Revised Common Lectionary (Semicontinuous)
32 Er fólkið sá, að seinkaði komu Móse ofan af fjallinu, þyrptist fólkið í kringum Aron og sagði við hann: "Kom og gjör oss guð, er fyrir oss fari, því að vér vitum ekki, hvað af þessum Móse er orðið, manninum, er leiddi oss burt af Egyptalandi."
2 Og Aron sagði við þá: "Slítið eyrnagullin úr eyrum kvenna yðar, sona og dætra, og færið mér."
3 Þá sleit allt fólkið eyrnagullin úr eyrum sér og færði Aroni,
4 en hann tók við því af þeim, lagaði það með meitlinum og gjörði af því steyptan kálf. Þá sögðu þeir: "Þetta er guð þinn, Ísrael, sem leiddi þig út af Egyptalandi."
5 Og er Aron sá það, reisti hann altari fyrir framan hann, og Aron lét kalla og segja: "Á morgun skal vera hátíð Drottins."
6 Næsta morgun risu þeir árla, fórnuðu brennifórnum og færðu þakkarfórnir. Síðan settist fólkið niður til að eta og drekka, og því næst stóðu þeir upp til leika.
7 Þá sagði Drottinn við Móse: "Far þú og stíg ofan, því að fólk þitt, sem þú leiddir út af Egyptalandi, hefir misgjört.
8 Skjótt hafa þeir vikið af þeim vegi, sem ég bauð þeim. Þeir hafa gjört sér steyptan kálf, og þeir hafa fallið fram fyrir honum, fært honum fórnir og sagt: ,Þetta er guð þinn, Ísrael, sem leiddi þig út af Egyptalandi."`
9 Drottinn sagði við Móse: "Ég sé nú, að þessi lýður er harðsvírað fólk.
10 Lát mig nú einan, svo að reiði mín upptendrist í gegn þeim og tortími þeim. Síðan vil ég gjöra þig að mikilli þjóð."
11 En Móse reyndi að blíðka Drottin, Guð sinn, og sagði: "Hví skal, Drottinn, reiði þín upptendrast í gegn fólki þínu, sem þú leiddir út af Egyptalandi með miklum mætti og voldugri hendi?
12 Hví skulu Egyptar segja og kveða svo að orði: ,Til ills leiddi hann þá út, til að deyða þá á fjöllum uppi og afmá þá af jörðinni`? Snú þér frá þinni brennandi reiði og lát þig iðra hins illa gegn fólki þínu.
13 Minnst þú þjóna þinna, Abrahams, Ísaks og Ísraels, sem þú hefir svarið við sjálfan þig og heitið: ,Ég vil gjöra niðja yðar marga sem stjörnur himinsins, og allt þetta land, sem ég hefi talað um, vil ég gefa niðjum yðar, og skulu þeir eiga það ævinlega."`
14 Þá iðraðist Drottinn hins illa, er hann hafði hótað að gjöra fólki sínu.
106 Halelúja! Þakkið Drottni, því að hann er góður, því að miskunn hans varir að eilífu.
2 Hver getur sagt frá máttarverkum Drottins, kunngjört allan lofstír hans?
3 Sælir eru þeir, sem gæta réttarins, sem iðka réttlæti alla tíma.
4 Minnst þú mín, Drottinn, með velþóknun þeirri, er þú hefir á lýð þínum, vitja mín með hjálpræði þínu,
5 að ég megi horfa með unun á hamingju þinna útvöldu, gleðjast yfir gleði þjóðar þinnar, fagna með eignarlýð þínum.
6 Vér höfum syndgað ásamt feðrum vorum, höfum breytt illa og óguðlega.
19 Þeir bjuggu til kálf hjá Hóreb og lutu steyptu líkneski,
20 og létu vegsemd sína í skiptum fyrir mynd af uxa, er gras etur.
21 Þeir gleymdu Guði, frelsara sínum, þeim er stórvirki gjörði í Egyptalandi,
22 dásemdarverk í landi Kams, óttaleg verk við Hafið rauða.
23 Þá hugði hann á að tortíma þeim, ef Móse, hans útvaldi, hefði eigi gengið fram fyrir hann og borið af blakið, til þess að afstýra reiði hans, svo að hann skyldi eigi tortíma.
4 Þess vegna, mínir elskuðu og þráðu bræður, gleði mín og kóróna, standið þá stöðugir í Drottni, þér elskuðu.
2 Evodíu áminni ég og Sýntýke áminni ég um að vera samlyndar vegna Drottins.
3 Já, ég bið einnig þig, trúlyndi samþjónn, hjálpa þú þeim, því að þær börðust með mér við boðun fagnaðarerindisins, ásamt Klemens og öðrum samverkamönnum mínum, og standa nöfn þeirra í lífsins bók.
4 Verið ávallt glaðir í Drottni. Ég segi aftur: Verið glaðir.
5 Ljúflyndi yðar verði kunnugt öllum mönnum. Drottinn er í nánd.
6 Verið ekki hugsjúkir um neitt, heldur gjörið í öllum hlutum óskir yðar kunnar Guði með bæn og beiðni og þakkargjörð.
7 Og friður Guðs, sem er æðri öllum skilningi, mun varðveita hjörtu yðar og hugsanir yðar í Kristi Jesú.
8 Að endingu, bræður, allt sem er satt, allt sem er göfugt, rétt og hreint, allt sem er elskuvert og gott afspurnar, hvað sem er dyggð og hvað sem er lofsvert, hugfestið það.
9 Þetta, sem þér hafið bæði lært og numið, heyrt og séð til mín, það skuluð þér gjöra. Og Guð friðarins mun vera með yður.
22 Þá tók Jesús enn að tala við þá í dæmisögum og mælti:
2 "Líkt er um himnaríki og konung einn, sem gjörði brúðkaup sonar síns.
3 Hann sendi þjóna sína að kalla til brúðkaupsins þá, sem boðnir voru, en þeir vildu ekki koma.
4 Aftur sendi hann aðra þjóna og mælti: ,Segið þeim, sem boðnir voru: Veislu mína hef ég búið, uxum mínum og alifé er slátrað, og allt er tilbúið, komið í brúðkaupið.`
5 En þeir skeyttu því ekki. Einn fór á akur sinn, annar til kaupskapar síns,
6 en hinir tóku þjóna hans, misþyrmdu þeim og drápu.
7 Konungur reiddist, sendi út her sinn og lét tortíma morðingjum þessum og brenna borg þeirra.
8 Síðan segir hann við þjóna sína: ,Brúðkaupsveislan er tilbúin, en hinir boðnu voru ekki verðugir.
9 Farið því út á vegamót, og bjóðið í brúðkaupið hverjum þeim sem þér finnið.`
10 Þjónarnir fóru út á vegina og söfnuðu öllum, sem þeir fundu, vondum og góðum, svo að brúðkaupssalurinn varð alskipaður gestum.
11 Konungur gekk þá inn að sjá gestina og leit þar mann, sem var ekki búinn brúðkaupsklæðum.
12 Hann segir við hann: ,Vinur, hvernig ert þú hér kominn og ert ekki í brúðkaupsklæðum?` Maðurinn gat engu svarað.
13 Konungur sagði þá við þjóna sína: ,Bindið hann á höndum og fótum og varpið honum í ystu myrkur. Þar verður grátur og gnístran tanna.`
14 Því að margir eru kallaðir, en fáir útvaldir."
by Icelandic Bible Society