Revised Common Lectionary (Semicontinuous)
17 Bæn Davíðs. Heyr, Drottinn, á réttvíst málefni, hlýð á hróp mitt, ljá eyra bæn minni, er ég flyt með tállausum vörum.
2 Lát rétt minn út ganga frá augliti þínu, augu þín sjá hvað rétt er.
3 Þá er þú rannsakar hjarta mitt, prófar það um nætur, reynir mig í eldi, þá finnur þú engar illar hugsanir hjá mér, munnur minn heldur sér í skefjum.
4 Hvað sem aðrir gjöra, þá hefi ég eftir orði vara þinna forðast vegu ofbeldismannsins.
5 Skref mín fylgdu sporum þínum, mér skriðnaði ekki fótur.
6 Ég kalla á þig, því að þú svarar mér, ó Guð, hneig eyru þín til mín, hlýð á orð mín.
7 Veit mér þína dásamlegu náð, þú sem hjálpar þeim er leita hælis við þína hægri hönd fyrir ofsækjendum.
15 En ég mun sakir réttlætisins skoða auglit þitt, þá er ég vakna, mun ég mettast af mynd þinni.
3 Jakob gjörði sendimenn á undan sér til Esaú bróður síns til Seír-lands, Edómhéraðs.
4 Og hann bauð þeim og sagði: "Segið svo herra mínum Esaú: ,Svo segir þjónn þinn Jakob: Ég hefi dvalið hjá Laban og verið þar allt til þessa.
5 Og ég hefi eignast uxa, asna og sauði, þræla og ambáttir, og sendi ég nú til herra míns að láta hann vita það, svo að ég megi finna náð í augum þínum."`
6 Sendimennirnir komu aftur til Jakobs og sögðu: "Vér komum til Esaú bróður þíns. Hann er sjálfur á leiðinni á móti þér og fjögur hundruð manns með honum."
7 Þá varð Jakob mjög hræddur og kvíðafullur. Og hann skipti mönnunum, sem með honum voru, og sauðunum, nautunum og úlföldunum í tvo flokka.
8 Og hann hugsaði: "Þó að Esaú ráðist á annan flokkinn og strádrepi hann, þá getur samt hinn flokkurinn komist undan."
9 Og Jakob sagði: "Guð Abrahams föður míns og Guð Ísaks föður míns, Drottinn, þú sem sagðir við mig: ,Hverf heim aftur til lands þíns og til ættfólks þíns, og ég mun gjöra vel við þig,` _
10 ómaklegur er ég allrar þeirrar miskunnar og allrar þeirrar trúfesti, sem þú hefir auðsýnt þjóni þínum. Því að með stafinn minn einn fór ég þá yfir Jórdan, en nú á ég yfir tveim flokkum að ráða.
11 Æ, frelsa mig undan valdi bróður míns, undan valdi Esaú, því að ég óttast hann, að hann komi og höggvi oss niður sem hráviði.
12 Og þú hefir sjálfur sagt: ,Ég mun vissulega gjöra vel við þig og gjöra niðja þína sem sand á sjávarströndu, er eigi verður talinn fyrir fjölda sakir."`
13 Og hann var þar þá nótt. Og hann tók gjöf handa Esaú bróður sínum af því, sem hann hafði eignast:
14 tvö hundruð geitur og tuttugu geithafra, tvö hundruð ásauðar og tuttugu hrúta,
15 þrjátíu úlfaldahryssur með folöldum, fjörutíu kýr og tíu griðunga, tuttugu ösnur og tíu ösnufola.
16 Og hann fékk þetta í hendur þjónum sínum, hverja hjörð út af fyrir sig, og mælti við þjóna sína: "Farið á undan mér og látið vera bil á milli hjarðanna."
17 Og þeim, sem fyrstur fór, bauð hann á þessa leið: "Þegar Esaú bróðir minn mætir þér og spyr þig og segir: ,Hvers maður ert þú og hvert ætlar þú að fara og hver á þetta, sem þú rekur á undan þér?`
18 þá skaltu segja: ,Þjónn þinn Jakob á það. Það er gjöf, sem hann sendir herra mínum Esaú. Og sjá, hann er sjálfur hér á eftir oss."`
19 Á sömu leið bauð hann hinum öðrum og þriðja og öllum þeim, sem hjarðirnar ráku, og mælti: "Þannig skuluð þér tala við Esaú, þegar þér hittið hann.
20 Og þér skuluð einnig segja: ,Sjá, þjónn þinn Jakob kemur sjálfur á eftir oss."` Því að hann hugsaði: "Ég ætla að blíðka hann með gjöfinni, sem fer á undan mér. Því næst vil ég sjá hann. Vera má, að hann taki mér þá blíðlega."
21 Þannig fór gjöfin á undan honum, en sjálfur var hann þessa nótt í herbúðunum.
37 Er þeir heyrðu þetta, var sem stungið væri í hjörtu þeirra, og þeir sögðu við Pétur og hina postulana: "Hvað eigum vér að gjöra, bræður?"
38 Pétur sagði við þá: "Gjörið iðrun og látið skírast hver og einn í nafni Jesú Krists til fyrirgefningar synda yðar; þá munuð þér öðlast að gjöf heilagan anda.
39 Því að yður er ætlað fyrirheitið, börnum yðar og öllum þeim, sem í fjarlægð eru, öllum þeim, sem Drottinn Guð vor kallar til sín."
40 Og með öðrum fleiri orðum vitnaði hann, áminnti þá og sagði: "Látið frelsast frá þessari rangsnúnu kynslóð."
41 En þeir, sem veittu orði hans viðtöku, voru skírðir, og þann dag bættust við um þrjú þúsund sálir.
42 Þeir ræktu trúlega uppfræðslu postulanna og samfélagið, brotning brauðsins og bænirnar.
43 Ótta setti að hverjum manni, en mörg undur og tákn gjörðust fyrir hendur postulanna.
44 Allir þeir sem trúðu héldu hópinn og höfðu allt sameiginlegt.
45 Þeir seldu eignir sínar og fjármuni og skiptu meðal allra eftir því sem hver hafði þörf á.
46 Daglega komu þeir saman með einum huga í helgidóminum, þeir brutu brauð í heimahúsum, neyttu fæðu saman í fögnuði og einlægni hjartans.
47 Þeir lofuðu Guð og höfðu vinsældir af öllum. En Drottinn bætti daglega við í hópinn þeim, er frelsast létu.
by Icelandic Bible Society