Revised Common Lectionary (Semicontinuous)
20 Guð talaði öll þessi orð og sagði:
2 "Ég er Drottinn Guð þinn, sem leiddi þig út af Egyptalandi, út úr þrælahúsinu.
3 Þú skalt ekki hafa aðra guði en mig.
4 Þú skalt engar líkneskjur gjöra þér né nokkrar myndir eftir því, sem er á himnum uppi, eður því, sem er á jörðu niðri, eður því, sem er í vötnunum undir jörðinni.
7 Þú skalt ekki leggja nafn Drottins Guðs þíns við hégóma, því að Drottinn mun ekki láta þeim óhegnt, sem leggur nafn hans við hégóma.
8 Minnstu þess að halda hvíldardaginn heilagan.
9 Sex daga skalt þú erfiða og vinna allt þitt verk,
12 Heiðra föður þinn og móður þína, svo að þú verðir langlífur í því landi, sem Drottinn Guð þinn gefur þér.
13 Þú skalt ekki morð fremja.
14 Þú skalt ekki drýgja hór.
15 Þú skalt ekki stela.
16 Þú skalt ekki bera ljúgvitni gegn náunga þínum.
17 Þú skalt ekki girnast hús náunga þíns. Þú skalt ekki girnast konu náunga þíns, ekki þræl hans eða ambátt, ekki uxa hans eða asna, né nokkuð það, sem náungi þinn á."
18 Allt fólkið heyrði og sá reiðarþrumurnar og eldingarnar og lúðurþytinn og fjallið rjúkandi. Og er fólkið sá þetta, skelfdust þeir og stóðu langt í burtu.
19 Þeir sögðu þá við Móse: "Tala þú við oss og vér skulum hlýða, en lát ekki Guð tala við oss, að vér deyjum ekki."
20 Og Móse sagði við fólkið: "Óttist ekki, því að Guð er kominn til þess að reyna yður og til þess að hans ótti sé yður fyrir augum, svo að þér syndgið ekki."
19 Til söngstjórans. Davíðssálmur.
2 Himnarnir segja frá Guðs dýrð, og festingin kunngjörir verkin hans handa.
3 Hver dagurinn kennir öðrum, hver nóttin boðar annarri speki.
4 Engin ræða, engin orð, ekki heyrist raust þeirra.
5 Og þó fer hljómur þeirra um alla jörðina, og orð þeirra ná til endimarka heims. Þar reisti hann röðlinum tjald.
6 Hann er sem brúðguminn, er gengur út úr svefnhúsi sínu, hlakkar sem hetja til að renna skeið sitt.
7 Við takmörk himins rennur hann upp, og hringferð hans nær til enda himins, og ekkert dylst fyrir geislaglóð hans. _________
8 Lögmál Drottins er lýtalaust, hressir sálina, vitnisburður Drottins er áreiðanlegur, gjörir hinn fávísa vitran.
9 Fyrirmæli Drottins eru rétt, gleðja hjartað. Boðorð Drottins eru skír, hýrga augun.
10 Ótti Drottins er hreinn, varir að eilífu. Ákvæði Drottins eru sannleikur, eru öll réttlát.
11 Þau eru dýrmætari heldur en gull, já, gnóttir af skíru gulli, og sætari en hunang, já, hunangsseimur.
12 Þjónn þinn varðveitir þau kostgæfilega, að halda þau hefir mikil laun í för með sér.
13 En hver verður var við yfirsjónirnar? Sýkna mig af leyndum brotum!
14 Og varðveit þjón þinn fyrir ofstopamönnum, lát þá eigi drottna yfir mér. Þá verð ég lýtalaus og sýknaður af miklu afbroti.
15 Ó að orðin af munni mínum yrðu þér þóknanleg og hugsanir hjarta míns kæmu fram fyrir auglit þitt, þú Drottinn, hellubjarg mitt og frelsari!
4 jafnvel þótt ég hafi einnig þá ytri yfirburði, sem ég gæti treyst. Ef einhver annar þykist geta treyst ytri yfirburðum, þá get ég það fremur.
5 Ég var umskorinn á áttunda degi, af kyni Ísraels, ættkvísl Benjamíns, Hebrei af Hebreum, farísei í afstöðunni til lögmálsins,
6 svo ákafur, að ég ofsótti kirkjuna. Ef litið er á réttlætið, sem fæst með lögmálinu, var ég vammlaus.
7 En það, sem var mér ávinningur, met ég nú vera tjón sakir Krists.
8 Já, meira að segja met ég allt vera tjón hjá þeim yfirburðum að þekkja Krist Jesú, Drottin minn. Sakir hans hef ég misst allt og met það sem sorp, til þess að ég geti áunnið Krist
9 og reynst vera í honum. Nú á ég ekki eigið réttlæti, það er fæst af lögmáli, heldur það er fæst fyrir trú á Krist, réttlætið frá Guði með trúnni. _
10 Ég vil þekkja Krist og kraft upprisu hans og samfélag písla hans með því að mótast eftir honum í dauða hans.
11 Mætti mér auðnast að ná til upprisunnar frá dauðum.
12 Ekki er svo, að ég hafi þegar náð því eða sé þegar fullkominn. En ég keppi eftir því, ef ég skyldi geta höndlað það, með því að ég er höndlaður af Kristi Jesú.
13 Bræður, ekki tel ég sjálfan mig enn hafa höndlað það.
14 En eitt gjöri ég. Ég gleymi því, sem að baki er, en seilist eftir því, sem framundan er, og keppi þannig að markinu, til verðlaunanna á himnum, sem Guð hefur kallað oss til fyrir Krist Jesú.
33 Heyrið aðra dæmisögu: Landeigandi nokkur plantaði víngarð. Hann hlóð garð um hann, gróf fyrir vínþröng og reisti turn, seldi hann síðan vínyrkjum á leigu og fór úr landi.
34 Þegar ávaxtatíminn nálgaðist, sendi hann þjóna sína til vínyrkjanna að fá ávöxt sinn.
35 En vínyrkjarnir tóku þjóna hans, börðu einn, drápu annan og grýttu hinn þriðja.
36 Aftur sendi hann aðra þjóna, fleiri en þá fyrri, og eins fóru þeir með þá.
37 Síðast sendi hann til þeirra son sinn og sagði: "Þeir munu virða son minn.
38 Þegar vínyrkjarnir sáu soninn, sögðu þeir sín á milli: ,Þetta er erfinginn. Förum og drepum hann, og náum arfi hans.`
39 Og þeir tóku hann, köstuðu honum út fyrir víngarðinn og drápu hann.
40 Hvað mun nú eigandi víngarðsins gjöra við vínyrkja þessa, þegar hann kemur?"
41 Þeir svara: "Þeim vondu mönnum mun hann vægðarlaust tortíma og selja víngarðinn öðrum vínyrkjum á leigu, sem gjalda honum ávöxtinn á réttum tíma."
42 Og Jesús segir við þá: "Hafið þér aldrei lesið í ritningunum: Sá steinn, sem smiðirnir höfnuðu, er orðinn hyrningarsteinn. Þetta er verk Drottins, og undursamlegt er það í augum vorum.
43 Þess vegna segi ég yður: Guðs ríki verður frá yður tekið og gefið þeirri þjóð, sem ber ávexti þess. [
44 Sá sem fellur á þennan stein, mun sundur molast, og þann sem hann fellur á, mun hann sundur merja.]"
45 Þegar æðstu prestarnir og farísearnir heyrðu dæmisögur hans, skildu þeir, að hann átti við þá.
46 Þeir vildu taka hann höndum, en óttuðust fólkið, þar eð menn töldu hann vera spámann.
by Icelandic Bible Society