Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Revised Common Lectionary (Semicontinuous)

Daily Bible readings that follow the church liturgical year, with sequential stories told across multiple weeks.
Duration: 1245 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 42

42 Til söngstjórans. Kóraítamaskíl.

Eins og hindin, sem þráir vatnslindir, þráir sál mín þig, ó Guð.

Sál mína þyrstir eftir Guði, hinum lifanda Guði. Hvenær mun ég fá að koma og birtast fyrir augliti Guðs?

Tár mín urðu fæða mín dag og nótt, af því menn segja við mig allan daginn: "Hvar er Guð þinn?"

Um það vil ég hugsa og úthella sál minni, sem í mér er, hversu ég gekk fram í mannþrönginni, leiddi þá til Guðs húss með fagnaðarópi og lofsöng, með hátíðaglaumi.

Hví ert þú beygð, sál mín, og ólgar í mér? Vona á Guð, því að enn mun ég fá að lofa hann, hjálpræði auglitis míns og Guð minn.

Guð minn, sál mín er beygð í mér, fyrir því vil ég minnast þín frá Jórdan- og Hermonlandi, frá litla fjallinu.

Eitt flóðið kallar á annað, þegar fossar þínir duna, allir boðar þínir og bylgjur ganga yfir mig.

Um daga býður Drottinn út náð sinni, og um nætur syng ég honum ljóð, bæn til Guðs lífs míns.

10 Ég mæli til Guðs: "Þú bjarg mitt, hví hefir þú gleymt mér? hví verð ég að ganga harmandi, kúgaður af óvinum?"

11 Háð fjandmanna minna er sem rotnun í beinum mínum, er þeir segja við mig allan daginn: "Hvar er Guð þinn?"

12 Hví ert þú beygð, sál mín, og ólgar í mér? Vona á Guð, því að enn mun ég fá að lofa hann, hjálpræði auglitis míns og Guð minn.

Önnur bók Móse 19:9-25

Þá sagði Drottinn við Móse: "Sjá, ég vil koma til þín í dimmu skýi, svo að fólkið heyri, er ég tala við þig, og trúi þér ævinlega." Og Móse flutti Drottni orð lýðsins.

10 Þá mælti Drottinn við Móse: "Far til fólksins og helga þá í dag og á morgun, og lát þá þvo klæði sín,

11 og skulu þeir vera búnir á þriðja degi, því að á þriðja degi mun Drottinn ofan stíga á Sínaífjall í augsýn alls lýðsins.

12 En þú skalt marka fólkinu svið umhverfis og segja: ,Varist að ganga upp á fjallið eða snerta fjallsræturnar.` Hver sem snertir fjallið, skal vissulega láta líf sitt.

13 Engin mannshönd skal snerta hann, heldur skal hann grýttur eða skotinn til bana, hvort það er heldur skepna eða maður, þá skal það ekki lífi halda. Þegar lúðurinn kveður við, skulu þeir stíga upp á fjallið."

14 Þá gekk Móse ofan af fjallinu til fólksins og helgaði fólkið, og þeir þvoðu klæði sín.

15 Og hann sagði við fólkið: "Verið búnir á þriðja degi: Komið ekki nærri nokkurri konu."

16 Á þriðja degi, þegar ljóst var orðið, gengu reiðarþrumur og eldingar, og þykkt ský lá á fjallinu, og heyrðist mjög sterkur lúðurþytur. Skelfdist þá allt fólkið, sem var í búðunum.

17 Þá leiddi Móse fólkið út úr búðunum til móts við Guð, og tóku menn sér stöðu undir fjallinu.

18 Sínaífjall var allt í einum reyk, fyrir því að Drottinn sté niður á það í eldinum. Mökkurinn stóð upp af því, eins og reykur úr ofni, og allt fjallið lék á reiðiskjálfi.

19 Og lúðurþyturinn varð æ sterkari og sterkari. Móse talaði, og Guð svaraði honum hárri röddu.

20 Og Drottinn sté niður á Sínaífjall, á fjallstindinn. Og Drottinn kallaði Móse upp á fjallstindinn, og gekk Móse þá upp.

21 Þá sagði Drottinn við Móse: "Stíg ofan og legg ríkt á við fólkið, að það brjótist ekki upp hingað til Drottins fyrir forvitni sakir og fjöldi af þeim farist.

22 Einnig prestarnir, sem annars nálgast Drottin, skulu helga sig, svo að Drottinn gjöri eigi skarð í hóp þeirra."

23 En Móse sagði við Drottin: "Fólkið getur ekki stigið upp á Sínaífjall, því að þú hefir lagt ríkt á við oss og sagt: ,Set vébönd umhverfis fjallið og helga það."`

24 Og Drottinn sagði við hann: "Far nú og stíg ofan, og kom því næst upp aftur og Aron með þér. En prestarnir og fólkið má ekki brjótast upp hingað til Drottins, að hann gjöri ekki skarð í hóp þeirra."

25 Móse gekk þá ofan til fólksins og sagði þeim þetta.

Matteusarguðspjall 9:2-8

Þar færa menn honum lama mann, sem lá í rekkju. Þegar Jesús sá trú þeirra, sagði hann við lama manninn: "Vertu hughraustur, barnið mitt, syndir þínar eru fyrirgefnar."

Nokkrir fræðimenn sögðu þá með sjálfum sér: "Hann guðlastar!"

En Jesús þekkti hugsanir þeirra og sagði: "Hví hugsið þér illt í hjörtum yðar?

Hvort er auðveldara að segja: ,Syndir þínar eru fyrirgefnar` eða: ,Statt upp og gakk`?

En til þess að þér vitið, að Mannssonurinn hefur vald á jörðu að fyrirgefa syndir, þá segi ég þér" _ og nú talar hann við lama manninn: "Statt upp, tak rekkju þína, og far heim til þín!"

Og hann stóð upp og fór heim til sín.

En fólkið, sem horfði á þetta, varð ótta slegið og lofaði Guð, sem gefið hafði mönnum slíkt vald.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society