Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Revised Common Lectionary (Semicontinuous)

Daily Bible readings that follow the church liturgical year, with sequential stories told across multiple weeks.
Duration: 1245 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 63:1-8

63 Sálmur eftir Davíð, þá er hann var í Júda-eyðimörk.

Drottinn, þú ert minn Guð, þín leita ég, sál mína þyrstir eftir þér, hold mitt þráir þig, í þurru landi, örþrota af vatnsleysi.

Þannig hefi ég litast um eftir þér í helgidóminum til þess að sjá veldi þitt og dýrð,

því að miskunn þín er mætari en lífið. Varir mínar skulu vegsama þig.

Þannig skal ég lofa þig meðan lifi, hefja upp hendurnar í þínu nafni.

Sál mín mettast sem af merg og feiti, og með fagnandi vörum lofar þig munnur minn,

þá er ég minnist þín í hvílu minni, hugsa um þig á næturvökunum.

Því að þú ert mér fulltingi, í skugga vængja þinna fagna ég.

Fjórða bók Móse 13:1-2

13 Drottinn talaði við Móse og sagði:

"Send þú menn til að kanna Kanaanland, er ég mun gefa Ísraelsmönnum. Þér skuluð senda einn mann af ættkvísl hverri, og sé hver þeirra höfðingi meðal þeirra."

Fjórða bók Móse 13:17-14:9

17 Móse sendi þá til að kanna Kanaanland og sagði við þá: "Farið þér inn í Suðurlandið og gangið á fjöll upp

18 og skoðið landið, hvernig það er, og fólkið, sem í því býr, hvort það er hraustlegt eða veiklegt, fátt eða margt,

19 og hvernig landið er, sem það býr í, hvort það er gott eða illt, og hvernig bæirnir eru, sem það býr í, hvort það eru tjöld eða víggirtar borgir,

20 og hvernig landið er, hvort það er feitt eða magurt, hvort þar eru skógar eða ekki. Og verið hugrakkir og komið með nokkuð af ávöxtum landsins." En þetta var á öndverðum vínberjatíma.

21 Héldu þeir nú norður eftir og könnuðu landið frá Síneyðimörk allt til Rehób, þangað sem leið liggur til Hamat.

22 Þeir fóru inn í Suðurlandið og komu til Hebron. Þar voru þeir Ahíman, Sesaí og Talmaí Anakssynir (en Hebron var reist sjö árum fyrr en Sóan í Egyptalandi).

23 Þeir komu í Eskóldal og sniðu þar af vínviðargrein með einum vínberjaklasa og báru hann tveir á stöng milli sín, þar að auki nokkur granatepli og nokkrar fíkjur.

24 Var staður þessi kallaður Eskóldalur vegna klasans, sem Ísraelsmenn skáru þar af.

25 Þeir sneru aftur að fjörutíu dögum liðnum og höfðu þá kannað landið.

26 Og þeir héldu heimleiðis og komu til Móse og Arons og alls safnaðar Ísraelsmanna í Paran-eyðimörk, til Kades, og sögðu þeim og öllum söfnuðinum af ferðum sínum og sýndu þeim ávöxtu landsins.

27 Þeir sögðu Móse frá og mæltu: "Vér komum í landið, þangað sem þú sendir oss, og að sönnu flýtur það í mjólk og hunangi, og þetta er ávöxtur þess.

28 En það er hraust þjóð, sem í landinu býr, og borgirnar eru víggirtar og stórar mjög, og Anaks sonu sáum vér þar einnig.

29 Amalekítar byggja Suðurlandið, og Hetítar, Jebúsítar og Amorítar byggja fjalllendið, og Kanaanítar búa við sjóinn og meðfram Jórdan."

30 Kaleb stöðvaði kurr lýðsins gegn Móse og mælti: "Förum þangað og leggjum það undir oss, því að vér munum fá unnið það."

31 En þeir menn, er með honum höfðu farið, sögðu: "Oss er ofvaxið að fara mót þessari þjóð, því að hún er sterkari en vér."

32 Og þeir sem kannað höfðu landið, sögðu Ísraelsmönnum illt af því og mæltu: "Landið, sem vér fórum um til þess að kanna það, er land sem etur upp íbúa sína, og allt fólkið, sem vér sáum þar, eru risavaxnir menn.

33 Og vér sáum þar risa, Anakssonu, sem eru risa ættar, og vér vorum í augum sjálfra vor sem engisprettur, og eins vorum vér í þeirra augum."

14 Þá æpti allur söfnuðurinn upp yfir sig, og fólkið grét þá nótt.

Og allir Ísraelsmenn mögluðu gegn Móse og Aroni, og allur söfnuðurinn sagði við þá: "Guð gæfi, að vér hefðum dáið í Egyptalandi eða vér hefðum dáið í þessari eyðimörk!

Hví leiðir Drottinn oss inn í þetta land til þess að falla fyrir sverði? Konur vorar og börn munu verða að herfangi. Mun oss eigi betra að snúa aftur til Egyptalands?"

Og þeir sögðu hver við annan: "Tökum oss foringja og hverfum aftur til Egyptalands!"

Þá féllu þeir Móse og Aron á ásjónur sínar frammi fyrir allri samkomu safnaðar Ísraelsmanna.

En Jósúa Núnsson og Kaleb Jefúnneson, tveir þeirra, sem kannað höfðu landið, rifu klæði sín.

Og þeir sögðu við allan söfnuð Ísraelsmanna: "Land það, sem vér fórum um til þess að kanna það, er mesta ágætisland.

Ef Drottinn hefir á oss velþóknun, þá mun hann flytja oss inn í þetta land og gefa oss það, landið, sem flýtur í mjólk og hunangi.

Gjörið aðeins ekki uppreisn móti Drottni og hræðist ekki landsfólkið, því að þeir eru brauð vort. Vikin er frá þeim vörn þeirra, en Drottinn er með oss! Hræðist þá eigi!"

Matteusarguðspjall 17:22-27

22 Þegar þeir voru saman í Galíleu, sagði Jesús við þá: "Mannssonurinn verður framseldur í manna hendur,

23 og þeir munu lífláta hann, en á þriðja degi mun hann upp rísa." Þeir urðu mjög hryggir.

24 Þá er þeir komu til Kapernaum, gengu menn þeir, sem heimta inn musterisgjaldið, til Péturs og spurðu: "Geldur meistari yðar eigi musterisgjaldið?"

25 Hann kvað svo vera. En er hann kom inn, tók Jesús fyrr til máls og mælti: "Hvað líst þér, Símon? Af hverjum heimta konungar jarðarinnar toll eða skatt? Af börnum sínum eða vandalausum?"

26 "Af vandalausum," sagði Pétur. Jesús mælti: "Þá eru börnin frjáls.

27 En til þess vér hneykslum þá ekki, skaltu fara niður að vatni og renna öngli, taktu síðan fyrsta fiskinn, sem þú dregur, opna munn hans og muntu finna pening. Tak hann og greið þeim fyrir mig og þig."

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society