Revised Common Lectionary (Semicontinuous)
10 Jakob lagði af stað frá Beerseba og hélt á leið til Harran.
11 Og hann kom á stað nokkurn og var þar um nóttina, því að sól var runnin. Og hann tók einn af steinum þeim, er þar voru, og lagði undir höfuð sér, lagðist því næst til svefns á þessum stað.
12 Þá dreymdi hann. Honum þótti stigi standa á jörðu og efri endi hans ná til himins, og sjá, englar Guðs fóru upp og ofan eftir stiganum.
13 Og sjá, Drottinn stóð hjá honum og sagði: "Ég er Drottinn, Guð Abrahams föður þíns og Guð Ísaks. Landið, sem þú hvílist á, mun ég gefa þér og niðjum þínum.
14 Og niðjar þínir skulu verða sem duft jarðar, og þú skalt útbreiðast til vesturs og austurs, norðurs og suðurs, og af þér munu allar ættkvíslir jarðarinnar blessun hljóta og af þínu afkvæmi.
15 Og sjá, ég er með þér og varðveiti þig, hvert sem þú fer, og ég mun aftur flytja þig til þessa lands, því að ekki mun ég yfirgefa þig fyrr en ég hefi gjört það, sem ég hefi þér heitið."
16 Þá vaknaði Jakob af svefni sínum og mælti: "Sannlega er Drottinn á þessum stað, og ég vissi það ekki!"
17 Og ótta sló yfir hann og hann sagði: "Hversu hræðilegur er þessi staður! Hér er vissulega Guðs hús, og hér er hlið himinsins!"
18 Og Jakob reis árla um morguninn og tók steininn, sem hann hafði haft undir höfðinu, og reisti hann upp til merkis og hellti olíu yfir hann.
19 Og hann nefndi þennan stað Betel, en áður hafði borgin heitið Lúz.
139 Til söngstjórans. Davíðssálmur. Drottinn, þú rannsakar og þekkir mig.
2 Hvort sem ég sit eða stend, þá veist þú það, þú skynjar hugrenningar mínar álengdar.
3 Hvort sem ég geng eða ligg, þá athugar þú það, og alla vegu mína gjörþekkir þú.
4 Því að eigi er það orð á tungu minni, að þú, Drottinn, þekkir það eigi til fulls.
5 Þú umlykur mig á bak og brjóst, og hönd þína hefir þú lagt á mig.
6 Þekking þín er undursamlegri en svo, að ég fái skilið, of háleit, ég er henni eigi vaxinn.
7 Hvert get ég farið frá anda þínum og hvert flúið frá augliti þínu?
8 Þótt ég stigi upp í himininn, þá ertu þar, þótt ég gjörði undirheima að hvílu minni, sjá, þú ert þar.
9 Þótt ég lyfti mér á vængi morgunroðans og settist við hið ysta haf,
10 einnig þar mundi hönd þín leiða mig og hægri hönd þín halda mér.
11 Og þótt ég segði: "Myrkrið hylji mig og ljósið í kringum mig verði nótt,"
12 þá myndi þó myrkrið eigi verða þér of myrkt og nóttin lýsa eins og dagur, myrkur og ljós eru jöfn fyrir þér.
23 Prófa mig, Guð, og þekktu hjarta mitt, rannsaka mig og þekktu hugsanir mínar,
24 og sjá þú, hvort ég geng á glötunarvegi, og leið mig hinn eilífa veg.
12 Þannig erum vér, bræður, í skuld, ekki við holdið að lifa að hætti holdsins.
13 Því að ef þér lifið að hætti holdsins, munuð þér deyja, en ef þér deyðið með andanum gjörðir líkamans, munuð þér lifa.
14 Því að allir þeir, sem leiðast af anda Guðs, þeir eru Guðs börn.
15 En þér hafið ekki fengið anda, sem gjörir yður að þrælum að lifa aftur í hræðslu, heldur hafið þér fengið anda, sem gefur yður barnarétt. Í þeim anda köllum vér: "Abba, faðir!"
16 Sjálfur andinn vitnar með vorum anda, að vér erum Guðs börn.
17 En ef vér erum börn, þá erum vér líka erfingjar, og það erfingjar Guðs, en samarfar Krists, því að vér líðum með honum, til þess að vér einnig verðum vegsamlegir með honum.
18 Ég lít svo á, að ekki séu þjáningar þessa tíma neitt í samanburði við þá dýrð, sem á oss mun opinberast.
19 Því að sköpunin þráir, að Guðs börn verði opinber.
20 Sköpunin var undirorpin fallvaltleikanum, ekki sjálfviljug, heldur vegna hans, sem varp henni undir hann,
21 í von um að jafnvel sjálf sköpunin muni verða leyst úr ánauð forgengileikans til dýrðarfrelsis Guðs barna.
22 Vér vitum, að öll sköpunin stynur líka og hefur fæðingarhríðir allt til þessa.
23 En ekki einungis hún, heldur og vér, sem höfum frumgróða andans, jafnvel vér stynjum með sjálfum oss meðan vér bíðum þess, að Guð gefi oss barnarétt og endurleysi líkami vora.
24 Því að í voninni erum vér hólpnir orðnir. Von, er sést, er ekki von, því að hver vonar það, sem hann sér?
25 En ef vér vonum það, sem vér sjáum ekki, þá bíðum vér þess með þolinmæði.
24 Aðra dæmisögu sagði hann þeim: "Líkt er um himnaríki og mann, er sáði góðu sæði í akur sinn.
25 En er menn voru í svefni, kom óvinur hans, sáði illgresi meðal hveitisins og fór síðan.
26 Þegar sæðið spratt upp og tók að bera ávöxt, kom illgresið og í ljós.
27 Þá komu þjónar húsbóndans til hans og sögðu við hann: ,Herra, sáðir þú ekki góðu sæði í akur þinn? Hvaðan kemur illgresið?`
28 Hann svaraði þeim: ,Þetta hefur einhver óvinur gjört.` Þjónarnir sögðu við hann: ,Viltu, að vér förum og tínum það?`
29 Hann sagði: ,Nei, með því að tína illgresið, gætuð þér slitið upp hveitið um leið.
30 Látið hvort tveggja vaxa saman fram að kornskurði. Þegar komin er kornskurðartíð, mun ég segja við kornskurðarmenn: Safnið fyrst illgresinu og bindið í bundin til að brenna því, en hirðið hveitið í hlöðu mína."`
36 Þá skildi hann við mannfjöldann og fór inn. Lærisveinar hans komu til hans og sögðu: "Skýrðu fyrir oss dæmisöguna um illgresið á akrinum."
37 Hann mælti: "Sá er sáir góða sæðinu, er Mannssonurinn,
38 akurinn er heimurinn, góða sæðið merkir börn ríkisins, en illgresið börn hins vonda.
39 Óvinurinn, sem sáði því, er djöfullinn. Kornskurðurinn er endir veraldar og kornskurðarmennirnir englar.
40 Eins og illgresinu er safnað og brennt í eldi, þannig verður við endi veraldar.
41 Mannssonurinn mun senda engla sína, og þeir munu safna úr ríki hans öllum, sem hneykslunum valda og ranglæti fremja,
42 og kasta þeim í eldsofninn. Þar verður grátur og gnístran tanna.
43 Þá munu réttlátir skína sem sól í ríki föður þeirra. Hver sem eyru hefur, hann heyri.
by Icelandic Bible Society