Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Revised Common Lectionary (Semicontinuous)

Daily Bible readings that follow the church liturgical year, with sequential stories told across multiple weeks.
Duration: 1245 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 149

149 Halelúja. Syngið Drottni nýjan söng, lofsöngur hans hljómi í söfnuði trúaðra.

Ísrael gleðjist yfir skapara sínum, synir Síonar fagni yfir konungi sínum.

Þeir skulu lofa nafn hans með gleðidansi, leika fyrir honum á bumbur og gígjur.

Því að Drottinn hefir þóknun á lýð sínum, hann skrýðir hrjáða með sigri.

Hinir trúuðu skulu gleðjast með sæmd, syngja fagnandi í hvílum sínum

með lofgjörð Guðs á tungu og tvíeggjað sverð í höndum

til þess að framkvæma hefnd á þjóðunum, hirtingu á lýðunum,

til þess að binda konunga þeirra með fjötrum, þjóðhöfðingja þeirra með járnhlekkjum,

til þess að fullnægja á þeim skráðum dómi. Það er til vegsemdar öllum dýrkendum hans. Halelúja.

Önnur bók Móse 10:21-29

21 Því næst sagði Drottinn við Móse: "Rétt hönd þína til himins, og skal þá koma þreifandi myrkur yfir allt Egyptaland."

22 Móse rétti þá hönd sína til himins, og varð þá niðamyrkur í öllu Egyptalandi í þrjá daga.

23 Enginn sá annan, og enginn hreyfði sig, þaðan sem hann var staddur, í þrjá daga, en bjart var hjá öllum Ísraelsmönnum, í híbýlum þeirra.

24 Þá lét Faraó kalla Móse og sagði: "Farið og þjónið Drottni, látið aðeins sauðfénað yðar og nautgripi eftir verða. Börn yðar mega einnig fara með yður."

25 En Móse svaraði: "Þú verður einnig að fá oss dýr til sláturfórnar og brennifórnar, að vér megum fórnir færa Drottni Guði vorum.

26 Kvikfé vort skal og fara með oss, ekki skal ein klauf eftir verða, því að af því verðum vér að taka til þess að þjóna Drottni Guði vorum. En eigi vitum vér, hverju vér skulum fórnfæra Drottni, fyrr en vér komum þangað."

27 En Drottinn herti hjarta Faraós og hann vildi ekki gefa þeim fararleyfi.

28 Og Faraó sagði við hann: "Haf þig á burt frá mér og varast að koma oftar fyrir mín augu, því að á þeim degi, sem þú kemur í augsýn mér, skaltu deyja."

29 Móse svaraði: "Rétt segir þú. Ég skal aldrei framar koma þér fyrir augu."

Bréf Páls til Rómverja 10:15-21

15 Og hver getur prédikað, nema hann sé sendur? Svo er og ritað: "Hversu fagurt er fótatak þeirra, sem færa fagnaðarboðin góðu."

16 En þeir hlýddu ekki allir fagnaðarerindinu. Jesaja segir: "Drottinn, hver trúði því, sem vér boðuðum?"

17 Svo kemur þá trúin af boðuninni, en boðunin byggist á orði Krists.

18 En ég spyr: Hafa þeir ekki heyrt? Jú, vissulega, "raust þeirra hefur borist út um alla jörðina og orð þeirra til endimarka heimsbyggðarinnar."

19 Og ég spyr: Hvort skildi Ísrael það ekki? Fyrst segir Móse: "Vekja vil ég yður til afbrýði gegn þjóð, sem ekki er þjóð, egna vil ég yður til reiði gegn óviturri þjóð."

20 Og Jesaja er svo djarfmáll að segja: "Ég hef látið þá finna mig, sem leituðu mín ekki. Ég er orðinn augljós þeim, sem spurðu ekki að mér."

21 En við Ísrael segir hann: "Allan daginn breiddi ég út hendur mínar móti óhlýðnum og þverbrotnum lýð."

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society