Revised Common Lectionary (Semicontinuous)
8 Heyr, það er unnusti minn! Sjá, þar kemur hann, stökkvandi yfir fjöllin, hlaupandi yfir hæðirnar.
9 Unnusti minn er líkur skógargeit eða hindarkálfi. Hann stendur þegar bak við húsvegginn, horfir inn um gluggann, gægist inn um grindurnar.
10 Unnusti minn tekur til máls og segir við mig: "Stattu upp, vina mín, fríða mín, æ kom þú!
11 Því sjá, veturinn er liðinn, rigningarnar um garð gengnar, _ á enda.
12 Blómin eru farin að sjást á jörðinni, tíminn til að sniðla vínviðinn er kominn, og kurr turtildúfunnar heyrist í landi voru.
13 Ávextir fíkjutrésins eru þegar farnir að þroskast, og ilminn leggur af blómstrandi vínviðnum. Stattu upp, vina mín, fríða mín, æ kom þú!
31 Er Drottinn sá, að Lea var fyrirlitin, opnaði hann móðurlíf hennar, en Rakel var óbyrja.
32 Og Lea varð þunguð og ól son og nefndi hann Rúben, því að hún sagði: "Drottinn hefir séð raunir mínar. Nú mun bóndi minn elska mig."
33 Og hún varð þunguð í annað sinn og ól son. Þá sagði hún: "Drottinn hefir heyrt að ég er fyrirlitin. Fyrir því hefir hann einnig gefið mér þennan son." Og hún nefndi hann Símeon.
34 Og enn varð hún þunguð og ól son. Þá sagði hún: "Nú mun bóndi minn loks hænast að mér, því að ég hefi fætt honum þrjá sonu." Fyrir því nefndi hún hann Leví.
35 Og enn varð hún þunguð og ól son og sagði: "Nú vil ég vegsama Drottin." Fyrir því nefndi hún hann Júda. Og hún lét af að eiga börn.
13 Hátíð páskanna var að ganga í garð. Jesús vissi, að stund hans var kominn og að hann færi burt úr þessum heimi til föðurins. Hann hafði elskað sína, þá sem í heiminum voru. Hann elskaði þá, uns yfir lauk.
2 Kvöldmáltíð stóð yfir. Djöfullinn hafði þegar blásið því í brjóst Júdasi Símonarsyni Ískaríots að svíkja Jesú.
3 Jesús vissi, að faðirinn hafði lagt allt í hendur honum, að hann var frá Guði kominn og var að fara til Guðs.
4 Hann stóð upp frá máltíðinni, lagði af sér yfirhöfnina, tók líndúk og batt um sig.
5 Síðan hellti hann vatni í mundlaug og tók að þvo fætur lærisveinanna og þerra með líndúknum, sem hann hafði um sig.
6 Hann kemur þá að Símoni Pétri, sem segir við hann: "Herra, ætlar þú að þvo mér um fæturna?"
7 Jesús svaraði: "Nú skilur þú ekki, hvað ég er að gjöra, en seinna muntu skilja það."
8 Pétur segir við hann: "Aldrei að eilífu skaltu þvo fætur mína." Jesús svaraði: "Ef ég þvæ þér ekki, áttu enga samleið með mér."
9 Símon Pétur segir við hann: "Herra, ekki aðeins fætur mína, líka hendurnar og höfuðið."
10 Jesús segir við hann: "Sá sem laugast hefur, þarf ekki að þvost nema um fætur. Hann er allur hreinn. Og þér eruð hreinir, þó ekki allir."
11 Hann vissi, hver mundi svíkja hann, og því sagði hann: "Þér eruð ekki allir hreinir."
12 Þegar hann hafði þvegið fætur þeirra, tekið yfirhöfn sína og setst aftur niður, sagði hann við þá: "Skiljið þér, hvað ég hef gjört við yður?
13 Þér kallið mig meistara og herra, og þér mælið rétt, því það er ég.
14 Fyrst ég, sem er herra og meistari, hef nú þvegið yður um fæturna, þá ber yður einnig að þvo hver annars fætur.
15 Ég hef gefið yður eftirdæmi, að þér breytið eins og ég breytti við yður.
16 Sannlega, sannlega segi ég yður: Þjónn er ekki meiri en herra hans né sendiboði meiri þeim, er sendi hann.
17 Þér vitið þetta, og þér eruð sælir, ef þér breytið eftir því.
by Icelandic Bible Society