Revised Common Lectionary (Semicontinuous)
105 Þakkið Drottni, ákallið nafn hans, gjörið máttarverk hans kunn meðal þjóðanna!
2 Syngið fyrir honum, leikið fyrir honum, talið um öll hans dásemdarverk.
3 Hrósið yður af hans helga nafni, hjarta þeirra er leita Drottins gleðjist.
4 Leitið Drottins og máttar hans, stundið sífellt eftir augliti hans.
5 Minnist dásemdarverka hans, þeirra er hann gjörði, tákna hans og refsidóma munns hans,
6 þér niðjar Abrahams, þjónar hans, þér synir Jakobs, hans útvöldu.
7 Hann er Drottinn, vor Guð, um víða veröld ganga dómar hans.
8 Hann minnist að eilífu sáttmála síns, orðs þess, er hann hefir gefið þúsundum kynslóða,
9 sáttmálans, er hann gjörði við Abraham, og eiðs síns við Ísak,
10 þess er hann setti sem lög fyrir Jakob, eilífan sáttmála fyrir Ísrael,
11 þá er hann mælti: Þér mun ég gefa Kanaanland sem erfðahlut yðar.
45 til þess að þeir skyldu halda lög hans og varðveita lögmál hans. Halelúja.
31 Er Drottinn sá, að Lea var fyrirlitin, opnaði hann móðurlíf hennar, en Rakel var óbyrja.
32 Og Lea varð þunguð og ól son og nefndi hann Rúben, því að hún sagði: "Drottinn hefir séð raunir mínar. Nú mun bóndi minn elska mig."
33 Og hún varð þunguð í annað sinn og ól son. Þá sagði hún: "Drottinn hefir heyrt að ég er fyrirlitin. Fyrir því hefir hann einnig gefið mér þennan son." Og hún nefndi hann Símeon.
34 Og enn varð hún þunguð og ól son. Þá sagði hún: "Nú mun bóndi minn loks hænast að mér, því að ég hefi fætt honum þrjá sonu." Fyrir því nefndi hún hann Leví.
35 Og enn varð hún þunguð og ól son og sagði: "Nú vil ég vegsama Drottin." Fyrir því nefndi hún hann Júda. Og hún lét af að eiga börn.
30 En er Rakel sá, að hún ól Jakob ekki börn, öfundaði hún systur sína og sagði við Jakob: "Láttu mig eignast börn, ella mun ég deyja."
2 Jakob reiddist þá við Rakel og sagði: "Er ég þá Guð? Það er hann sem hefir synjað þér lífsafkvæmis."
3 Þá sagði hún: "Þarna er Bíla ambátt mín. Gakk þú inn til hennar, að hún megi fæða á skaut mitt og afla mér afkvæmis."
4 Og hún gaf honum Bílu ambátt sína fyrir konu, og Jakob gekk inn til hennar.
5 Og Bíla varð þunguð og ól Jakob son.
6 Þá sagði Rakel: "Guð hefir rétt hluta minn og einnig bænheyrt mig og gefið mér son." Fyrir því nefndi hún hann Dan.
7 Og Bíla, ambátt Rakelar, varð þunguð í annað sinn og ól Jakob annan son.
8 Þá sagði Rakel: "Mikið stríð hefi ég þreytt við systur mína og unnið sigur." Og hún nefndi hann Naftalí.
9 Er Lea sá, að hún lét af að eiga börn, tók hún Silpu ambátt sína og gaf Jakob hana fyrir konu.
10 Og Silpa, ambátt Leu, ól Jakob son.
11 Þá sagði Lea: "Til heilla!" Og hún nefndi hann Gað.
12 Og Silpa, ambátt Leu, ól Jakob annan son.
13 Þá sagði Lea: "Sæl er ég, því að allar konur munu mig sæla segja." Og hún nefndi hann Asser.
14 Rúben gekk eitt sinn út um hveitiskurðartímann og fann ástarepli á akrinum og færði þau Leu móður sinni. Þá sagði Rakel við Leu: "Gef þú mér nokkuð af ástareplum sonar þíns."
15 En hún svaraði: "Er það ekki nóg, að þú tekur bónda minn frá mér, viltu nú einnig taka ástarepli sonar míns?" Og Rakel mælti: "Hann má þá sofa hjá þér í nótt fyrir ástarepli sonar þíns."
16 Er Jakob kom heim um kveldið af akrinum, gekk Lea út á móti honum og sagði: "Þú átt að ganga inn til mín, því að ég hefi keypt þig fyrir ástarepli sonar míns." Og hann svaf hjá henni þá nótt.
17 En Guð bænheyrði Leu, og hún varð þunguð og ól Jakob hinn fimmta son og sagði:
18 "Guð hefir launað mér það, að ég gaf bónda mínum ambátt mína." Og hún nefndi hann Íssakar.
19 Og Lea varð enn þunguð og ól Jakob hinn sjötta son.
20 Þá sagði Lea: "Guð hefir gefið mér góða gjöf. Nú mun bóndi minn búa við mig, því að ég hefi alið honum sex sonu." Og hún nefndi hann Sebúlon.
21 Eftir það ól hún dóttur og nefndi hana Dínu.
22 Þá minntist Guð Rakelar og bænheyrði hana og opnaði móðurlíf hennar.
23 Og hún varð þunguð og ól son og sagði: "Guð hefir numið burt smán mína."
24 Og hún nefndi hann Jósef og sagði: "Guð bæti við mig öðrum syni!"
38 Þá sögðu nokkrir fræðimenn og farísear við hann: "Meistari, vér viljum sjá þig gjöra tákn."
39 Hann svaraði þeim: "Vond og ótrú kynslóð heimtar tákn, en eigi verður henni annað tákn gefið en tákn Jónasar spámanns.
40 Jónas var í kviði stórhvelisins þrjá daga og þrjár nætur, og eins mun Mannssonurinn vera þrjá daga og þrjár nætur í skauti jarðar.
41 Nínívemenn munu koma fram í dóminum ásamt kynslóð þessari og sakfella hana, því að þeir gjörðu iðrun við prédikun Jónasar, og hér er meira en Jónas.
42 Drottning Suðurlanda mun rísa upp í dóminum ásamt þessari kynslóð og sakfella hana, því að hún kom frá endimörkum jarðar að heyra speki Salómons, og hér er meira en Salómon.
by Icelandic Bible Society