Revised Common Lectionary (Semicontinuous)
77 Til söngstjórans. Fyrir Jedútún. Asafs-sálmur.
2 Ég kalla til Guðs og hrópa, kalla til Guðs, að hann megi heyra til mín.
3 Þegar ég er í nauðum, leita ég Drottins, rétti út hendur mínar um nætur og þreytist ekki, sál mín er óhuggandi.
4 Ég minnist Guðs og kveina, ég styn, og andi minn örmagnast. [Sela]
5 Þú heldur uppi augnalokum mínum, mér er órótt og ég má eigi mæla.
6 Ég íhuga fyrri daga, ár þau sem löngu eru liðin,
7 ég minnist strengjaleiks míns um nætur, ég hugleiði í hjarta mínu, og andi minn rannsakar.
8 Mun Drottinn þá útskúfa um eilífð og aldrei framar vera náðugur?
9 Er miskunn hans lokið um eilífð, fyrirheit hans þrotin um aldir alda?
10 Hefir Guð gleymt að sýna líkn, byrgt miskunn sína með reiði? [Sela]
11 Þá sagði ég: "Þetta er kvöl mín, að hægri hönd Hins hæsta hefir brugðist."
12 Ég víðfrægi stórvirki Drottins, ég vil minnast furðuverka þinna frá fyrri tíðum,
13 ég íhuga allar athafnir þínar, athuga stórvirki þín.
14 Guð, helgur er vegur þinn, hver er svo mikill Guð sem Drottinn?
15 Þú ert Guð, sá er furðuverk gjörir, þú hefir kunngjört mátt þinn meðal þjóðanna.
16 Með máttugum armlegg frelsaðir þú lýð þinn, sonu Jakobs og Jósefs. [Sela]
17 Vötnin sáu þig, ó Guð, vötnin sáu þig og skelfdust, og undirdjúpin skulfu.
18 Vatnið streymdi úr skýjunum, þrumuraust drundi úr skýþykkninu, og örvar þínar flugu.
19 Reiðarþrumur þínar kváðu við, leiftur lýstu um jarðríki, jörðin skalf og nötraði.
20 Leið þín lá gegnum hafið, stígar þínir gegnum mikil vötn, og spor þín urðu eigi rakin.
21 Þú leiddir lýð þinn eins og hjörð fyrir Móse og Aron.
2 Þegar Drottinn ætlaði að láta Elía fara til himins í stormviðri, voru þeir Elía og Elísa á leið frá Gilgal.
2 Þá sagði Elía við Elísa: "Vertu hér kyrr, því að Drottinn hefir sent mig til Betel." En Elísa svaraði: "Svo sannarlega sem Drottinn lifir og svo sannarlega sem þú lifir, mun ég eigi við þig skilja." Fóru þeir þá ofan til Betel.
3 Spámannasveinar þeir, er voru í Betel, gengu út á móti Elísa og sögðu við hann: "Veist þú að Drottinn ætlar í dag að nema herra þinn burt yfir höfði þér?" Elísa svaraði: "Veit ég það líka. Verið hljóðir!"
4 Þá sagði Elía við hann: "Elísa, vertu hér kyrr, því að Drottinn hefir sent mig til Jeríkó." Hann svaraði: "Svo sannarlega sem Drottinn lifir og svo sannarlega sem þú lifir, mun ég eigi við þig skilja." Fóru þeir þá til Jeríkó.
5 Þá gengu spámannasveinar þeir, er voru í Jeríkó, til Elísa og sögðu við hann: "Veist þú að Drottinn ætlar í dag að nema herra þinn burt yfir höfði þér?" Elísa svaraði: "Veit ég það líka. Verið hljóðir!"
6 Þá sagði Elía við hann: "Vertu hér kyrr, því að Drottinn hefir sent mig til Jórdanar." Hann svaraði: "Svo sannarlega sem Drottinn lifir og svo sannarlega sem þú lifir, mun ég eigi við þig skilja." Fóru þeir þá báðir saman.
7 En fimmtíu manns af spámannasveinunum fóru og námu staðar til hliðar í nokkurri fjarlægð, en hinir báðir gengu að Jórdan.
8 Þá tók Elía skikkju sína, braut hana saman og sló á vatnið. Skipti það sér þá til beggja hliða, en þeir gengu báðir yfir um á þurru.
9 En er þeir voru komnir yfir um, sagði Elía við Elísa: "Bið þú mig einhvers, er ég megi veita þér, áður en ég verð numinn burt frá þér." Elísa svaraði: "Mættu mér þá hlotnast tveir hlutar af andagift þinni."
10 Þá mælti Elía: "Til mikils hefir þú mælst. En ef þú sér mig, er ég verð numinn burt frá þér, þá mun þér veitast það, ella eigi."
11 En er þeir héldu áfram og voru að tala saman, þá kom allt í einu eldlegur vagn og eldlegir hestar og skildu þá að, og Elía fór til himins í stormviðri.
12 Og er Elísa sá það, kallaði hann: "Faðir minn, faðir minn, þú Ísraels vagn og riddarar!" Og hann sá hann ekki framar. Þá þreif hann í klæði sín og reif þau sundur í tvo hluti.
13 Síðan tók hann upp skikkju Elía, er fallið hafði af honum, sneri við og gekk niður á Jórdanbakka,
14 tók skikkju Elía, er fallið hafði af honum, sló á vatnið og sagði: "Hvar er nú Drottinn, Guð Elía?" En er hann sló á vatnið, skipti það sér til beggja hliða, en Elísa gekk yfir um.
15 Þegar spámannasveinarnir í Jeríkó sáu það hinumegin, sögðu þeir: "Andi Elía hvílir yfir Elísa." Gengu þeir í móti honum, lutu til jarðar fyrir honum
16 og sögðu við hann: "Sjá, hér eru fimmtíu röskir menn með þjónum þínum. Lát þá fara og leita að herra þínum, ef andi Drottins kynni að hafa hrifið hann og varpað honum á eitthvert fjallið eða ofan í einhvern dalinn." En Elísa mælti: "Eigi skuluð þér senda þá."
17 En er þeir lögðu mjög að honum, mælti hann: "Sendið þér þá." Sendu þeir þá fimmtíu manns, og leituðu þeir hans í þrjá daga, en fundu hann ekki.
18 Sneru þeir þá aftur til Elísa, og var hann þá enn í Jeríkó. Þá sagði hann við þá: "Sagði ég yður ekki, að þér skylduð ekki fara?"
20 Árla morguns fóru þeir hjá fíkjutrénu og sáu, að það var visnað frá rótum.
21 Pétur minntist þess, sem gerst hafði, og segir við hann: "Rabbí, sjáðu! fíkjutréð, sem þú formæltir, er visnað."
22 Jesús svaraði þeim: "Trúið á Guð.
23 Sannlega segi ég yður: Hver sem segir við fjall þetta: ,Lyft þér upp, og steyp þér í hafið,` og efar ekki í hjarta sínu, heldur trúir, að svo fari sem hann mælir, honum mun verða að því.
24 Fyrir því segi ég yður: Hvers sem þér biðjið í bæn yðar, þá trúið, að þér hafið öðlast það, og yður mun það veitast.
25 Og þegar þér eruð að biðja, þá fyrirgefið, ef yður þykir nokkuð við einhvern, til þess að faðir yðar á himnum fyrirgefi einnig yður misgjörðir yðar. [
by Icelandic Bible Society