti skipti óðulum meðal þjóðanna, þá er hann greindi í sundur mannanna börn, þá skipaði hann löndum þjóðflokkanna eftir tölu Ísraels sona.

Því að hlutskipti Drottins er lýður hans, Jakob úthlutuð arfleifð hans.

10 Hann fann hann í eyðimerkurlandi og í óbyggðum, innan um öskrið á öræfunum. Hann verndaði hann, hugði að honum, hann varðveitti hann sem sjáaldur auga síns.

11 Eins og örn, sem vekur upp hreiður sitt og svífur yfir ungum sínum, svo útbreiddi hann vængi sína, tók hann upp og bar hann á flugfjöðrum sínum.

12 Drottinn einn leiddi hann, og enginn annar guð var með honum.

13 Hann lét hann fram bruna á hæðum landsins og lét hann njóta ávaxtar akursins. Hann lét hann sjúga hunang úr klettunum og olífuolíu úr tinnusteinunum.

14 Hann ól hann á kúarjóma og sauðamjólk, ásamt feitu kjöti af dilkum og hrútum. Hann gaf honum Basan-uxa og kjarnhafra, ásamt nýrnafeiti hveitisins. Þrúgnablóð drakkst þú sem kostavín.

Fimmta bók Móse 32:18

18 Um bjargið, sem þig hafði getið, hirtir þú ekki og gleymdir þeim Guði, sem þig hafði alið.

Bréf Páls til Títusar 2:7-8

Sýn þig sjálfan í öllum greinum sem fyrirmynd í góðum verkum. Vertu grandvar í fræðslu þinni og heilhuga, svo hún verði

heilnæm og óaðfinnanleg og andstæðingurinn fyrirverði sig, þegar hann hefur ekkert illt um oss að segja.

Bréf Páls til Títusar 2:11-15

11 Því að náð Guðs hefur opinberast til sáluhjálpar öllum mönnum.

12 Hún kennir oss að afneita óguðleik og veraldlegum girndum og lifa hóglátlega, réttvíslega og guðrækilega í heimi þessum,

13 í eftirvæntingu vorrar sælu vonar, að hinn mikli Guð og frelsari vor Jesús Kristur opinberist í dýrð sinni.

14 Hann gaf sjálfan sig fyrir oss, til þess að hann leysti oss frá öllu ranglæti og hreinsaði sjálfum sér til handa eignarlýð, kostgæfinn til góðra verka.

15 Tala þú þetta og áminn og vanda um með allri röggsemi. Lát engan lítilsvirða þig.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society