Revised Common Lectionary (Semicontinuous)
19 Til söngstjórans. Davíðssálmur.
2 Himnarnir segja frá Guðs dýrð, og festingin kunngjörir verkin hans handa.
3 Hver dagurinn kennir öðrum, hver nóttin boðar annarri speki.
4 Engin ræða, engin orð, ekki heyrist raust þeirra.
5 Og þó fer hljómur þeirra um alla jörðina, og orð þeirra ná til endimarka heims. Þar reisti hann röðlinum tjald.
6 Hann er sem brúðguminn, er gengur út úr svefnhúsi sínu, hlakkar sem hetja til að renna skeið sitt.
7 Við takmörk himins rennur hann upp, og hringferð hans nær til enda himins, og ekkert dylst fyrir geislaglóð hans. _________
8 Lögmál Drottins er lýtalaust, hressir sálina, vitnisburður Drottins er áreiðanlegur, gjörir hinn fávísa vitran.
9 Fyrirmæli Drottins eru rétt, gleðja hjartað. Boðorð Drottins eru skír, hýrga augun.
10 Ótti Drottins er hreinn, varir að eilífu. Ákvæði Drottins eru sannleikur, eru öll réttlát.
11 Þau eru dýrmætari heldur en gull, já, gnóttir af skíru gulli, og sætari en hunang, já, hunangsseimur.
12 Þjónn þinn varðveitir þau kostgæfilega, að halda þau hefir mikil laun í för með sér.
13 En hver verður var við yfirsjónirnar? Sýkna mig af leyndum brotum!
14 Og varðveit þjón þinn fyrir ofstopamönnum, lát þá eigi drottna yfir mér. Þá verð ég lýtalaus og sýknaður af miklu afbroti.
15 Ó að orðin af munni mínum yrðu þér þóknanleg og hugsanir hjarta míns kæmu fram fyrir auglit þitt, þú Drottinn, hellubjarg mitt og frelsari!
10 Sex ár skalt þú sá jörð þína og safna gróða hennar,
11 en sjöunda árið skalt þú láta hana liggja ónotaða og hvílast, svo að hinir fátæku meðal fólks þíns megi eta. Það sem þeir leifa, mega villidýrin eta. Eins skalt þú fara með víngarð þinn og olíutré þín.
12 Sex daga skalt þú verk þitt vinna, en sjöunda daginn skalt þú halda heilagt, svo að uxi þinn og asni geti hvílt sig, og sonur ambáttar þinnar og útlendingurinn megi endurnærast.
13 Allt sem ég hefi sagt yður, skuluð þér halda. Nafn annarra guða megið þér ekki nefna. Eigi skal það heyrast af þínum munni.
40 Þá sögðu nokkrir úr mannfjöldanum, sem hlýddu á þessi orð: "Þessi er sannarlega spámaðurinn."
41 Aðrir mæltu: "Hann er Kristur." En sumir sögðu: "Mundi Kristur þá koma frá Galíleu?
42 Hefur ekki ritningin sagt, að Kristur komi af kyni Davíðs og frá Betlehem, þorpinu þar sem Davíð var?"
43 Þannig greindi menn á um hann.
44 Nokkrir þeirra vildu grípa hann, en þó lagði enginn hendur á hann.
45 Nú komu þjónarnir til æðstu prestanna og faríseanna, sem sögðu við þá: "Hvers vegna komuð þér ekki með hann?"
46 Þjónarnir svöruðu: "Aldrei hefur nokkur maður talað þannig."
47 Þá sögðu farísearnir: "Létuð þér þá einnig leiðast afvega?
48 Ætli nokkur af höfðingjunum hafi farið að trúa á hann, eða þá af faríseum?
49 Þessi almúgi, sem veit ekkert í lögmálinu, hann er bölvaður!"
50 Nikódemus, sem kom til hans fyrrum og var einn af þeim, segir við þá:
51 "Mundi lögmál vort dæma mann, nema hann sé yfirheyrður áður og að því komist, hvað hann hefur aðhafst?"
52 Þeir svöruðu honum: "Ert þú nú líka frá Galíleu? Gáðu að og sjáðu, að enginn spámaður kemur úr Galíleu."
by Icelandic Bible Society