Revised Common Lectionary (Semicontinuous)
106 Halelúja! Þakkið Drottni, því að hann er góður, því að miskunn hans varir að eilífu.
2 Hver getur sagt frá máttarverkum Drottins, kunngjört allan lofstír hans?
3 Sælir eru þeir, sem gæta réttarins, sem iðka réttlæti alla tíma.
4 Minnst þú mín, Drottinn, með velþóknun þeirri, er þú hefir á lýð þínum, vitja mín með hjálpræði þínu,
5 að ég megi horfa með unun á hamingju þinna útvöldu, gleðjast yfir gleði þjóðar þinnar, fagna með eignarlýð þínum.
6 Vér höfum syndgað ásamt feðrum vorum, höfum breytt illa og óguðlega.
19 Þeir bjuggu til kálf hjá Hóreb og lutu steyptu líkneski,
20 og létu vegsemd sína í skiptum fyrir mynd af uxa, er gras etur.
21 Þeir gleymdu Guði, frelsara sínum, þeim er stórvirki gjörði í Egyptalandi,
22 dásemdarverk í landi Kams, óttaleg verk við Hafið rauða.
23 Þá hugði hann á að tortíma þeim, ef Móse, hans útvaldi, hefði eigi gengið fram fyrir hann og borið af blakið, til þess að afstýra reiði hans, svo að hann skyldi eigi tortíma.
9 Þá stigu þeir upp Móse og Aron, Nadab og Abíhú og sjötíu af öldungum Ísraels.
10 Og þeir sáu Ísraels Guð, og var undir fótum hans sem pallur væri, gjörður af safírhellum, og skær sem himinninn sjálfur.
11 En hann útrétti eigi hönd sína gegn höfðingjum Ísraelsmanna. Og þeir sáu Guð og átu og drukku.
4 Þér ótrúu, vitið þér ekki, að vinátta við heiminn er fjandskapur gegn Guði? Hver sem því vill vera vinur heimsins, hann gjörir sig að óvini Guðs.
5 Eða haldið þér að ritningin fari með hégóma, sem segir: "Þráir Guð ekki með afbrýði andann, sem hann gaf bústað í oss?"
6 En því meiri er náðin, sem hann gefur. Þess vegna segir ritningin: "Guð stendur í gegn dramblátum, en auðmjúkum veitir hann náð."
7 Gefið yður því Guði á vald, standið gegn djöflinum, og þá mun hann flýja yður.
8 Nálægið yður Guði, og þá mun hann nálgast yður. Hreinsið hendur yðar, þér syndarar, og gjörið hjörtun flekklaus, þér tvílyndu.
9 Berið yður illa, syrgið og grátið. Breytið hlátri yðar í sorg og gleðinni í hryggð.
10 Auðmýkið yður fyrir Drottni og hann mun upphefja yður.
by Icelandic Bible Society