Revised Common Lectionary (Semicontinuous)
19 Þetta er saga Ísaks Abrahamssonar. Abraham gat Ísak.
20 Ísak var fertugur að aldri, er hann gekk að eiga Rebekku, dóttur Betúels hins arameíska frá Paddan-aram, systur Labans hins arameíska.
21 Ísak bað Drottin fyrir konu sinni, því að hún var óbyrja, og Drottinn bænheyrði hann, og Rebekka kona hans varð þunguð.
22 Og er börnin hnitluðust í kviði hennar, sagði hún: "Sé það svona, hví lifi ég þá?" Gekk hún þá til frétta við Drottin.
23 En Drottinn svaraði henni: Þú gengur með tvær þjóðir, og tveir ættleggir munu af skauti þínu kvíslast. Annar verður sterkari en hinn, og hinn eldri mun þjóna hinum yngri.
24 Er dagar hennar fullnuðust, að hún skyldi fæða, sjá, þá voru tvíburar í kviði hennar.
25 Og hinn fyrri kom í ljós, rauður að lit og allur sem loðfeldur, og var hann nefndur Esaú.
26 Og eftir það kom bróðir hans í ljós, og hélt hann um hælinn á Esaú, og var hann nefndur Jakob. En Ísak var sextíu ára, er hún ól þá.
27 Er sveinarnir voru vaxnir, gjörðist Esaú slyngur veiðimaður og hafðist við á heiðum, en Jakob var maður gæfur og bjó í tjöldum.
28 Og Ísak unni Esaú, því að villibráð þótti honum góð, en Rebekka unni Jakob.
29 Einu sinni hafði Jakob soðið rétt nokkurn. Kom þá Esaú af heiðum og var dauðþreyttur.
30 Þá sagði Esaú við Jakob: "Gef mér fljótt að eta hið rauða, þetta rauða þarna, því að ég er dauðþreyttur." Fyrir því nefndu menn hann Edóm.
31 En Jakob mælti: "Seldu mér fyrst frumburðarrétt þinn."
32 Og Esaú mælti: "Ég er kominn í dauðann, hvað stoðar mig frumburðarréttur minn?"
33 Og Jakob mælti: "Vinn þú mér þá fyrst eið að því!" Og hann vann honum eiðinn og seldi Jakob frumburðarrétt sinn.
34 En Jakob gaf Esaú brauð og baunarétt, og hann át og drakk og stóð upp og gekk burt. Þannig lítilsvirti Esaú frumburðarrétt sinn.
105 Þitt orð er lampi fóta minna og ljós á vegum mínum.
106 Ég hefi svarið og haldið það að varðveita þín réttlátu ákvæði.
107 Ég er mjög beygður, Drottinn, lát mig lífi halda eftir orði þínu.
108 Haf þóknun á sjálfviljafórnum munns míns, Drottinn, og kenn mér ákvæði þín.
109 Líf mitt er ætíð í hættu, en þínu lögmáli hefi ég eigi gleymt.
110 Óguðlegir hafa lagt snöru fyrir mig, en ég hefi eigi villst frá fyrirmælum þínum.
111 Reglur þínar eru eign mín um aldur, því að þær eru yndi hjarta míns.
112 Ég hneigi hjarta mitt að því að breyta eftir lögum þínum, um aldur og allt til enda.
8 Nú er því engin fordæming fyrir þá, sem tilheyra Kristi Jesú.
2 Lögmál lífsins anda hefur í Kristi Jesú frelsað þig frá lögmáli syndarinnar og dauðans.
3 Það sem lögmálinu var ógerlegt, að því leyti sem það mátti sín einskis fyrir holdinu, það gjörði Guð. Með því að senda sinn eigin son í líkingu syndugs manns gegn syndinni, dæmdi Guð syndina í manninum.
4 Þannig varð réttlætiskröfu lögmálsins fullnægt hjá oss, sem lifum ekki eftir holdi, heldur eftir anda.
5 Því að þeir sem láta stjórnast af holdinu, hyggja á það sem holdsins er, en þeir, sem láta stjórnast af andanum, hyggja á það sem andans er.
6 Hyggja holdsins er dauði, en hyggja andans líf og friður.
7 Hyggja holdsins er fjandskapur gegn Guði, með því að hún lýtur ekki lögmáli Guðs, enda getur hún það ekki.
8 Þeir, sem eru holdsins menn, geta ekki þóknast Guði.
9 En þér eruð ekki holdsins menn, heldur andans menn, þar sem andi Guðs býr í yður. En hafi einhver ekki anda Krists, þá er sá ekki hans.
10 Ef Kristur er í yður, þá er líkaminn að sönnu dauður vegna syndarinnar, en andinn veitir líf vegna réttlætisins.
11 Ef andi hans, sem vakti Jesú frá dauðum, býr í yður, þá mun hann, sem vakti Krist frá dauðum, einnig gjöra dauðlega líkami yðar lifandi með anda sínum, sem í yður býr.
13 Sama dag gekk Jesús að heiman og settist við vatnið.
2 Svo mikill mannfjöldi safnaðist að honum, að hann varð að stíga í bát og sitja þar. En allt fólkið stóð á ströndinni.
3 Hann talaði margt til þeirra í dæmisögum. Hann sagði: "Sáðmaður gekk út að sá,
4 og þá er hann sáði, féll sumt hjá götunni, og fuglar komu og átu það upp.
5 Sumt féll í grýtta jörð, þar sem var lítill jarðvegur, og það rann skjótt upp, því það hafði ekki djúpa jörð.
6 Þegar sól hækkaði, visnaði það, og sökum þess að það hafði ekki rætur, skrælnaði það.
7 Sumt féll meðal þyrna, og þyrnarnir uxu og kæfðu það.
8 En sumt féll í góða jörð og bar ávöxt, sumt hundraðfaldan, sumt sextugfaldan og sumt þrítugfaldan.
9 Hver sem eyru hefur, hann heyri."
18 Heyrið þá hvað dæmisagan um sáðmanninn merkir:
19 Þegar einhver heyrir orðið um ríkið og skilur ekki, þá kemur hinn vondi og rænir því, sem sáð var í hjarta hans. Það sem sáð var við götuna, merkir þetta.
20 Það sem sáð var í grýtta jörð, merkir þann, sem tekur orðinu með fögnuði, um leið og hann heyrir það,
21 en hefur enga rótfestu. Hann er hvikull, og er þrenging verður eða ofsókn vegna orðsins, bregst hann þegar.
22 Það er sáð var meðal þyrna, merkir þann, sem heyrir orðið, en áhyggjur heimsins og tál auðæfanna kefja orðið, svo það ber engan ávöxt.
23 En það er sáð var í góða jörð, merkir þann, sem heyrir orðið og skilur það. Hann er sá, sem ber ávöxt og gefur af sér hundraðfalt, sextugfalt eða þrítugfalt."
by Icelandic Bible Society