Revised Common Lectionary (Semicontinuous)
97 Drottinn er konungur orðinn! jörðin fagni, eyjafjöldinn gleðjist.
2 Ský og sorti eru umhverfis hann, réttlæti og réttvísi eru grundvöllur hásætis hans,
3 eldur fer fyrir honum og bálast umhverfis spor hans.
4 Leiftur hans lýsa um jarðríki, jörðin sér það og nötrar.
5 Björgin bráðna sem vax fyrir Drottni, fyrir Drottni gjörvallrar jarðarinnar.
6 Himnarnir kunngjöra réttlæti hans, og allar þjóðir sjá dýrð hans.
7 Allir skurðgoðadýrkendur verða til skammar, þeir er stæra sig af falsguðunum. Allir guðir falla fram fyrir honum.
8 Síon heyrir það og gleðst, Júdadætur fagna sakir dóma þinna, Drottinn.
9 Því að þú, Drottinn, ert Hinn hæsti yfir gjörvallri jörðunni, þú ert hátt hafinn yfir alla guði.
10 Drottinn elskar þá er hata hið illa, hann verndar sálir dýrkenda sinna, frelsar þá af hendi óguðlegra.
11 Ljós rennur upp réttlátum og gleði hjartahreinum.
12 Gleðjist, þér réttlátir, yfir Drottni, vegsamið hans heilaga nafn.
7 Þannig fór, af því að Ísraelsmenn höfðu syndgað gegn Drottni, Guði sínum, þeim er leiddi þá út af Egyptalandi, undan valdi Faraós Egyptalandskonungs, og dýrkað aðra guði.
8 Þeir fóru og að siðum þeirra þjóða, er Drottinn hafði stökkt burt undan Ísraelsmönnum, og að siðum Ísraelskonunga, er þeir sjálfir höfðu sett.
9 Þá gjörðu og Ísraelsmenn það, er rangt var gagnvart Drottni, Guði þeirra, og byggðu sér fórnarhæðir í öllum borgum sínum, jafnt varðmannaturnum sem víggirtum borgum.
10 Þeir reistu sér merkissteina og asérur á öllum háum hólum og undir hverju grænu tré
11 og fórnuðu þar reykelsisfórnum á öllum hæðum eins og þjóðirnar, er Drottinn hafði rekið burt undan þeim. Aðhöfðust þeir það sem illt var og egndu Drottin til reiði.
12 Og þeir dýrkuðu skurðgoð, er Drottinn hafði sagt um við þá: ,Þér skuluð eigi gjöra slíkt.`
13 Og þó hafði Drottinn aðvarað Ísrael og Júda fyrir munn allra spámannanna, allra sjáandanna, og sagt: ,Snúið aftur frá yðar vondu vegum og varðveitið skipanir mínar og boðorð í öllum greinum samkvæmt lögmálinu, er ég lagði fyrir feður yðar, og því er ég bauð yður fyrir munn þjóna minna, spámannanna.`
14 En þeir hlýddu ekki, heldur þverskölluðust eins og feður þeirra, er eigi treystu Drottni, Guði sínum.
15 Þeir virtu að vettugi lög hans og sáttmála, þann er hann hafði gjört við feður þeirra, og boðorð hans, þau er hann hafði fyrir þá lagt, og eltu fánýt goð og breyttu heimskulega að dæmi þjóðanna, er umhverfis þá voru, þótt Drottinn hefði bannað þeim að breyta eftir þeim.
16 Þeir yfirgáfu öll boð Drottins, Guðs síns, og gjörðu sér steypt líkneski, tvo kálfa, og þeir gjörðu asérur, féllu fram fyrir öllum himinsins her og dýrkuðu Baal.
17 Þeir létu sonu sína og dætur ganga gegnum eldinn, fóru með galdur og fjölkynngi og ofurseldu sig til að gjöra það, sem illt var í augum Drottins, til þess að egna hann til reiði.
18 Þá reiddist Drottinn Ísrael ákaflega og rak þá burt frá augliti sínu. Ekkert varð eftir nema Júdaættkvísl ein.
19 Júdamenn héldu ekki heldur boðorð Drottins, Guðs síns. Þeir fóru að siðum Ísraelsmanna, er þeir sjálfir höfðu sett.
20 Fyrir því hafnaði Drottinn öllu Ísraels kyni og auðmýkti þá og gaf þá í hendur ræningjum, þar til er hann útskúfaði þeim frá augliti sínu.
25 Þeir fundu hann hinum megin við vatnið og spurðu hann: "Rabbí, nær komstu hingað?"
26 Jesús svaraði þeim: "Sannlega, sannlega segi ég yður: Þér leitið mín ekki af því, að þér sáuð tákn, heldur af því, að þér átuð af brauðunum og urðuð mettir.
27 Aflið yður eigi þeirrar fæðu, sem eyðist, heldur þeirrar fæðu, sem varir til eilífs lífs og Mannssonurinn mun gefa yður. Því á hann hefur faðirinn, Guð sjálfur, sett innsigli sitt."
28 Þá sögðu þeir við hann: "Hvað eigum vér að gjöra, svo að vér vinnum verk Guðs?"
29 Jesús svaraði þeim: "Þetta er verk Guðs, að þér trúið á þann, sem hann sendi."
30 Þeir spurðu hann þá: "Hvaða tákn gjörir þú, svo að vér sjáum og trúum þér? Hvað afrekar þú?
31 Feður vorir átu manna í eyðimörkinni, eins og ritað er: ,Brauð af himni gaf hann þeim að eta."`
32 Jesús sagði við þá: "Sannlega, sannlega segi ég yður: Móse gaf yður ekki brauðið af himni, heldur gefur faðir minn yður hið sanna brauð af himni.
33 Brauð Guðs er sá, sem stígur niður af himni og gefur heiminum líf."
34 Þá sögðu þeir við hann: "Herra, gef oss ætíð þetta brauð."
35 Jesús sagði þeim: "Ég er brauð lífsins. Þann mun ekki hungra, sem til mín kemur, og þann aldrei þyrsta, sem á mig trúir.
by Icelandic Bible Society