Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Revised Common Lectionary (Semicontinuous)

Daily Bible readings that follow the church liturgical year, with sequential stories told across multiple weeks.
Duration: 1245 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 105:1-6

105 Þakkið Drottni, ákallið nafn hans, gjörið máttarverk hans kunn meðal þjóðanna!

Syngið fyrir honum, leikið fyrir honum, talið um öll hans dásemdarverk.

Hrósið yður af hans helga nafni, hjarta þeirra er leita Drottins gleðjist.

Leitið Drottins og máttar hans, stundið sífellt eftir augliti hans.

Minnist dásemdarverka hans, þeirra er hann gjörði, tákna hans og refsidóma munns hans,

þér niðjar Abrahams, þjónar hans, þér synir Jakobs, hans útvöldu.

Sálmarnir 105:37-45

37 Síðan leiddi hann þá út með silfri og gulli, enginn hrasaði af kynkvíslum hans.

38 Egyptaland gladdist yfir burtför þeirra, því að ótti við þá var fallinn yfir þá.

39 Hann breiddi út ský sem hlíf og eld til þess að lýsa um nætur.

40 Þeir báðu, þá lét hann lynghæns koma og mettaði þá með himnabrauði.

41 Hann opnaði klett, svo að vatn vall upp, rann sem fljót um eyðimörkina.

42 Hann minntist síns heilaga heits við Abraham þjón sinn

43 og leiddi lýð sinn út með gleði, sína útvöldu með fögnuði.

44 Og hann gaf þeim lönd þjóðanna, það sem þjóðirnar höfðu aflað með striti, fengu þeir til eignar,

45 til þess að þeir skyldu halda lög hans og varðveita lögmál hans. Halelúja.

Önnur bók Móse 16:22-30

22 En á sjötta deginum söfnuðu þeir tvöfalt meira af brauði, tvo gómera á mann. Komu þá allir foringjar lýðsins og sögðu Móse frá.

23 En hann sagði við þá: "Þetta er það, sem Drottinn sagði: ,Á morgun er hvíldardagur, heilagur hvíldardagur Drottins. Bakið það, sem þér viljið baka, og sjóðið það, sem þér viljið sjóða, en allt það, sem af gengur, skuluð þér leggja fyrir og geyma til morguns."`

24 Þeir lögðu það þá fyrir til næsta morguns, eins og Móse bauð, og fúlnaði það ekki né maðkaði.

25 Þá sagði Móse: "Í dag skuluð þér eta það, því að í dag er hvíldardagur Drottins. Í dag finnið þér það ekki á mörkinni.

26 Sex daga skuluð þér safna því, en sjöundi dagurinn er hvíldardagur, þá mun ekkert finnast."

27 Og sjöunda daginn gengu nokkrir af fólkinu út til að safna, en fundu ekkert.

28 Drottinn sagði við Móse: "Hversu lengi tregðist þér við að varðveita boðorð mín og lög?

29 Lítið á! Vegna þess að Drottinn hefir gefið yður hvíldardaginn, þess vegna gefur hann yður sjötta daginn brauð til tveggja daga. Haldi hver maður kyrru fyrir á sínum stað, enginn fari að heiman á sjöunda deginum."

30 Og fólkið hvíldist á hinum sjöunda degi.

Matteusarguðspjall 19:23-30

23 En Jesús sagði við lærisveina sína: "Sannlega segi ég yður: Torvelt verður auðmanni inn að ganga í himnaríki.

24 Enn segi ég: Auðveldara er úlfalda að fara gegnum nálarauga en auðmanni að komast inn í Guðs ríki."

25 Þegar lærisveinarnir heyrðu þetta, urðu þeir steini lostnir og sögðu: "Hver getur þá orðið hólpinn?"

26 Jesús horfði á þá og sagði: "Fyrir mönnum eru engin ráð til þessa, en Guð megnar allt."

27 Þá sagði Pétur við hann: "Vér yfirgáfum allt og fylgdum þér. Hvað munum vér hljóta?"

28 Jesús sagði við þá: "Sannlega segi ég yður: Þegar allt er orðið endurfætt og Mannssonurinn situr í dýrðarhásæti sínu, munuð þér, sem fylgið mér, einnig sitja í tólf hásætum og dæma tólf ættkvíslir Ísraels.

29 Og hver sem hefur yfirgefið heimili, bræður eða systur, föður eða móður, börn eða akra sakir nafns míns, mun fá margfalt aftur og öðlast eilíft líf.

30 En margir hinir fyrstu munu verða síðastir og hinir síðustu fyrstir.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society