Revised Common Lectionary (Semicontinuous)
45 Jósef gat þá ekki lengur haft stjórn á sér í augsýn allra, sem viðstaddir voru, og kallaði: "Látið alla ganga út frá mér!" Og enginn maður var inni hjá honum, þegar hann sagði bræðrum sínum hver hann væri.
2 Og hann grét hástöfum, svo að Egyptar heyrðu það, og hirðmenn Faraós heyrðu það.
3 Jósef mælti við bræður sína: "Ég er Jósef. Er faðir minn enn á lífi?" En bræður hans gátu ekki svarað honum, svo hræddir urðu þeir við hann.
4 Og Jósef sagði við bræður sína: "Komið hingað til mín!" Og þeir gengu til hans. Hann mælti þá: "Ég er Jósef bróðir yðar, sem þér selduð til Egyptalands.
5 En látið það nú ekki fá yður hryggðar, og setjið það ekki fyrir yður, að þér hafið selt mig hingað, því að til lífs viðurhalds hefir Guð sent mig hingað á undan yður.
6 Því að nú hefir hallærið verið í landinu í tvö ár, og enn munu líða svo fimm ár, að hvorki verði plægt né uppskorið.
7 En Guð hefir sent mig hingað á undan yður til þess að halda við kyni yðar á jörðinni og sjá lífi yðar borgið, til mikils hjálpræðis.
8 Það er því ekki þér, sem hafið sent mig hingað, heldur Guð. Og hann hefir látið mig verða Faraó sem föður og herra alls húss hans og höfðingja yfir öllu Egyptalandi.
9 Hraðið yður nú og farið heim til föður míns og segið við hann: ,Svo segir Jósef sonur þinn: Guð hefir gjört mig að herra alls Egyptalands; kom þú til mín og tef eigi.
10 Og þú skalt búa í Gósenlandi og vera í nánd við mig, þú og synir þínir og sonasynir þínir og sauðfé þitt og nautgripir þínir og allt, sem þitt er.
11 En ég skal sjá þér þar fyrir viðurværi, _ því að enn verður hallæri í fimm ár _, svo að þú komist ekki í örbirgð, þú og þitt hús og allt, sem þitt er.`
12 Og nú sjá augu yðar, og augu Benjamíns bróður míns sjá, að ég með eigin munni tala við yður.
13 Og segið föður mínum frá allri vegsemd minni á Egyptalandi og frá öllu, sem þér hafið séð, og flýtið yður nú og komið hingað með föður minn."
14 Og hann féll um háls Benjamín bróður sínum og grét, og Benjamín grét um háls honum.
15 Og hann minntist við alla bræður sína, faðmaði þá og grét. Eftir það töluðu bræður hans við hann.
133 Sjá, hversu fagurt og yndislegt það er, þegar bræður búa saman,
2 eins og hin ilmgóða olía á höfðinu, er rennur niður í skeggið, skegg Arons, er fellur niður á kyrtilfald hans,
3 eins og dögg af Hermonfjalli, er fellur niður á Síonfjöll. Því að þar hefir Drottinn boðið út blessun, lífi að eilífu.
11 Ég spyr nú: Hefur Guð útskúfað lýð sínum? Fjarri fer því. Sjálfur er ég Ísraelsmaður, af kyni Abrahams, ættkvísl Benjamíns.
2 Guð hefur ekki útskúfað lýð sínum, sem hann þekkti fyrirfram. Eða vitið þér ekki, hvað Ritningin segir í kaflanum um Elía, hvernig hann kemur fram fyrir Guð með kæru á hendur Ísrael:
29 Guð iðrar ekki náðargjafa sinna og köllunar.
30 Þér voruð fyrrum óhlýðnir Guði, en hafið nú hlotið miskunn vegna óhlýðni þeirra.
31 Þannig hafa þeir nú líka orðið óhlýðnir, til þess að einnig þeim mætti miskunnað verða fyrir miskunn þá, sem yður er veitt.
32 Guð hefur gefið alla óhlýðninni á vald, til þess að hann geti miskunnað öllum.
10 Og hann kallaði til sín mannfjöldann og sagði: "Heyrið og skiljið.
11 Ekki saurgar það manninn, sem inn fer í munninn, hitt saurgar manninn, sem út fer af munni."
12 Þá komu lærisveinar hans og sögðu við hann: "Veistu, að farísearnir hneyksluðust, þegar þeir heyrðu orð þín?"
13 Hann svaraði: "Sérhver jurt, sem faðir minn himneskur hefur eigi gróðursett, mun upprætt verða.
14 Látið þá eiga sig! Þeir eru blindir, leiðtogar blindra. Ef blindur leiðir blindan, falla báðir í gryfju."
15 Þá sagði Pétur við hann: "Skýrðu fyrir oss líkinguna."
16 Hann svaraði: "Eruð þér líka skilningslausir ennþá?
17 Skiljið þér ekki, að allt sem inn kemur í munninn, fer í magann og lendir síðan í safnþrónni?
18 En það sem út fer af munni, kemur frá hjartanu. Og slíkt saurgar manninn.
19 Því að frá hjartanu koma illar hugsanir, manndráp, hórdómur, saurlifnaður, þjófnaður, ljúgvitni, lastmælgi.
20 Þetta er það, sem saurgar manninn. En að eta með óþvegnum höndum saurgar engan mann."
21 Þaðan hélt Jesús til byggða Týrusar og Sídonar.
22 Þá kom kona nokkur kanversk úr þeim héruðum og kallaði: "Miskunna þú mér, herra, sonur Davíðs! Dóttir mín er mjög kvalin af illum anda."
23 En hann svaraði henni engu orði. Lærisveinar hans komu þá og báðu hann: "Láttu hana fara, hún eltir oss með hrópum."
24 Hann mælti: "Ég er ekki sendur nema til týndra sauða af Ísraelsætt."
25 Konan kom, laut honum og sagði: "Herra, hjálpa þú mér!"
26 Hann svaraði: "Ekki sæmir að taka brauð barnanna og kasta því fyrir hundana."
27 Hún sagði: "Satt er það, herra, þó eta hundarnir mola þá, sem falla af borðum húsbænda þeirra."
28 Þá mælti Jesús við hana: "Kona, mikil er trú þín. Verði þér sem þú vilt." Og dóttir hennar varð heil frá þeirri stundu.
by Icelandic Bible Society