Revised Common Lectionary (Semicontinuous)
8 þú sem stöðvar brimgný hafsins, brimgnýinn í bylgjum þess og háreystina í þjóðunum,
9 svo að þeir er búa við endimörk jarðar óttast tákn þín, austrið og vestrið lætur þú fagna.
10 Þú hefir vitjað landsins og vökvað það, blessað það ríkulega með læk Guðs, fullum af vatni, þú hefir framleitt korn þess, því að þannig hefir þú gjört það úr garði.
11 Þú hefir vökvað plógför þess, jafnað plóggarða þess, með regnskúrum hefir þú mýkt það, blessað gróður þess.
12 Þú hefir krýnt árið með gæsku þinni, og vagnspor þín drjúpa af feiti.
13 Það drýpur af heiðalöndunum, og hæðirnar girðast fögnuði.
37 Jakob tók sér stafi af grænni ösp, möndluviði og hlyni og skóf á þá hvítar rákir með því að nekja hið hvíta á stöfunum.
38 Því næst lagði hann stafina, sem hann hafði birkt, í þrærnar, í vatnsrennurnar, sem féð kom að drekka úr, beint fyrir framan féð. En ærnar fengu, er þær komu að drekka.
39 Þannig fengu ærnar uppi yfir stöfunum, og ærnar áttu rílótt, flekkótt og spreklótt lömb.
40 Jakob skildi lömbin úr og lét féð horfa á hið rílótta og allt hið svarta í fé Labans. Þannig kom hann sér upp sérstökum fjárhópum og lét þá ekki saman við hjörð Labans.
41 Og um allan göngutíma vænu ánna lagði Jakob stafina í þrærnar fyrir framan féð, svo að þær skyldu fá uppi yfir stöfunum.
42 En er rýru ærnar gengu, lagði hann þá þar ekki. Þannig fékk Laban rýra féð, en Jakob hið væna.
43 Og maðurinn varð stórauðugur og eignaðist mikinn fénað, ambáttir og þræla, úlfalda og asna.
10 Að lokum: Styrkist nú í Drottni og í krafti máttar hans.
11 Klæðist alvæpni Guðs, til þess að þér getið staðist vélabrögð djöfulsins.
12 Því að baráttan, sem vér eigum í, er ekki við menn af holdi og blóði, heldur við tignirnar og völdin, við heimsdrottna þessa myrkurs, við andaverur vonskunnar í himingeimnum.
13 Takið því alvæpni Guðs, til þess að þér getið veitt mótstöðu á hinum vonda degi og haldið velli, þegar þér hafið sigrað allt.
14 Standið því gyrtir sannleika um lendar yðar og klæddir brynju réttlætisins
15 og skóaðir á fótunum með fúsleik til að flytja fagnaðarboðskap friðarins.
16 Takið umfram allt skjöld trúarinnar, sem þér getið slökkt með öll hin eldlegu skeyti hins vonda.
17 Takið við hjálmi hjálpræðisins og sverði andans, sem er Guðs orð.
18 Gjörið það með bæn og beiðni og biðjið á hverri tíð í anda. Verið því árvakrir og staðfastir í bæn fyrir öllum heilögum.
by Icelandic Bible Society