Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Revised Common Lectionary (Semicontinuous)

Daily Bible readings that follow the church liturgical year, with sequential stories told across multiple weeks.
Duration: 1245 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 142

142 Maskíl eftir Davíð, er hann var í hellinum. Bæn.

Ég hrópa hátt til Drottins, hástöfum grátbæni ég Drottin.

Ég úthelli kveini mínu fyrir honum, tjái honum neyð mína.

Þegar andi minn örmagnast í mér, þekkir þú götu mína. Á leið þeirri er ég geng hafa þeir lagt snörur fyrir mig.

Ég lít til hægri handar og skyggnist um, en enginn kannast við mig. Mér er varnað sérhvers hælis, enginn spyr eftir mér.

Ég hrópa til þín, Drottinn, ég segi: Þú ert hæli mitt, hlutdeild mín á landi lifenda.

Veit athygli kveini mínu, því að ég er mjög þjakaður, bjarga mér frá ofsækjendum mínum, því að þeir eru mér yfirsterkari.

Leið mig út úr dýflissunni, að ég megi lofa nafn þitt, hinir réttlátu skipast í kringum mig, þegar þú gjörir vel til mín.

Míka 1:1-5

Orð Drottins, sem kom til Míka frá Móreset á dögum Jótams, Akasar og Hiskía, Júdakonunga, það er honum vitraðist um Samaríu og Jerúsalem.

Heyrið, allir lýðir! Hlusta þú, jörð, og allt sem á þér er! Og Drottinn Guð veri vottur gegn yður, Drottinn frá sínu heilaga musteri.

Sjá, Drottinn mun út fara frá bústað sínum, mun ofan stíga og ganga eftir hæðum jarðarinnar.

Fjöllin munu bráðna undan honum og dalirnir klofna sem vax fyrir eldi, sem vatn, er steypist ofan bratta hlíð.

Og allt þetta sakir misgjörðar Jakobs og sakir syndar Ísraels húss. Hver er þá misgjörð Jakobs? Er það ekki Samaría? Og hver er synd Júda? Er það ekki Jerúsalem?

Fyrra bréf Páls til Þessa 4:1-8

Að endingu biðjum vér yður, bræður, og áminnum í Drottni Jesú. Þér hafið numið af oss, hvernig yður ber að breyta og þóknast Guði, og þannig breytið þér líka. En takið enn meiri framförum.

Þér vitið, hver boðorð vér gáfum yður frá Drottni Jesú.

Það er vilji Guðs, að þér verðið heilagir. Hann vill, að þér haldið yður frá frillulífi,

að sérhver yðar hafi vit á að halda líkama sínum í helgun og heiðri,

en ekki í losta, eins og heiðingjarnir, er ekki þekkja Guð.

Og enginn skyldi gjöra bróður sínum rangt til né blekkja hann í slíkum sökum. Því að Drottinn hegnir fyrir allt þvílíkt, eins og vér höfum áður sagt yður og brýnt fyrir yður.

Ekki kallaði Guð oss til saurlifnaðar, heldur helgunar.

Sá, sem fyrirlítur þetta, fyrirlítur þess vegna ekki mann, heldur Guð, sem hefur gefið yður sinn heilaga anda.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society