Revised Common Lectionary (Semicontinuous)
2 Þá möglaði allur söfnuður Ísraelsmanna gegn Móse og Aroni í eyðimörkinni.
3 Og Ísraelsmenn sögðu við þá: "Betur að vér hefðum dáið fyrir hendi Drottins í Egyptalandi, er vér sátum við kjötkatlana og átum oss sadda af brauði, því að þið hafið farið með oss út á þessa eyðimörk til þess að láta allan þennan mannfjölda deyja af hungri."
4 Þá sagði Drottinn við Móse: "Sjá, ég vil láta rigna brauði af himni handa yður, og skal fólkið fara út og safna hvern dag svo miklu sem þarf þann daginn, svo að ég reyni það, hvort það vill breyta eftir mínu lögmáli eða ekki.
5 Og er þeir þá á hinum sjötta degi tilreiða það, sem þeir koma heim með, skal það vera tvöfalt við það, sem þeir annars safna daglega."
6 Þá sögðu Móse og Aron við alla Ísraelsmenn: "Í kveld skuluð þér viðurkenna, að Drottinn hefir leitt yður út af Egyptalandi.
7 Og á morgun skuluð þér sjá dýrð Drottins, með því að hann hefir heyrt möglanir yðar gegn Drottni. Því að hvað erum við, að þér möglið gegn okkur?"
8 Og Móse sagði: "Þetta verður, þegar Drottinn gefur yður að kveldi kjöt að eta og brauð til saðnings að morgni, því að Drottinn hefir heyrt möglanir yðar, sem þér beinið gegn honum. Því að hvað erum við? Þér möglið ekki gegn okkur, heldur gegn Drottni."
9 Og Móse sagði við Aron: "Seg við allan söfnuð Ísraelsmanna: ,Gangið nær í augsýn Drottins, því að hann hefir heyrt möglanir yðar."`
10 Og er Aron talaði þetta til alls safnaðar Ísraelsmanna, sneru þeir sér í móti eyðimörkinni, og sjá, dýrð Drottins birtist í skýinu.
11 Drottinn talaði við Móse og sagði:
12 "Ég hefi heyrt möglanir Ísraelsmanna. Tala til þeirra og seg: ,Um sólsetur skuluð þér kjöt eta, og að morgni skuluð þér fá saðning yðar af brauði, og þér skuluð viðurkenna, að ég er Drottinn, Guð yðar."`
13 Um kveldið bar svo við, að lynghæns komu og huldu búðirnar, en um morguninn var döggmóða umhverfis búðirnar.
14 En er upp létti döggmóðunni, lá eitthvað þunnt, smákornótt yfir eyðimörkinni, þunnt eins og héla á jörðu.
15 Þegar Ísraelsmenn sáu þetta, sögðu þeir hver við annan: "Hvað er þetta?" Því að þeir vissu ekki, hvað það var. Þá sagði Móse við þá: "Þetta er brauðið, sem Drottinn gefur yður til fæðu.
105 Þakkið Drottni, ákallið nafn hans, gjörið máttarverk hans kunn meðal þjóðanna!
2 Syngið fyrir honum, leikið fyrir honum, talið um öll hans dásemdarverk.
3 Hrósið yður af hans helga nafni, hjarta þeirra er leita Drottins gleðjist.
4 Leitið Drottins og máttar hans, stundið sífellt eftir augliti hans.
5 Minnist dásemdarverka hans, þeirra er hann gjörði, tákna hans og refsidóma munns hans,
6 þér niðjar Abrahams, þjónar hans, þér synir Jakobs, hans útvöldu.
37 Síðan leiddi hann þá út með silfri og gulli, enginn hrasaði af kynkvíslum hans.
38 Egyptaland gladdist yfir burtför þeirra, því að ótti við þá var fallinn yfir þá.
39 Hann breiddi út ský sem hlíf og eld til þess að lýsa um nætur.
40 Þeir báðu, þá lét hann lynghæns koma og mettaði þá með himnabrauði.
41 Hann opnaði klett, svo að vatn vall upp, rann sem fljót um eyðimörkina.
42 Hann minntist síns heilaga heits við Abraham þjón sinn
43 og leiddi lýð sinn út með gleði, sína útvöldu með fögnuði.
44 Og hann gaf þeim lönd þjóðanna, það sem þjóðirnar höfðu aflað með striti, fengu þeir til eignar,
45 til þess að þeir skyldu halda lög hans og varðveita lögmál hans. Halelúja.
21 Því að lífið er mér Kristur og dauðinn ávinningur.
22 En eigi ég áfram að lifa á jörðinni, þá verður meiri árangur af starfi mínu. Veit ég eigi hvort ég á heldur að kjósa.
23 Ég á úr tvennu vöndu að ráða: Mig langar til að fara héðan og vera með Kristi, því að það væri miklu betra.
24 En yðar vegna er það nauðsynlegra, að ég haldi áfram að lifa hér á jörðu.
25 Og í trausti þess veit ég, að ég mun lifa og halda áfram að vera hjá yður öllum, yður til framfara og gleði í trúnni.
26 Þegar ég kem aftur til yðar, getið þér vegna mín enn framar hrósað yður í Kristi Jesú.
27 En hvað sem öðru líður, þá hegðið yður eins og samboðið er fagnaðarerindinu um Krist. Hvort sem ég kem og heimsæki yður eða ég er fjarverandi, skal ég fá að heyra um yður, að þér standið stöðugir í einum anda og berjist saman með einni sál fyrir trúnni á fagnaðarerindið
28 og látið í engu skelfast af mótstöðumönnunum. Fyrir þá er það merki frá Guði um glötun þeirra, en um hjálpræði yðar.
29 Því að yður er veitt sú náð fyrir Krists sakir, ekki einungis að trúa á hann, heldur og að þola þjáningar hans vegna.
30 Nú eigið þér í sömu baráttu sem þér sáuð mig heyja og heyrið enn um mig.
20 Líkt er um himnaríki og húsbónda einn, sem gekk út árla morguns að ráða verkamenn í víngarð sinn.
2 Hann samdi við verkamennina um denar í daglaun og sendi þá í víngarð sinn.
3 Síðan gekk hann út um dagmál og sá aðra menn standa á torginu iðjulausa.
4 Hann sagði við þá: ,Farið þér einnig í víngarðinn, og ég mun greiða yður sanngjörn laun.`
5 Þeir fóru. Aftur gekk hann út um hádegi og nón og gjörði sem fyrr.
6 Og síðdegis fór hann enn út og sá menn standa þar. Hann spyr þá: ,Hví hímið þér hér iðjulausir allan daginn?`
7 Þeir svara: ,Enginn hefur ráðið oss.` Hann segir við þá: ,Farið þér einnig í víngarðinn.`
8 Þegar kvöld var komið, sagði eigandi víngarðsins við verkstjóra sinn: ,Kalla þú á verkamennina og greið þeim kaupið. Þú skalt byrja á þeim síðustu og enda á þeim fyrstu.`
9 Nú komu þeir, sem ráðnir voru síðdegis, og fengu hver sinn denar.
10 Þegar þeir fyrstu komu, bjuggust þeir við að fá meira, en fengu sinn denarinn hver.
11 Þeir tóku við honum og fóru að mögla gegn húsbónda sínum.
12 Þeir sögðu: ,Þessir síðustu hafa unnið aðeins eina stund, og þú gjörir þá jafna oss, er höfum borið hita og þunga dagsins.`
13 Hann sagði þá við einn þeirra: ,Vinur, ekki gjöri ég þér rangt til, sömdum við ekki um einn denar?
14 Taktu þitt og farðu leiðar þinnar. Ég vil gjalda þessum síðasta eins og þér.
15 Er ég ekki sjálfur fjár míns ráðandi? Eða sérðu ofsjónum yfir því, að ég er góðgjarn?`
16 Þannig verða hinir síðustu fyrstir og hinir fyrstu síðastir."
by Icelandic Bible Society