Revised Common Lectionary (Semicontinuous)
90 Bæn guðsmannsins Móse. Drottinn, þú hefir verið oss athvarf frá kyni til kyns.
2 Áður en fjöllin fæddust og jörðin og heimurinn urðu til, frá eilífð til eilífðar ert þú, ó Guð.
3 Þú lætur manninn hverfa aftur til duftsins og segir: "Hverfið aftur, þér mannanna börn!"
4 Því að þúsund ár eru í þínum augum sem dagurinn í gær, þegar hann er liðinn, já, eins og næturvaka.
5 Þú hrífur þá burt, sem í svefni, þá er að morgni voru sem gróandi gras.
6 Að morgni blómgast það og grær, að kveldi fölnar það og visnar.
13 Snú þú aftur, Drottinn. Hversu lengi er þess að bíða, að þú aumkist yfir þjóna þína?
14 Metta oss að morgni með miskunn þinni, að vér megum fagna og gleðjast alla daga vora.
15 Veit oss gleði í stað daga þeirra, er þú hefir lægt oss, ára þeirra, er vér höfum illt reynt.
16 Lát dáðir þínar birtast þjónum þínum og dýrð þína börnum þeirra.
17 Hylli Drottins, Guðs vors, sé yfir oss, styrk þú verk handa vorra.
14 Drottinn sagði við Móse: "Sjá, andlátstími þinn nálgast. Kalla þú á Jósúa og gangið inn í samfundatjaldið, svo að ég megi leggja fyrir hann skipanir mínar." Þá fóru þeir Móse og Jósúa og gengu inn í samfundatjaldið.
15 En Drottinn birtist í tjaldinu í skýstólpa, og skýstólpinn nam staðar við tjalddyrnar.
16 Drottinn sagði við Móse: "Sjá, þú munt nú leggjast til hvíldar hjá feðrum þínum. Þá mun lýður þessi rísa upp og taka fram hjá með útlendum guðum lands þess, er hann heldur nú inn í, en yfirgefa mig og rjúfa sáttmála minn, þann er ég við hann gjörði.
17 Þá mun reiði mín upptendrast gegn þeim, og ég mun yfirgefa þá og byrgja auglit mitt fyrir þeim, og lýðurinn mun eyddur verða og margs konar böl og þrengingar yfir hann koma. Þá mun hann segja: ,Vissulega er þetta böl yfir mig komið, af því að Guð minn er ekki hjá mér.`
18 En á þeim degi mun ég byrgja auglit mitt vandlega vegna allrar þeirrar illsku, sem hann hefir í frammi haft, er hann sneri sér til annarra guða.
19 Skrifa þú nú upp kvæði þetta og kenn það Ísraelsmönnum, legg þeim það í munn, til þess að kvæði þetta megi verða mér til vitnisburðar gegn Ísraelsmönnum.
20 Því að ég mun leiða þá inn í landið, sem ég sór feðrum þeirra, sem flýtur í mjólk og hunangi, og þeir munu eta og verða saddir og feitir og snúa sér til annarra guða og dýrka þá, en mér munu þeir hafna og rjúfa sáttmála minn.
21 Og þegar margs konar böl og þrengingar koma yfir þá, þá mun kvæði þetta bera vitni gegn þeim, því að það mun eigi gleymast í munni niðja þeirra. Því að ég veit, hvað þeim býr innanbrjósts nú þegar, áður en ég hefi leitt þá inn í landið, sem ég sór feðrum þeirra."
22 Og Móse skrifaði upp kvæði þetta þann hinn sama dag og kenndi það Ísraelsmönnum.
5 Ég lét þig eftir á Krít, til þess að þú færðir í lag það, sem ógjört var, og skipaðir öldunga í hverri borg, svo sem ég lagði fyrir þig.
6 Öldungur á að vera óaðfinnanlegur, einkvæntur, á að eiga trúuð börn, sem eigi eru sökuð um gjálífi eða óhlýðni.
7 Því að biskup á að vera óaðfinnanlegur, þar sem hann er ráðsmaður Guðs. Hann á ekki að vera sjálfbirgingur, ekki bráður, ekki drykkfelldur, ekki ofsafenginn, ekki sólginn í ljótan gróða.
8 Hann sé gestrisinn, góðgjarn, hóglátur, réttlátur, heilagur og hafi stjórn á sjálfum sér.
9 Hann á að vera maður fastheldinn við hið áreiðanlega orð, sem samkvæmt er kenningunni, til þess að hann sé fær um bæði að áminna með hinni heilnæmu kenningu og hrekja þá, sem móti mæla.
10 Því að margir eru þverbrotnir og fara með hégómamál og leiða í villu, allra helst eru það þeir sem halda fram umskurn,
11 og verður að þagga niður í þeim. Það eru mennirnir, sem kollvarpa heilum heimilum, er þeir kenna það, sem eigi á að kenna, fyrir svívirðilegs gróða sakir.
12 Einhver af þeim, eigin spámaður þeirra, hefur svo að orði komist: "Krítarmenn eru síljúgandi, óargadýr og letimagar."
13 Þessi vitnisburður er sannur. Fyrir þá sök skalt þú vanda harðlega um við þá, til þess að þeir verði heilbrigðir í trúnni,
14 og gefi sig ekki að gyðingaævintýrum og boðum manna, sem fráhverfir eru sannleikanum.
15 Allir hlutir eru hreinum hreinir, en flekkuðum og vantrúuðum er ekkert hreint, heldur er bæði hugur þeirra flekkaður og samviska.
16 Þeir segjast þekkja Guð, en afneita honum með verkum sínum. Þeir eru viðbjóðslegir og óhlýðnir, óhæfir til hvers góðs verks.
by Icelandic Bible Society