Revised Common Lectionary (Semicontinuous)
19 Engill Guðs, sem gekk á undan liði Ísraels, færði sig og gekk aftur fyrir þá, og skýstólpinn, sem var fyrir framan þá, færðist og stóð að baki þeim.
20 Og hann bar á milli herbúða Egypta og herbúða Ísraels, og var skýið myrkt annars vegar, en annars vegar lýsti það upp nóttina, og færðust hvorugir nær öðrum alla þá nótt.
21 En Móse rétti út hönd sína yfir hafið, og Drottinn lét hvassan austanvind blása alla nóttina og bægja sjónum burt og gjörði hafið að þurrlendi. Og vötnin klofnuðu,
22 og Ísraelsmenn gengu á þurru mitt í gegnum hafið, og vötnin stóðu eins og veggur til hægri og vinstri handar þeim.
23 Og Egyptar veittu þeim eftirför og sóttu eftir þeim mitt út í hafið, allir hestar Faraós, vagnar hans og riddarar.
24 En á morgunvökunni leit Drottinn yfir lið Egypta í eld- og skýstólpanum, og sló felmti í lið Egypta,
25 og hann lét vagna þeirra ganga af hjólunum, svo að þeim sóttist leiðin erfiðlega. Þá sögðu Egyptar: "Flýjum fyrir Ísrael, því að Drottinn berst með þeim móti Egyptum."
26 Þá sagði Drottinn við Móse: "Rétt út hönd þína yfir hafið, og skulu þá vötnin aftur falla yfir Egypta, yfir vagna þeirra og riddara."
27 Móse rétti hönd sína út yfir hafið, og sjórinn féll aftur undir morguninn í farveg sinn, en Egyptar flýðu beint í móti aðfallinu, og keyrði Drottinn þá mitt í hafið.
28 Og vötnin féllu að og huldu vagnana og riddarana, allan liðsafla Faraós, sem eftir þeim hafði farið út í hafið. Ekki nokkur einn þeirra komst lífs af.
29 En Ísraelsmenn gengu á þurru mitt í gegnum hafið, og vötnin stóðu eins og veggur til hægri og vinstri handar þeim.
30 Þannig frelsaði Drottinn Ísrael á þeim degi undan valdi Egypta, og Ísrael sá Egypta liggja dauða á sjávarströndinni.
31 Og er Ísrael sá hið mikla undur, sem Drottinn hafði gjört á Egyptum, þá óttaðist fólkið Drottin, og þeir trúðu á Drottin og þjón hans Móse.
114 Þegar Ísrael fór út af Egyptalandi, Jakobs ætt frá þjóðinni, er mælti á erlenda tungu,
2 varð Júda helgidómur hans, Ísrael ríki hans.
3 Hafið sá það og flýði, Jórdan hörfaði undan.
4 Fjöllin hoppuðu sem hrútar, hæðirnar sem lömb.
5 Hvað er þér, haf, er þú flýr, Jórdan, er þú hörfar undan,
6 þér fjöll, er þér hoppið sem hrútar, þér hæðir sem lömb?
7 Titra þú, jörð, fyrir augliti Drottins, fyrir augliti Jakobs Guðs,
8 hans sem gjörir klettinn að vatnstjörn, tinnusteininn að vatnslind.
15 Þá söng Móse og Ísraelsmenn Drottni þennan lofsöng: Ég vil lofsyngja Drottni, því að hann hefir sig dýrlegan gjört, hestum og riddurum steypti hann niður í hafið.
2 Drottinn er styrkur minn og lofsöngur, og hann varð mitt hjálpræði. Hann er minn Guð, og ég vil vegsama hann, Guð föður míns, og ég vil tigna hann.
3 Drottinn er stríðshetja, Drottinn er hans nafn.
4 Vögnum Faraós og herliði hans varpaði hann í hafið, og hinir völdustu kappar hans drukknuðu í Hafinu rauða.
5 Undirdjúpin huldu þá, þeir sukku niður í sjávardjúpið eins og steinn.
6 Þín hægri hönd, Drottinn, hefir sýnt sig dýrlega í krafti, þín hægri hönd, Drottinn, sundurkremur fjandmennina.
7 Og með mikilleik þinnar hátignar leggur þú mótstöðumenn þína að velli, þú útsendir þína reiði, og hún eyðir þeim eins og hálmleggjum.
8 Og fyrir blæstri nasa þinna hlóðust vötnin upp, rastirnar stóðu eins og veggur, öldurnar stirðnuðu mitt í hafinu.
9 Óvinurinn sagði: "Ég skal elta þá, ég skal ná þeim, ég skal skipta herfangi, ég skal skeyta skapi mínu á þeim, ég skal bregða sverði mínu, hönd mín skal eyða þeim."
10 Þú blést með þínum anda, hafið huldi þá, þeir sukku sem blý niður í hin miklu vötn.
11 Hver er sem þú, Drottinn, meðal guðanna? Hver er sem þú, dýrlegur að heilagleik, dásamlegur til lofsöngva, þú sem stórmerkin gjörir?
20 Þá tók Mirjam spákona, systir Arons, bumbu í hönd sér, og allar konurnar gengu á eftir henni með bumbum og dansi.
21 Og Mirjam söng fyrir þeim: Lofsyngið Drottni, því að hann hefir sig dýrlegan gjört, hestum og riddurum steypti hann í hafið.
14 Takið að yður hina óstyrku í trúnni, án þess að leggja dóm á skoðanir þeirra.
2 Einn er þeirrar trúar, að alls megi neyta en hinn óstyrki neytir einungis jurtafæðu.
3 Sá, sem neytir kjöts, fyrirlíti ekki hinn, sem lætur þess óneytt, og sá, sem lætur þess óneytt, dæmi ekki þann, sem neytir þess, því að Guð hefur tekið hann að sér.
4 Hver ert þú, sem dæmir annars þjón? Hann stendur og fellur herra sínum. Og hann mun standa, því að megnugur er Drottinn þess að láta hann standa.
5 Einn gjörir mun á dögum, en annar metur alla daga jafna. Sérhver hafi örugga sannfæringu í huga sínum.
6 Sá, sem tekur tillit til daga, gjörir það vegna Drottins. Og sá, sem neytir kjöts, gerir það vegna Drottins, því að hann gjörir Guði þakkir. Sá, sem lætur óneytt, hann lætur óneytt vegna Drottins og gjörir Guði þakkir.
7 Því að enginn af oss lifir sjálfum sér og enginn deyr sjálfum sér.
8 Ef vér lifum, lifum vér Drottni, og ef vér deyjum, deyjum vér Drottni. Hvort sem vér þess vegna lifum eða deyjum, þá erum vér Drottins.
9 Því að til þess dó Kristur og varð aftur lifandi, að hann skyldi drottna bæði yfir dauðum og lifandi.
10 En þú, hví dæmir þú bróður þinn? Eða þá þú, hví fyrirlítur þú bróður þinn? Allir munum vér verða að koma fram fyrir dómstól Guðs.
11 Því að ritað er: "Svo sannarlega sem ég lifi, segir Drottinn, fyrir mér skulu öll kné beygja sig og sérhver tunga vegsama Guð."
12 Því skal þá sérhver af oss lúka Guði reikning fyrir sjálfan sig.
21 Þá gekk Pétur til hans og spurði: "Herra, hve oft á ég að fyrirgefa bróður mínum, ef hann misgjörir við mig? Svo sem sjö sinnum?"
22 Jesús svaraði: "Ekki segi ég þér sjö sinnum heldur sjötíu sinnum sjö.
23 Því að líkt er um himnaríki og konung, sem vildi láta þjóna sína gjöra skil.
24 Hann hóf reikningsskilin, og var færður til hans maður, er skuldaði tíu þúsund talentur.
25 Sá gat ekkert borgað, og bauð konungur þá, að hann skyldi seldur ásamt konu og börnum og öllu, sem hann átti, til lúkningar skuldinni.
26 Þá féll þjónninn til fóta honum og sagði: ,Haf biðlund við mig, og ég mun borga þér allt.`
27 Og herra þjónsins kenndi í brjósti um hann, lét hann lausan og gaf honum upp skuldina.
28 Þegar þjónn þessi kom út, hitti hann einn samþjón sinn, sem skuldaði honum hundrað denara. Hann greip hann, tók fyrir kverkar honum og sagði: ,Borga það, sem þú skuldar!`
29 Samþjónn hans féll þá til fóta honum og bað hann: ,Haf biðlund við mig, og ég mun borga þér.`
30 En hann vildi ekki, heldur fór og lét varpa honum í fangelsi, uns hann hefði borgað skuldina.
31 Þegar samþjónar hans sáu, hvað orðið var, urðu þeir mjög hryggir og sögðu herra sínum allt, sem gjörst hafði.
32 Konungurinn kallar þá þjóninn fyrir sig og segir við hann: ,Illi þjónn, alla þessa skuld gaf ég þér upp, af því að þú baðst mig.
33 Bar þér þá ekki einnig að miskunna samþjóni þínum, eins og ég miskunnaði þér?`
34 Og konungur varð reiður og afhenti hann böðlunum, uns hann hefði goldið allt, sem hann skuldaði honum.
35 Þannig mun og faðir minn himneskur gjöra við yður, nema hver og einn yðar fyrirgefi af hjarta bróður sínum."
by Icelandic Bible Society