Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Revised Common Lectionary (Semicontinuous)

Daily Bible readings that follow the church liturgical year, with sequential stories told across multiple weeks.
Duration: 1245 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 119:49-56

49 Minnst þú þess orðs við þjón þinn, sem þú lést mig vona á.

50 Þetta er huggun mín í eymd minni, að orð þitt lætur mig lífi halda.

51 Ofstopamenn spotta mig ákaflega, en ég vík eigi frá lögmáli þínu.

52 Ég minnist dóma þinna frá öndverðu, Drottinn, og læt huggast.

53 Heiftarreiði við óguðlega hrífur mig, við þá er yfirgefa lögmál þitt.

54 Lög þín eru efni ljóða minna á þessum stað, þar sem ég er gestur.

55 Um nætur minnist ég nafns þíns, Drottinn, og geymi laga þinna.

56 Þetta er orðin hlutdeild mín, að halda fyrirmæli þín.

Fimmta bók Móse 6:10-25

10 Þegar Drottinn Guð þinn leiðir þig inn í landið, sem hann sór feðrum þínum, Abraham, Ísak og Jakob, að gefa þér, stórar og fagrar borgir, sem þú hefir ekki reist,

11 og hús full af öllum góðum hlutum, án þess að þú hafir fyllt þau, og úthöggna brunna, sem þú hefir eigi út höggvið, víngarða og olíutré, sem þú hefir ekki gróðursett, og þú etur og verður saddur,

12 þá gæt þú þín, að þú gleymir ekki Drottni, sem leiddi þig út af Egyptalandi, út úr þrælahúsinu.

13 Drottin Guð þinn skalt þú óttast, og hann skalt þú dýrka og við nafn hans skalt þú sverja.

14 Eigi skuluð þér elta neina aðra guði af guðum þjóða þeirra, er umhverfis yður búa _,

15 því að Drottinn Guð þinn, sem býr hjá þér, er vandlátur Guð, _ til þess að eigi upptendrist reiði Drottins Guðs þíns í gegn þér og hann eyði þér úr landinu.

16 Eigi skuluð þér freista Drottins Guðs yðar, eins og þér freistuðuð hans í Massa.

17 Varðveitið kostgæfilega skipanir Drottins Guðs yðar og fyrirmæli hans og lög, þau er hann hefir fyrir þig lagt.

18 Þú skalt gjöra það, sem rétt er og gott í augum Drottins, svo að þér vegni vel og þú komist inn í og fáir til eignar landið góða, sem Drottinn sór feðrum þínum,

19 með því að hann stökkvir burt öllum óvinum þínum undan þér, eins og Drottinn hefir heitið.

20 Þegar sonur þinn spyr þig á síðan og segir: "Hvað eiga fyrirmælin, lögin og ákvæðin að þýða, sem Drottinn Guð vor hefir fyrir yður lagt?"

21 þá skalt þú segja við son þinn: "Vér vorum þrælar Faraós í Egyptalandi, en Drottinn leiddi oss af Egyptalandi með sterkri hendi.

22 Og hann gjörði mikil og skæð tákn og undur á hendur Egyptalandi, Faraó og öllu húsi hans að oss ásjáandi.

23 Og hann leiddi oss út þaðan til þess að fara með oss hingað og gefa oss landið, sem hann sór feðrum vorum.

24 Og hann bauð oss að halda öll þessi lög með því að óttast Drottin Guð vorn, svo að oss mætti vegna vel alla daga og hann halda oss á lífi, eins og allt til þessa.

25 Og vér munum taldir verða réttlátir, ef vér gætum þess að breyta eftir öllum þessum skipunum fyrir augliti Drottins Guðs vors, eins og hann hefir boðið oss."

Jóhannesarguðspjall 11:45-57

45 Margir Gyðingar, sem komnir voru til Maríu og sáu það, sem Jesús gjörði, tóku nú að trúa á hann.

46 En nokkrir þeirra fóru til farísea og sögðu þeim, hvað hann hafði gjört.

47 Æðstu prestarnir og farísearnir kölluðu þá saman ráðið og sögðu: "Hvað eigum vér að gjöra? Þessi maður gjörir mörg tákn.

48 Ef vér leyfum honum að halda svo áfram, munu allir trúa á hann, og þá koma Rómverjar og taka bæði helgidóm vorn og þjóð."

49 En einn þeirra, Kaífas, sem það ár var æðsti prestur, sagði við þá: "Þér vitið ekkert

50 og hugsið ekkert um það, að yður er betra, að einn maður deyi fyrir lýðinn, en að öll þjóðin tortímist."

51 Þetta sagði hann ekki af sjálfum sér, en þar sem hann var æðsti prestur það ár, gat hann spáð því, að Jesús mundi deyja fyrir þjóðina,

52 og ekki fyrir þjóðina eina, heldur og til að safna saman í eitt dreifðum börnum Guðs.

53 Upp frá þeim degi voru þeir ráðnir í að taka hann af lífi.

54 Jesús gekk því ekki lengur um meðal Gyðinga á almannafæri, heldur fór hann þaðan til staðar í grennd við eyðimörkina, í þorp sem heitir Efraím, og þar dvaldist hann með lærisveinum sínum.

55 Nú nálguðust páskar Gyðinga, og margir fóru úr sveitinni upp til Jerúsalem fyrir páskana til að hreinsa sig.

56 Menn leituðu að Jesú og sögðu sín á milli í helgidóminum: "Hvað haldið þér? Skyldi hann ekki koma til hátíðarinnar?"

57 En æðstu prestar og farísear höfðu gefið út skipun um það, að ef nokkur vissi hvar hann væri, skyldi hann segja til, svo að þeir gætu tekið hann.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society