Revised Common Lectionary (Semicontinuous)
8 Sveinninn óx og var vaninn af brjósti, og Abraham gjörði mikla veislu þann dag, sem Ísak var tekinn af brjósti.
9 En Sara sá son Hagar hinnar egypsku, er hún hafði fætt Abraham, að leik með Ísak, syni hennar.
10 Þá sagði hún við Abraham: "Rek þú burt ambátt þessa og son hennar, því að ekki skal sonur þessarar ambáttar taka arf með syni mínum, með Ísak."
11 En Abraham sárnaði þetta mjög vegna sonar síns.
12 Þá sagði Guð við Abraham: "Lát þig ekki taka sárt til sveinsins og ambáttar þinnar. Hlýð þú Söru í öllu því, er hún segir þér, því að afkomendur þínir munu verða kenndir við Ísak.
13 En ég mun einnig gjöra ambáttarsoninn að þjóð, því að hann er þitt afkvæmi."
14 Og Abraham reis árla næsta morgun, tók brauð og vatnsbelg og fékk Hagar, en sveininn lagði hann á herðar henni og lét hana í burtu fara. Hún hélt þá af stað og reikaði um eyðimörkina Beerseba.
15 En er vatnið var þrotið á leglinum, lagði hún sveininn inn undir einn runnann.
16 Því næst gekk hún burt og settist þar gegnt við, svo sem í örskots fjarlægð, því að hún sagði: "Ég get ekki horft á að barnið deyi." Og hún settist þar gegnt við og tók að gráta hástöfum.
17 En er Guð heyrði hljóð sveinsins, þá kallaði engill Guðs til Hagar af himni og mælti til hennar: "Hvað gengur að þér, Hagar? Vertu óhrædd, því að Guð hefir heyrt til sveinsins, þar sem hann liggur.
18 Statt þú upp, reistu sveininn á fætur og leiddu hann þér við hönd, því að ég mun gjöra hann að mikilli þjóð."
19 Og Guð lauk upp augum hennar, svo að hún sá vatnsbrunn. Fór hún þá og fyllti belginn vatni og gaf sveininum að drekka.
20 Og Guð var með sveininum, og hann óx upp og hafðist við í eyðimörkinni og gjörðist bogmaður.
21 Og hann hafðist við í Paraneyðimörk, og móðir hans tók honum konu af Egyptalandi.
86 Davíðs-bæn. Hneig eyra þitt, Drottinn, og bænheyr mig, því að ég er hrjáður og snauður.
2 Vernda líf mitt, því að ég er helgaður þér, hjálpa þú, Guð minn, þjóni þínum, er treystir þér.
3 Ver mér náðugur, Drottinn, því þig ákalla ég allan daginn.
4 Gleð þú sál þjóns þíns, því að til þín, Drottinn, hef ég sál mína.
5 Þú, Drottinn, ert góður og fús til að fyrirgefa, gæskuríkur öllum þeim er ákalla þig.
6 Hlýð, Drottinn, á bæn mína og gef gaum grátbeiðni minni.
7 Þegar ég er í nauðum staddur ákalla ég þig, því að þú bænheyrir mig.
8 Enginn er sem þú meðal guðanna, Drottinn, og ekkert er sem þín verk.
9 Allar þjóðir, er þú hefir skapað, munu koma og falla fram fyrir þér, Drottinn, og tigna nafn þitt.
10 Því að þú ert mikill og gjörir furðuverk, þú einn, ó Guð!
16 Snú þér að mér og ver mér náðugur, veit þjóni þínum kraft þinn og hjálpa syni ambáttar þinnar.
17 Gjör þú tákn til góðs fyrir mig, að hatursmenn mínir megi horfa á það sneyptir, að þú, Drottinn, hjálpar mér og huggar mig.
6 Hvað eigum vér þá að segja? Eigum vér að halda áfram í syndinni til þess að náðin aukist?
2 Fjarri fer því. Vér sem dóum syndinni, hvernig ættum vér framar að lifa í henni?
3 Eða vitið þér ekki, að allir vér, sem skírðir erum til Krists Jesú, erum skírðir til dauða hans?
4 Vér erum því dánir og greftraðir með honum í skírninni, til þess að lifa nýju lífi, eins og Kristur var upp vakinn frá dauðum fyrir dýrð föðurins.
5 Því að ef vér erum orðnir samgrónir honum í líkingu dauða hans, munum vér einnig vera það í líkingu upprisu hans.
6 Vér vitum, að vor gamli maður er með honum krossfestur, til þess að líkami syndarinnar skuli að engu verða og vér ekki framar þjóna syndinni.
7 Því að sá, sem dauður er, er leystur frá syndinni.
8 Ef vér erum með Kristi dánir, trúum vér því, að vér og munum með honum lifa.
9 Vér vitum að Kristur, upp vakinn frá dauðum, deyr ekki framar. Dauðinn drottnar ekki lengur yfir honum.
10 Með dauða sínum dó hann syndinni í eitt skipti fyrir öll, en með lífi sínu lifir hann Guði.
11 Þannig skuluð þér líka álíta yður sjálfa vera dauða syndinni, en lifandi Guði í Kristi Jesú.
24 Ekki er lærisveinn meistaranum fremri né þjónn herra sínum.
25 Nægja má lærisveini að vera sem meistari hans og þjóni sem herra hans. Fyrst þeir kölluðu húsföðurinn Beelsebúl, hvað kalla þeir þá heimamenn hans?
26 Óttist þá því eigi. Ekkert er hulið, sem eigi verður opinbert, né leynt, er eigi verður kunnugt.
27 Það sem ég segi yður í myrkri, skuluð þér tala í birtu, og það sem þér heyrið hvíslað í eyra, skuluð þér kunngjöra á þökum uppi.
28 Hræðist ekki þá, sem líkamann deyða, en fá ekki deytt sálina. Hræðist heldur þann, sem megnar að tortíma bæði sálu og líkama í helvíti.
29 Eru ekki tveir spörvar seldir fyrir smápening? Og ekki fellur einn þeirra til jarðar án vitundar föður yðar.
30 Á yður eru jafnvel höfuðhárin öll talin.
31 Verið því óhræddir, þér eruð meira verðir en margir spörvar.
32 Hvern þann sem kannast við mig fyrir mönnum, mun og ég við kannast fyrir föður mínum á himnum.
33 En þeim sem afneitar mér fyrir mönnum, mun og ég afneita fyrir föður mínum á himnum.
34 Ætlið ekki, að ég sé kominn að færa frið á jörð. Ég kom ekki að færa frið, heldur sverð.
35 Ég er kominn að gjöra ,son andvígan föður sínum, dóttur móður sinni og tengdadóttur tengdamóður sinni.
36 Og heimamenn manns verða óvinir hans.`
37 Sá sem ann föður eða móður meir en mér, er mín ekki verður, og sá sem ann syni eða dóttur meir en mér, er mín ekki verður.
38 Hver sem tekur ekki sinn kross og fylgir mér, er mín ekki verður.
39 Sá sem ætlar að finna líf sitt, týnir því, og sá sem týnir lífi sínu mín vegna, finnur það.
by Icelandic Bible Society