Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Revised Common Lectionary (Semicontinuous)

Daily Bible readings that follow the church liturgical year, with sequential stories told across multiple weeks.
Duration: 1245 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Önnur bók Móse 17:1-7

17 Allur söfnuður Ísraelsmanna tók sig nú upp frá Sín-eyðimörk, og fóru þeir í áföngum að boði Drottins og settu herbúðir sínar í Refídím. En þar var ekkert vatn handa fólkinu að drekka.

Þá þráttaði fólkið við Móse og sagði: "Gef oss vatn að drekka!" En Móse sagði við þá: "Hví þráttið þér við mig? Hví freistið þér Drottins?"

Og fólkið þyrsti þar eftir vatni, og fólkið möglaði gegn Móse og sagði: "Hví fórstu með oss frá Egyptalandi til þess að láta oss og börn vor og fénað deyja af þorsta?"

Þá hrópaði Móse til Drottins og sagði: "Hvað skal ég gjöra við þetta fólk? Það vantar lítið á að þeir grýti mig."

En Drottinn sagði við Móse: "Gakk þú fram fyrir fólkið og tak með þér nokkra af öldungum Ísraels, og tak í hönd þér staf þinn, er þú laust með ána, og gakk svo af stað.

Sjá, ég mun standa frammi fyrir þér þar á klettinum á Hóreb, en þú skalt ljósta á klettinn, og mun þá vatn spretta af honum, svo að fólkið megi drekka."

Og Móse gjörði svo í augsýn öldunga Ísraels. Og hann kallaði þennan stað Massa og Meríba sökum þráttanar Ísraelsmanna, og fyrir því að þeir höfðu freistað Drottins og sagt: "Hvort mun Drottinn vera meðal vor eður ekki?"

Sálmarnir 78:1-4

78 Asafs-maskíl. Hlýð þú, lýður minn, á kenning mína, hneigið eyrun að orðum munns míns.

Ég vil opna munn minn með orðskviði, mæla fram gátur frá fornum tíðum.

Það sem vér höfum heyrt og skilið og feður vorir sögðu oss,

það viljum vér eigi dylja fyrir niðjum þeirra, er vér segjum seinni kynslóð frá lofstír Drottins og mætti hans og dásemdarverkum og þeim undrum er hann gjörði.

Sálmarnir 78:12-16

12 Í augsýn feðra þeirra hafði hann framið furðuverk í Egyptalandi og Sóanhéraði.

13 Hann klauf hafið og lét þá fara yfir og lét vatnið standa sem vegg.

14 Hann leiddi þá með skýinu um daga og alla nóttina með eldskini.

15 Hann klauf björg í eyðimörkinni og gaf þeim gnóttir að drekka eins og úr stórvötnum,

16 hann lét læki spretta upp úr klettinum og vatnið streyma niður sem fljót.

Bréf Páls til Filippímann 2:1-13

Ef nokkurs má sín upphvatning í nafni Krists, ef kærleiksávarp, ef samfélag andans, ef ástúð og meðaumkun má sín nokkurs,

þá gjörið gleði mína fullkomna með því að vera samhuga, hafa sama kærleika, einn hug og eina sál.

Gjörið ekkert af eigingirni eða hégómagirnd. Verið lítillátir og metið aðra meira en sjálfa yður.

Lítið ekki aðeins á eigin hag, heldur einnig annarra.

Verið með sama hugarfari sem Jesús Kristur var.

Hann var í Guðs mynd. En hann fór ekki með það sem feng sinn að vera Guði líkur.

Hann svipti sig öllu, tók á sig þjóns mynd og varð mönnum líkur.

Hann kom fram sem maður, lægði sjálfan sig og varð hlýðinn allt til dauða, já, dauðans á krossi.

Fyrir því hefur og Guð hátt upp hafið hann og gefið honum nafnið, sem hverju nafni er æðra,

10 til þess að fyrir nafni Jesú skuli hvert kné beygja sig á himni, jörðu og undir jörðu

11 og sérhver tunga játa Guði föður til dýrðar: Jesús Kristur er Drottinn.

12 Þess vegna, mínir elskuðu, þér sem ætíð hafið verið hlýðnir, vinnið nú að sáluhjálp yðar með ugg og ótta eins og þegar ég var hjá yður, því fremur nú, þegar ég er fjarri.

13 Því að það er Guð, sem verkar í yður bæði að vilja og framkvæma sér til velþóknunar.

Matteusarguðspjall 21:23-32

23 Hann gekk í helgidóminn. Þá komu æðstu prestarnir og öldungar lýðsins til hans, þar sem hann var að kenna, og spurðu: "Með hvaða valdi gjörir þú þetta? Hver gaf þér þetta vald?"

24 Jesús svaraði þeim: "Ég vil og leggja eina spurningu fyrir yður. Ef þér svarið mér, mun ég segja yður, með hvaða valdi ég gjöri þetta.

25 Hvaðan var skírn Jóhannesar? Frá himni eða frá mönnum?" Þeir ráðguðust hver við annan og sögðu: "Ef vér svörum: ,Frá himni,` spyr hann: ,Hví trúðuð þér honum þá ekki?`

26 Ef vér segjum: ,Frá mönnum,` megum vér óttast lýðinn, því að allir telja Jóhannes spámann."

27 Og þeir svöruðu Jesú: "Vér vitum það ekki." Hann sagði við þá: "Ég segi yður þá ekki heldur, með hvaða valdi ég gjöri þetta.

28 Hvað virðist yður? Maður nokkur átti tvo sonu. Hann gekk til hins fyrra og sagði: ,Sonur minn, far þú og vinn í dag í víngarði mínum.`

29 Hann svaraði: ,Það vil ég ekki.` En eftir á sá hann sig um hönd og fór.

30 Þá gekk hann til hins síðara og mælti á sömu leið. Hann svaraði: ,Já, herra,` en fór hvergi.

31 Hvor þeirra tveggja gjörði vilja föðurins?" Þeir svara: "Sá fyrri." Þá mælti Jesús: "Sannlega segi ég yður: Tollheimtumenn og skækjur verða á undan yður inn í Guðs ríki.

32 Því að Jóhannes kom til yðar og vísaði veg réttlætis, og þér trúðuð honum ekki, en tollheimtumenn og skækjur trúðu honum. Það sáuð þér, en snerust samt ekki síðar og trúðuð honum.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society