Revised Common Lectionary (Semicontinuous)
15 Laban sagði við Jakob: "Skyldir þú þjóna mér fyrir ekki neitt, þó að þú sért frændi minn? Seg mér, hvert kaup þitt skuli vera."
16 En Laban átti tvær dætur. Hét hin eldri Lea, en Rakel hin yngri.
17 Og Lea var daufeygð, en Rakel var bæði vel vaxin og fríð sýnum.
18 Og Jakob elskaði Rakel og sagði: "Ég vil þjóna þér í sjö ár fyrir Rakel, yngri dóttur þína."
19 Laban svaraði: "Betra er að ég gefi þér hana en að ég gefi hana öðrum manni. Ver þú kyrr hjá mér."
20 Síðan vann Jakob fyrir Rakel í sjö ár, og þótti honum sem fáir dagar væru, sakir ástar þeirrar, er hann bar til hennar.
21 Og Jakob sagði við Laban: "Fá mér nú konu mína, því að minn ákveðni tími er liðinn, að ég megi ganga inn til hennar."
22 Þá bauð Laban til sín öllum mönnum í þeim stað og hélt veislu.
23 En um kveldið tók hann Leu dóttur sína og leiddi hana inn til hans, og hann gekk í sæng með henni.
24 Og Laban fékk henni Silpu ambátt sína, að hún væri þerna Leu dóttur hans.
25 En um morguninn, sjá, þá var það Lea. Og hann sagði við Laban: "Hví hefir þú gjört mér þetta? Hefi ég ekki unnið hjá þér fyrir Rakel? Hví hefir þú þá svikið mig?"
26 Og Laban sagði: "Það er ekki siður í voru landi að gifta fyrr frá sér yngri dótturina en hina eldri.
27 Enda þú út brúðkaupsviku þessarar, þá skulum vér einnig gefa þér hina fyrir þá vinnu, sem þú munt vinna hjá mér í enn önnur sjö ár."
28 Og Jakob gjörði svo og endaði út vikuna með henni. Þá gifti hann honum Rakel dóttur sína.
105 Þakkið Drottni, ákallið nafn hans, gjörið máttarverk hans kunn meðal þjóðanna!
2 Syngið fyrir honum, leikið fyrir honum, talið um öll hans dásemdarverk.
3 Hrósið yður af hans helga nafni, hjarta þeirra er leita Drottins gleðjist.
4 Leitið Drottins og máttar hans, stundið sífellt eftir augliti hans.
5 Minnist dásemdarverka hans, þeirra er hann gjörði, tákna hans og refsidóma munns hans,
6 þér niðjar Abrahams, þjónar hans, þér synir Jakobs, hans útvöldu.
7 Hann er Drottinn, vor Guð, um víða veröld ganga dómar hans.
8 Hann minnist að eilífu sáttmála síns, orðs þess, er hann hefir gefið þúsundum kynslóða,
9 sáttmálans, er hann gjörði við Abraham, og eiðs síns við Ísak,
10 þess er hann setti sem lög fyrir Jakob, eilífan sáttmála fyrir Ísrael,
11 þá er hann mælti: Þér mun ég gefa Kanaanland sem erfðahlut yðar.
45 til þess að þeir skyldu halda lög hans og varðveita lögmál hans. Halelúja.
128 Sæll er hver sá, er óttast Drottin, er gengur á hans vegum.
2 Já, afla handa þinna skalt þú njóta, sæll ert þú, vel farnast þér.
3 Kona þín er sem frjósamur vínviður innst í húsi þínu, synir þínir sem teinungar olíutrésins umhverfis borð þitt.
4 Sjá, sannarlega hlýtur slíka blessun sá maður, er óttast Drottin.
5 Drottinn blessi þig frá Síon, þú munt horfa með unun á hamingju Jerúsalem alla ævidaga þína,
6 og sjá sonu sona þinna. Friður sé yfir Ísrael!
26 Þannig hjálpar og andinn oss í veikleika vorum. Vér vitum ekki, hvers vér eigum að biðja eins og ber, en sjálfur andinn biður fyrir oss með andvörpum, sem ekki verður orðum að komið.
27 En hann, sem hjörtun rannsakar, veit hver er hyggja andans, að hann biður fyrir heilögum eftir vilja Guðs.
28 Vér vitum, að þeim, sem Guð elska, samverkar allt til góðs, þeim sem kallaðir eru samkvæmt ákvörðun Guðs.
29 Því að þá, sem hann þekkti fyrirfram, hefur hann og fyrirhugað til þess að líkjast mynd sonar síns, svo að hann sé frumburður meðal margra bræðra.
30 Þá sem hann fyrirhugaði, þá hefur hann og kallað, og þá sem hann kallaði, hefur hann og réttlætt, en þá sem hann réttlætti, hefur hann einnig vegsamlega gjört.
31 Hvað eigum vér þá að segja við þessu? Ef Guð er með oss, hver er þá á móti oss?
32 Hann sem þyrmdi ekki sínum eigin syni, heldur framseldi hann fyrir oss alla, hví skyldi hann ekki líka gefa oss allt með honum?
33 Hver skyldi ásaka Guðs útvöldu? Guð sýknar.
34 Hver sakfellir? Kristur Jesús er sá, sem dáinn er. Og meira en það: Hann er upprisinn, hann er við hægri hönd Guðs og hann biður fyrir oss.
35 Hver mun gjöra oss viðskila við kærleika Krists? Mun þjáning geta það eða þrenging, ofsókn, hungur eða nekt, háski eða sverð?
36 Það er eins og ritað er: Þín vegna erum vér deyddir allan daginn, erum metnir sem sláturfé.
37 Nei, í öllu þessu vinnum vér fullan sigur fyrir fulltingi hans, sem elskaði oss.
38 Því að ég er þess fullviss, að hvorki dauði né líf, englar né tignir, hvorki hið yfirstandandi né hið ókomna, hvorki kraftar,
39 hæð né dýpt, né nokkuð annað skapað muni geta gjört oss viðskila við kærleika Guðs, sem birtist í Kristi Jesú Drottni vorum.
31 Aðra dæmisögu sagði hann þeim: "Líkt er himnaríki mustarðskorni, sem maður tók og sáði í akur sinn.
32 Smæst er það allra sáðkorna, en nær það vex, er það öllum jurtum meira, það verður tré, og fuglar himins koma og hreiðra sig í greinum þess."
33 Aðra dæmisögu sagði hann þeim: "Líkt er himnaríki súrdeigi, er kona tók og fól í þrem mælum mjöls, uns það sýrðist allt."
44 Líkt er himnaríki fjársjóði, sem fólginn var í jörðu og maður fann og leyndi. Í fögnuði sínum fór hann, seldi allar eigur sínar og keypti akur þann.
45 Enn er himnaríki líkt kaupmanni, sem leitaði að fögrum perlum.
46 Og er hann fann eina dýrmæta perlu, fór hann, seldi allt, sem hann átti, og keypti hana.
47 Enn er himnaríki líkt neti, sem lagt er í sjó og safnar alls kyns fiski.
48 Þegar það er fullt, draga menn það á land, setjast við og safna þeim góðu í ker, en kasta þeim óætu burt.
49 Svo mun verða, þegar veröld endar: Englarnir munu fara til, skilja vonda menn frá réttlátum
50 og kasta þeim í eldsofninn. Þar verður grátur og gnístran tanna.
51 Hafið þér skilið allt þetta?" "Já," svöruðu þeir.
52 Hann sagði við þá: "Þannig er sérhver fræðimaður, sem orðinn er lærisveinn himnaríkis, líkur húsföður, sem ber fram nýtt og gamalt úr forðabúri sínu."
by Icelandic Bible Society