Revised Common Lectionary (Semicontinuous)
63 Sálmur eftir Davíð, þá er hann var í Júda-eyðimörk.
2 Drottinn, þú ert minn Guð, þín leita ég, sál mína þyrstir eftir þér, hold mitt þráir þig, í þurru landi, örþrota af vatnsleysi.
3 Þannig hefi ég litast um eftir þér í helgidóminum til þess að sjá veldi þitt og dýrð,
4 því að miskunn þín er mætari en lífið. Varir mínar skulu vegsama þig.
5 Þannig skal ég lofa þig meðan lifi, hefja upp hendurnar í þínu nafni.
6 Sál mín mettast sem af merg og feiti, og með fagnandi vörum lofar þig munnur minn,
7 þá er ég minnist þín í hvílu minni, hugsa um þig á næturvökunum.
8 Því að þú ert mér fulltingi, í skugga vængja þinna fagna ég.
12 Mirjam og Aron mæltu í gegn Móse vegna blálensku konunnar, er hann hafði gengið að eiga, því að hann hafði gengið að eiga blálenska konu.
2 Og þau sögðu: "Hefir Drottinn aðeins talað við Móse? Hefir hann ekki talað við okkur líka?" Og Drottinn heyrði það.
3 En maðurinn Móse var einkar hógvær, framar öllum mönnum á jörðu.
4 Þá talaði Drottinn allt í einu til Móse, Arons og Mirjam: "Farið þið þrjú til samfundatjaldsins!" Og þau gengu þangað þrjú.
5 Þá sté Drottinn niður í skýstólpanum og nam staðar í tjalddyrunum og kallaði á Aron og Mirjam, og þau gengu bæði fram.
6 Og hann sagði: "Heyrið orð mín! Þegar spámaður er meðal yðar, þá birtist ég honum í sýn, eða tala við hann í draumi.
7 Ekki er því þannig farið um þjón minn Móse. Honum er trúað fyrir öllu húsi mínu.
8 Ég tala við hann munni til munns, berlega og eigi í ráðgátum, og hann sér mynd Drottins. Og hví skirrðust þið þá eigi við að mæla í gegn þjóni mínum, í gegn Móse?"
9 Reiði Drottins upptendraðist gegn þeim, og hann fór burt.
21 Og einn sterkur engill tók upp stein, eins og mikinn kvarnarstein, og kastaði í hafið og sagði: "Svo voveiflega mun Babýlon kollvarpast, borgin mikla, svo að engar menjar skulu eftir verða.
22 Og hörpusláttur og sönglist, pípuhljómur og lúðurþytur skal ekki framar heyrast í þér og engir iðnaðarmenn og iðnir skulu framar í þér finnast og kvarnarhljóð skal eigi framar í þér heyrast.
23 Lampaljós skal eigi framar í þér lýsa og raust brúðguma og brúðar skal eigi framar heyrast í þér. Kaupmenn þínir voru höfðingjar jarðarinnar, af því að allar þjóðir leiddust í villu af töfrum þínum.
24 Og í henni fannst blóð spámanna og heilagra og allra þeirra, sem hafa drepnir verið á jörðinni."
by Icelandic Bible Society