Revised Common Lectionary (Semicontinuous)
8 Þá hófst til ríkis í Egyptalandi nýr konungur, sem engin deili vissi á Jósef.
9 Hann sagði við þjóð sína: "Sjá, þjóð Ísraelsmanna er fjölmennari og aflmeiri en vér.
10 Látum oss fara kænlega að við hana, ella kynni henni að fjölga um of, og ef til ófriðar kæmi, kynni hún jafnvel að ganga í lið með óvinum vorum og berjast móti oss og fara síðan af landi burt."
11 Og þeir settu verkstjóra yfir hana til þess að þjá hana með þrælavinnu, og hún byggði vistaborgir handa Faraó, Pítóm og Raamses.
12 En því meir sem þeir þjáðu hana, því meir fjölgaði henni og breiddist út, svo að þeir tóku að óttast Ísraelsmenn.
13 Og Egyptar þrælkuðu Ísraelsmenn vægðarlaust
14 og gjörðu þeim lífið leitt með þungri þrælavinnu við leireltu og tigulsteinagjörð og með alls konar akurvinnu, með allri þeirri vinnu, er þeir vægðarlaust þrælkuðu þá með.
15 En Egyptalandskonungur mælti til hinna hebresku ljósmæðra _ hét önnur Sifra, en hin Púa:
16 "Þegar þið sitjið yfir hebreskum konum," mælti hann, "þá lítið á burðarsetið. Sé barnið sveinbarn, þá deyðið það, en sé það meybarn, þá má það lifa."
17 En ljósmæðurnar óttuðust Guð og gjörðu eigi það, sem Egyptalandskonungur bauð þeim, heldur létu sveinbörnin lifa.
18 Þá lét Egyptalandskonungur kalla ljósmæðurnar og sagði við þær: "Hví hafið þér svo gjört, að láta sveinbörnin lifa?"
19 Ljósmæðurnar svöruðu Faraó: "Hebreskar konur eru ólíkar egypskum, því að þær eru hraustar. Áður en ljósmóðirin kemur til þeirra, eru þær búnar að fæða."
20 Og Guð lét ljósmæðrunum vel farnast, og fólkinu fjölgaði og það efldist mjög.
21 Og fyrir þá sök, að ljósmæðurnar óttuðust Guð, gaf hann þeim fjölda niðja.
22 Þá bauð Faraó öllum lýð sínum og sagði: "Kastið í ána öllum þeim sveinbörnum, sem fæðast meðal Hebrea, en öll meybörn mega lífi halda."
2 Maður nokkur af Leví ætt gekk að eiga dóttur Leví.
2 Og konan varð þunguð og fæddi son. Og er hún sá að sveinninn var fríður, þá leyndi hún honum í þrjá mánuði.
3 En er hún mátti eigi leyna honum lengur, tók hún handa honum örk af reyr, bræddi hana með jarðlími og biki, lagði sveininn í hana og lét örkina út í sefið hjá árbakkanum.
4 En systir hans stóð þar álengdar til að vita, hvað um hann yrði.
5 Þá gekk dóttir Faraós ofan að ánni til að lauga sig, og gengu þjónustumeyjar hennar eftir árbakkanum. Hún leit örkina í sefinu og sendi þernu sína að sækja hana.
6 En er hún lauk upp örkinni, sá hún barnið, og sjá, það var sveinbarn og var að gráta. Og hún kenndi í brjósti um það og sagði: "Þetta er eitt af börnum Hebrea."
7 Þá sagði systir sveinsins við dóttur Faraós: "Á ég að fara og sækja fyrir þig barnfóstru, einhverja hebreska konu, að hún hafi sveininn á brjósti fyrir þig?"
8 Og dóttir Faraós svaraði henni: "Já, far þú." En mærin fór og sótti móður sveinsins.
9 Og dóttir Faraós sagði við hana: "Tak svein þennan með þér og haf hann á brjósti fyrir mig, og skal ég launa þér fyrir." Tók konan þá sveininn og hafði hann á brjósti.
10 En er sveinninn var vaxinn, fór hún með hann til dóttur Faraós. Tók hún hann í sonar stað og nefndi hann Móse, því að hún sagði: "Ég hefi dregið hann upp úr vatninu."
124 Hefði það ekki verið Drottinn sem var með oss, _ skal Ísrael segja _
2 hefði það ekki verið Drottinn sem var með oss, þegar menn risu í móti oss,
3 þá hefðu þeir gleypt oss lifandi, þegar reiði þeirra bálaðist upp í móti oss.
4 Þá hefðu vötnin streymt yfir oss, elfur gengið yfir oss,
5 þá hefðu gengið yfir oss hin beljandi vötn.
6 Lofaður sé Drottinn, er ekki gaf oss tönnum þeirra að bráð.
7 Sál vor slapp burt eins og fugl úr snöru fuglarans. Brast snaran, burt sluppum vér.
8 Hjálp vor er í nafni Drottins, skapara himins og jarðar.
12 Því brýni ég yður, bræður, að þér, vegna miskunnar Guðs, bjóðið fram sjálfa yður að lifandi, heilagri, Guði þóknanlegri fórn. Það er sönn og rétt guðsdýrkun af yðar hendi.
2 Hegðið yður eigi eftir öld þessari, heldur takið háttaskipti með endurnýjung hugarfarsins, svo að þér fáið að reyna, hver sé vilji Guðs, hið góða, fagra og fullkomna.
3 Fyrir þá náð, sem mér er gefin, segi ég yður hverjum og einum að hugsa ekki hærra um sig en hugsa ber, heldur í réttu hófi, og halda sér hver og einn við þann mæli trúar, sem Guð hefur úthlutað honum.
4 Vér höfum á einum líkama marga limi, en limirnir hafa ekki allir sama starfa.
5 Eins erum vér, þótt margir séum, einn líkami í Kristi, en hver um sig annars limir.
6 Vér höfum margvíslegar náðargjafir, eftir þeirri náð, sem oss er gefin. Sé það spádómsgáfa, þá notum hana í hlutfalli við trúna.
7 Sé það þjónusta, skulum vér þjóna. Sá sem kennir, hann kenni,
8 sá sem áminnir, hann áminni. Sá sem útbýtir gjöfum, gjöri það í einlægni. Sá sem veitir forstöðu, sé kostgæfinn og sá sem iðkar miskunnsemi, gjöri það með gleði.
13 Þegar Jesús kom í byggðir Sesareu Filippí, spurði hann lærisveina sína: "Hvern segja menn Mannssoninn vera?"
14 Þeir svöruðu: "Sumir Jóhannes skírara, aðrir Elía og enn aðrir Jeremía eða einn af spámönnunum."
15 Hann spyr: "En þér, hvern segið þér mig vera?"
16 Símon Pétur svarar: "Þú ert Kristur, sonur hins lifanda Guðs."
17 Þá segir Jesús við hann: "Sæll ert þú, Símon Jónasson! Hold og blóð hefur ekki opinberað þér þetta, heldur faðir minn á himnum.
18 Og ég segi þér: Þú ert Pétur, kletturinn, og á þessum kletti mun ég byggja kirkju mína, og máttur heljar mun ekki á henni sigrast.
19 Ég mun fá þér lykla himnaríkis, og hvað sem þú bindur á jörðu, mun bundið á himnum, og hvað sem þú leysir á jörðu, mun leyst á himnum."
20 Þá lagði hann ríkt á við lærisveinana að segja engum, að hann væri Kristur.
by Icelandic Bible Society