Revised Common Lectionary (Semicontinuous)
142 Maskíl eftir Davíð, er hann var í hellinum. Bæn.
2 Ég hrópa hátt til Drottins, hástöfum grátbæni ég Drottin.
3 Ég úthelli kveini mínu fyrir honum, tjái honum neyð mína.
4 Þegar andi minn örmagnast í mér, þekkir þú götu mína. Á leið þeirri er ég geng hafa þeir lagt snörur fyrir mig.
5 Ég lít til hægri handar og skyggnist um, en enginn kannast við mig. Mér er varnað sérhvers hælis, enginn spyr eftir mér.
6 Ég hrópa til þín, Drottinn, ég segi: Þú ert hæli mitt, hlutdeild mín á landi lifenda.
7 Veit athygli kveini mínu, því að ég er mjög þjakaður, bjarga mér frá ofsækjendum mínum, því að þeir eru mér yfirsterkari.
8 Leið mig út úr dýflissunni, að ég megi lofa nafn þitt, hinir réttlátu skipast í kringum mig, þegar þú gjörir vel til mín.
15 Því að dagur Drottins er nálægur fyrir allar þjóðir. Eins og þú hefir öðrum gjört, eins skal þér gjört verða; gjörðir þínar skulu þér í koll koma.
16 Því að eins og þér hafið drukkið á mínu heilaga fjalli, svo skulu allar þjóðirnar drekka stöðuglega. Þær skulu drekka og sötra og verða eins og þær aldrei hefðu til verið.
17 En á Síonfjalli skal frelsun verða, og það skal heilagt vera, og Jakobs niðjar skulu fá aftur eignir sínar.
18 Og Jakobs hús mun verða að eldi og Jósefs hús að loga og Esaú hús að hálmi, og þeir munu kveikja í og eyða honum, svo að ekkert skal eftir verða af Esaúniðjum, því að Drottinn hefir talað það.
19 Sunnlendingar skulu taka Esaúfjöll til eignar og Sléttumenn Filisteu. Þeir munu og taka Efraímsland og Samaríuland til eignar, og Benjamín Gíleað.
20 Þeir af Ísraelsmönnum, er teknir hafa verið í vígi þessu og fluttir burt hernumdir, munu taka það til eignar, sem Kanaanítar eiga, allt til Sarefta, og þeir sem fluttir hafa verið burt hernumdir frá Jerúsalem, þeir sem eru í Sefarad, munu taka til eignar borgir Suðurlandsins.
10 Þá komu lærisveinarnir til hans og spurðu: "Hvers vegna talar þú til þeirra í dæmisögum?"
11 Hann svaraði: "Yður er gefið að þekkja leynda dóma himnaríkis, hinum er það ekki gefið.
12 Því að þeim, sem hefur, mun gefið verða, og hann mun hafa gnægð, en frá þeim, sem eigi hefur, mun tekið verða jafnvel það, sem hann hefur.
13 Þess vegna tala ég til þeirra í dæmisögum, að sjáandi sjá þeir ekki og heyrandi heyra þeir ekki né skilja.
14 Á þeim rætist spádómur Jesaja: Með eyrum munuð þér heyra og alls ekki skilja, og sjáandi munuð þér horfa og ekkert sjá.
15 Því að hjarta lýðs þessa er sljótt orðið, og illa heyra þeir með eyrum sínum, og augunum hafa þeir lokað, svo að þeir sjái ekki með augunum né heyri með eyrunum og skilji með hjartanu og snúi sér, og ég lækni þá.
16 En sæl eru augu yðar, að þau sjá, og eyru yðar, að þau heyra.
17 Sannlega segi ég yður: Margir spámenn og réttlátir þráðu að sjá það, sem þér sjáið, en sáu það ekki, og heyra það, sem þér heyrið, en heyrðu það ekki.
by Icelandic Bible Society