Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Revised Common Lectionary (Semicontinuous)

Daily Bible readings that follow the church liturgical year, with sequential stories told across multiple weeks.
Duration: 1245 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 133

133 Sjá, hversu fagurt og yndislegt það er, þegar bræður búa saman,

eins og hin ilmgóða olía á höfðinu, er rennur niður í skeggið, skegg Arons, er fellur niður á kyrtilfald hans,

eins og dögg af Hermonfjalli, er fellur niður á Síonfjöll. Því að þar hefir Drottinn boðið út blessun, lífi að eilífu.

Fyrsta bók Móse 41:14-36

14 Þá sendi Faraó og lét kalla Jósef, og leiddu þeir hann í skyndi út úr myrkvastofunni. Því næst lét hann skera hár sitt og fór í önnur klæði, gekk síðan inn fyrir Faraó.

15 Þá sagði Faraó við Jósef: "Mig hefir dreymt draum, og enginn getur ráðið hann. En það hefi ég af þér frétt, að þú ráðir hvern draum, sem þú heyrir."

16 Þá svaraði Jósef Faraó og mælti: "Eigi er það á mínu valdi. Guð mun birta Faraó það, er honum má til heilla verða."

17 Faraó sagði við Jósef: "Mig dreymdi, að ég stæði á árbakkanum.

18 Og sjá, upp úr ánni komu sjö kýr, feitar á hold og fallegar útlits, og fóru að bíta sefgresið.

19 Og sjá, á eftir þeim komu upp sjö aðrar kýr, renglulegar og mjög ljótar útlits og magrar á hold. Hefi ég engar séð jafnljótar á öllu Egyptalandi.

20 Og hinar mögru og ljótu kýrnar átu sjö fyrri feitu kýrnar.

21 En er þær höfðu etið þær, var það ekki á þeim að sjá, að þær hefðu etið þær, heldur voru þær ljótar útlits sem áður. Þá vaknaði ég.

22 Og ég sá í draumi mínum, og sjá, sjö öx uxu á einni stöng, full og væn.

23 Og sjö öx kornlaus, grönn og skrælnuð af austanvindi, spruttu á eftir þeim.

24 Og hin grönnu öxin svelgdu í sig sjö vænu öxin. Ég hefi sagt spásagnamönnunum frá þessu, en enginn getur úr leyst."

25 Þá mælti Jósef við Faraó: "Draumur Faraós er einn. Það sem Guð ætlar að gjöra, hefir hann boðað Faraó.

26 Sjö vænu kýrnar merkja sjö ár, og sjö vænu öxin merkja sjö ár. Þetta er einn og sami draumur.

27 Og sjö mögru og ljótu kýrnar, sem á eftir hinum komu, merkja sjö ár, og sjö tómu öxin, sem skrælnuð voru af austanvindi, munu vera sjö hallærisár.

28 Það er það, sem ég sagði við Faraó: Það sem Guð ætlar að gjöra, hefir hann sýnt Faraó.

29 Sjá, sjö ár munu koma. Munu þá verða miklar nægtir um allt Egyptaland.

30 En eftir þau munu koma sjö hallærisár. Munu þá gleymast allar nægtirnar í Egyptalandi og hungrið eyða landið.

31 Og eigi mun nægtanna gæta í landinu sakir hallærisins, sem á eftir kemur, því að það mun verða mjög mikið.

32 En þar sem Faraó dreymdi tvisvar sinnum hið sama, þá er það fyrir þá sök, að þetta er fastráðið af Guði, og Guð mun skjótlega framkvæma það.

33 Fyrir því velji nú Faraó til hygginn og vitran mann og setji hann yfir Egyptaland.

34 Faraó gjöri þetta og skipi umsjónarmenn yfir landið og taki fimmtung af afrakstri Egyptalands á sjö nægtaárunum.

35 Og þeir skulu safna öllum vistum frá góðu árunum, sem fara í hönd, og draga saman kornbirgðir í borgirnar undir umráð Faraós og geyma.

36 Og vistirnar skulu vera forði fyrir landið á sjö hallærisárunum, sem koma munu yfir Egyptaland, að landið farist eigi af hungrinu."

Opinberun Jóhannesar 15:1-4

15 Og ég sá annað tákn á himni, mikið og undursamlegt: Sjö engla, sem höfðu sjö síðustu plágurnar, því að með þeim fullnaðist reiði Guðs.

Og ég leit sem glerhaf eldi blandið, og ég sá þá, sem unnið höfðu sigur á dýrinu og líkneski þess og á tölu nafns þess, standa við glerhafið og halda á hörpum Guðs.

Og þeir syngja söng Móse, Guðs þjóns, og söng lambsins og segja: Mikil og dásamleg eru verkin þín, Drottinn Guð, þú alvaldi, réttlátir og sannir eru vegir þínir, þú konungur aldanna.

Hver skyldi ekki óttast, Drottinn, og vegsama nafn þitt? Því að þú einn ert heilagur, allar þjóðir munu koma og tilbiðja frammi fyrir þér, því að réttlátir dómar þínir eru opinberir orðnir.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society