Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Revised Common Lectionary (Semicontinuous)

Daily Bible readings that follow the church liturgical year, with sequential stories told across multiple weeks.
Duration: 1245 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Fyrsta bók Móse 37:1-4

37 Jakob bjó í landi því, er faðir hans hafði dvalist í sem útlendingur, í Kanaanlandi.

Þetta er ættarsaga Jakobs. Þegar Jósef var seytján ára gamall, gætti hann sauða með bræðrum sínum. En hann var smásveinn hjá þeim sonum Bílu og sonum Silpu, er voru konur föður hans. Og Jósef bar föður sínum illan orðróm um þá.

Ísrael unni Jósef mest allra sona sinna, því að hann hafði átt hann í elli sinni. Og hann lét gjöra honum dragkyrtil.

En er bræður hans sáu, að faðir þeirra elskaði hann meir en alla sonu sína, lögðu þeir hatur á hann og gátu ekki talað við hann vinsamlegt orð.

Fyrsta bók Móse 37:12-28

12 Er bræður hans voru að heiman farnir til þess að halda hjörð föður þeirra á haga í Síkem,

13 mælti Ísrael við Jósef: "Bræður þínir halda hjörðinni á beit í Síkem. Kom þú, ég ætla að senda þig til þeirra." Og hann svaraði honum: "Hér er ég."

14 Og hann sagði við hann: "Far þú og vit þú, hvort bræðrum þínum og hjörðinni líður vel, og láttu mig svo vita það." Og hann sendi hann úr Hebronsdal, og hann kom til Síkem.

15 Þá hitti hann maður nokkur, er hann var að reika á víðavangi. Og maðurinn spurði hann og mælti: "Að hverju leitar þú?"

16 Hann svaraði: "Ég er að leita að bræðrum mínum. Seg mér hvar þeir eru með hjörðina."

17 Og maðurinn sagði: "Þeir eru farnir héðan, því að ég heyrði þá segja: ,Vér skulum fara til Dótan."` Fór Jósef þá eftir bræðrum sínum og fann þá í Dótan.

18 Er þeir sáu hann álengdar, áður en hann var kominn nærri þeim, tóku þeir saman ráð sín að drepa hann.

19 Og þeir sögðu hver við annan: "Sjá, þarna kemur draumamaðurinn.

20 Förum nú til og drepum hann og köstum honum í einhverja gryfjuna og segjum svo, að óargadýr hafi etið hann. Þá skulum vér sjá, hvað úr draumum hans verður."

21 En er Rúben heyrði þetta, vildi hann frelsa hann úr höndum þeirra og mælti: "Ekki skulum vér drepa hann."

22 Og Rúben sagði við þá, til þess að hann gæti frelsað hann úr höndum þeirra og fært hann aftur föður sínum: "Úthellið ekki blóði. Kastið honum í þessa gryfju, sem er hér á eyðimörkinni, en leggið ekki hendur á hann."

23 En er Jósef kom til bræðra sinna, færðu þeir hann úr kyrtli hans, dragkyrtlinum, sem hann var í,

24 tóku hann og köstuðu honum í gryfjuna. En gryfjan var tóm, ekkert vatn var í henni.

25 Settust þeir nú niður að neyta matar. En er þeim varð litið upp, sáu þeir lest Ísmaelíta koma frá Gíleað, og báru úlfaldar þeirra reykelsi, balsam og myrru. Voru þeir á leið með þetta til Egyptalands.

26 Þá mælti Júda við bræður sína: "Hver ávinningur er oss það, að drepa bróður vorn og leyna morðinu?

27 Komið, vér skulum selja hann Ísmaelítum, en ekki leggja hendur á hann, því hann er bróðir vor, hold vort og blóð." Og bræður hans féllust á það.

28 En midíanítískir kaupmenn fóru þar fram hjá, tóku Jósef og drógu hann upp úr gryfjunni. Og þeir seldu Jósef Ísmaelítunum fyrir tuttugu sikla silfurs, en þeir fóru með Jósef til Egyptalands.

Sálmarnir 105:1-6

105 Þakkið Drottni, ákallið nafn hans, gjörið máttarverk hans kunn meðal þjóðanna!

Syngið fyrir honum, leikið fyrir honum, talið um öll hans dásemdarverk.

Hrósið yður af hans helga nafni, hjarta þeirra er leita Drottins gleðjist.

Leitið Drottins og máttar hans, stundið sífellt eftir augliti hans.

Minnist dásemdarverka hans, þeirra er hann gjörði, tákna hans og refsidóma munns hans,

þér niðjar Abrahams, þjónar hans, þér synir Jakobs, hans útvöldu.

Sálmarnir 105:16-22

16 Þá er hann kallaði hallæri yfir landið, braut í sundur hverja stoð brauðsins,

17 þá sendi hann mann á undan þeim, Jósef var seldur sem þræll.

18 Þeir þjáðu fætur hans með fjötrum, hann var lagður í járn,

19 allt þar til er orð hans rættust, og orð Drottins létu hann standast raunina.

20 Konungur sendi boð og lét hann lausan, drottnari þjóðanna leysti fjötra hans.

21 Hann gjörði hann að herra yfir húsi sínu og að drottnara yfir öllum eigum sínum,

22 að hann gæti fjötrað höfðingja eftir vild og kennt öldungum hans speki.

Sálmarnir 105:45

45 til þess að þeir skyldu halda lög hans og varðveita lögmál hans. Halelúja.

Bréf Páls til Rómverja 10:5-15

Því að Móse ritar um réttlætið, sem lögmálið veitir: "Sá maður, sem breytir eftir lögmálinu, mun lifa fyrir það."

En réttlætið af trúnni mælir þannig: "Seg þú ekki í hjarta þínu: Hver mun fara upp í himininn?" _ það er: til að sækja Krist ofan, _

eða: "Hver mun stíga niður í undirdjúpið?" _ það er: til að sækja Krist upp frá dauðum.

Hvað segir það svo? "Nálægt þér er orðið, í munni þínum og í hjarta þínu." Það er: Orð trúarinnar, sem vér prédikum.

Ef þú játar með munni þínum: Jesús er Drottinn _ og trúir í hjarta þínu, að Guð hafi uppvakið hann frá dauðum, muntu hólpinn verða.

10 Með hjartanu er trúað til réttlætis, en með munninum játað til hjálpræðis.

11 Ritningin segir: "Hver sem trúir á hann, mun ekki til skammar verða."

12 Ekki er munur á Gyðingi og grískum manni, því að hinn sami er Drottinn allra, fullríkur fyrir alla þá sem ákalla hann;

13 því að "hver sem ákallar nafn Drottins, mun hólpinn verða."

14 En hvernig eiga þeir að ákalla þann, sem þeir trúa ekki á? Og hvernig eiga þeir að trúa á þann, sem þeir hafa ekki heyrt um? Og hvernig eiga þeir að heyra, án þess að einhver prédiki?

15 Og hver getur prédikað, nema hann sé sendur? Svo er og ritað: "Hversu fagurt er fótatak þeirra, sem færa fagnaðarboðin góðu."

Matteusarguðspjall 14:22-33

22 Tafarlaust knúði hann lærisveina sína að fara í bátinn og halda á undan sér yfir um, meðan hann sendi fólkið brott.

23 Og er hann hafði látið fólkið fara, gekk hann til fjalls að biðjast fyrir í einrúmi. Þegar kvöld var komið, var hann þar einn.

24 En báturinn var þegar kominn langt frá landi og lá undir áföllum, því að vindur var á móti.

25 En er langt var liðið nætur kom hann til þeirra, gangandi á vatninu.

26 Þegar lærisveinarnir sáu hann ganga á vatninu, varð þeim bilt við. Þeir sögðu: "Þetta er vofa," og æptu af hræðslu.

27 En Jesús mælti jafnskjótt til þeirra: "Verið hughraustir, það er ég, verið óhræddir."

28 Pétur svaraði honum: "Ef það ert þú, herra, þá bjóð mér að koma til þín á vatninu."

29 Jesús svaraði: "Kom þú!" Og Pétur sté úr bátnum og gekk á vatninu til hans.

30 En sem hann sá rokið, varð hann hræddur og tók að sökkva. Þá kallaði hann: "Herra, bjarga þú mér!"

31 Jesús rétti þegar út höndina, tók í hann og sagði: "Þú trúlitli, hví efaðist þú?"

32 Þeir stigu í bátinn, og þá lægði vindinn.

33 En þeir sem í bátnum voru, tilbáðu hann og sögðu: "Sannarlega ert þú sonur Guðs."

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society