Revised Common Lectionary (Semicontinuous)
18 Drottinn birtist Abraham í Mamrelundi, er hann sat í tjalddyrum sínum í miðdegishitanum.
2 Og hann hóf upp augu sín og litaðist um, og sjá, þrír menn stóðu gagnvart honum. Og er hann sá þá, skundaði hann til móts við þá úr tjalddyrum sínum og laut þeim til jarðar
3 og mælti: "Herra minn, hafi ég fundið náð í augum þínum, þá gakk eigi fram hjá þjóni þínum.
4 Leyfið, að sótt sé lítið eitt af vatni, að þér megið þvo fætur yðar, og hvílið yður undir trénu.
5 Og ég ætla að sækja brauðbita, að þér megið styrkja hjörtu yðar, _ síðan getið þér haldið áfram ferðinni, _ úr því að þér fóruð hér um hjá þjóni yðar." Og þeir svöruðu: "Gjörðu eins og þú hefir sagt."
6 Þá flýtti Abraham sér inn í tjaldið til Söru og mælti: "Sæktu nú sem skjótast þrjá mæla hveitimjöls, hnoðaðu það og bakaðu kökur."
7 Og Abraham skundaði til nautanna og tók kálf, ungan og vænan, og fékk sveini sínum, og hann flýtti sér að matbúa hann.
8 Og hann tók áfir og mjólk og kálfinn, sem hann hafði matbúið, og setti fyrir þá, en sjálfur stóð hann frammi fyrir þeim undir trénu, meðan þeir mötuðust.
9 Þá sögðu þeir við hann: "Hvar er Sara kona þín?" Hann svaraði: "Þarna inni í tjaldinu."
10 Og Drottinn sagði: "Vissulega mun ég aftur koma til þín að ári liðnu í sama mund, og mun þá Sara kona þín hafa eignast son." En Sara heyrði þetta í dyrum tjaldsins, sem var að baki hans.
11 En Abraham og Sara voru gömul og hnigin á efra aldur, svo að kvenlegir eðlishættir voru horfnir frá Söru.
12 Og Sara hló með sjálfri sér og mælti: "Eftir að ég er gömul orðin, skyldi ég þá á munúð hyggja, þar sem bóndi minn er einnig gamall?"
13 Þá sagði Drottinn við Abraham: "Hví hlær Sara og segir: ,Mun það satt, að ég skuli barn fæða svo gömul?`
14 Er Drottni nokkuð ómáttugt? Á sinni tíð að vori mun ég aftur koma til þín, og Sara hefir þá eignast son."
15 Og Sara neitaði því og sagði: "Eigi hló ég," því að hún var hrædd. En hann sagði: "Jú, víst hlóst þú."
21 Drottinn vitjaði Söru, eins og hann hafði lofað, og Drottinn gjörði við Söru eins og hann hafði sagt.
2 Og Sara varð þunguð og fæddi Abraham son í elli hans, um þær mundir, sem Guð hafði sagt honum.
3 Og Abraham gaf nafn syni sínum, þeim er honum fæddist, sem Sara fæddi honum, og kallaði hann Ísak.
4 Abraham umskar Ísak son sinn, þá er hann var átta daga gamall, eins og Guð hafði boðið honum.
5 En Abraham var hundrað ára gamall, þegar Ísak sonur hans fæddist honum.
6 Sara sagði: "Guð hefir gjört mig að athlægi. Hver sem heyrir þetta, mun hlæja að mér."
7 Og hún mælti: "Hver skyldi hafa sagt við Abraham, að Sara mundi hafa börn á brjósti, og þó hefi ég alið honum son í elli hans."
116 Ég elska Drottin, af því að hann heyrir grátbeiðni mína.
2 Hann hefir hneigt eyra sitt að mér, og alla ævi vil ég ákalla hann.
12 Hvað á ég að gjalda Drottni fyrir allar velgjörðir hans við mig?
13 Ég lyfti upp bikar hjálpræðisins og ákalla nafn Drottins.
14 Ég greiði Drottni heit mín, og það í augsýn alls lýðs hans.
15 Dýr er í augum Drottins dauði dýrkenda hans.
16 Æ, Drottinn, víst er ég þjónn þinn, ég er þjónn þinn, sonur ambáttar þinnar, þú leystir fjötra mína.
17 Þér færi ég þakkarfórn og ákalla nafn Drottins.
18 Ég greiði Drottni heit mín, og það í augsýn alls lýðs hans,
19 í forgörðum húss Drottins, í þér, Jerúsalem. Halelúja.
5 Réttlættir af trú höfum vér því frið við Guð fyrir Drottin vorn Jesú Krist.
2 Fyrir hann höfum vér aðgang að þeirri náð, sem vér lifum í, og vér fögnum í von um dýrð Guðs.
3 En ekki það eitt: Vér fögnum líka í þrengingunum, með því að vér vitum, að þrengingin veitir þolgæði,
4 en þolgæðið fullreynd, en fullreyndin von.
5 En vonin bregst oss ekki, því að kærleika Guðs er úthellt í hjörtum vorum fyrir heilagan anda, sem oss er gefinn.
6 Meðan vér enn vorum óstyrkir, dó Kristur á settum tíma fyrir óguðlega.
7 Annars gengur varla nokkur í dauðann fyrir réttlátan mann, _ fyrir góðan mann kynni ef til vill einhver að vilja deyja. _
8 En Guð auðsýnir kærleika sinn til vor, þar sem Kristur er fyrir oss dáinn meðan vér enn vorum í syndum vorum.
35 Jesús fór nú um allar borgir og þorp og kenndi í samkundum þeirra. Hann flutti fagnaðarerindið um ríkið og læknaði hvers kyns sjúkdóm og veikindi.
36 En er hann sá mannfjöldann, kenndi hann í brjósti um þá, því þeir voru hrjáðir og umkomulausir eins og sauðir, er engan hirði hafa.
37 Þá sagði hann við lærisveina sína: "Uppskeran er mikil, en verkamenn fáir.
38 Biðjið því herra uppskerunnar að senda verkamenn til uppskeru sinnar."
10 Og hann kallaði til sín lærisveina sína tólf og gaf þeim vald yfir óhreinum öndum, að þeir gætu rekið þá út og læknað hvers kyns sjúkdóm og veikindi.
2 Nöfn postulanna tólf eru þessi: Fyrstur Símon, sem kallast Pétur, og Andrés bróðir hans, þá Jakob Sebedeusson og Jóhannes bróðir hans,
3 Filippus og Bartólómeus, Tómas og Matteus tollheimtumaður, Jakob Alfeusson og Taddeus,
4 Símon vandlætari og Júdas Ískaríot, sá er sveik hann.
5 Þessa tólf sendi Jesús út og mælti svo fyrir: "Haldið ekki til heiðinna manna og farið ekki í samverska borg.
6 Farið heldur til týndra sauða af Ísraelsætt.
7 Farið og prédikið: ,Himnaríki er í nánd.`
8 Læknið sjúka, vekið upp dauða, hreinsið líkþráa, rekið út illa anda. Gefins hafið þér fengið, gefins skuluð þér láta í té.
9 Takið ekki gull, silfur né eir í belti,
10 eigi mal til ferðar eða tvo kyrtla og hvorki skó né staf. Verður er verkamaðurinn fæðis síns.
11 Hvar sem þér komið í borg eða þorp, spyrjist þá fyrir um, hver þar sé verðugur, og þar sé aðsetur yðar, uns þér leggið upp að nýju.
12 Þegar þér komið í hús, þá árnið því góðs,
13 og sé það verðugt, skal friður yðar koma yfir það, en sé það ekki verðugt, skal friður yðar aftur hverfa til yðar.
14 Og taki einhver ekki við yður né hlýði á orð yðar, farið þá úr því húsi eða þeirri borg og hristið dustið af fótum yðar.
15 Sannlega segi ég yður: Bærilegra mun landi Sódómu og Gómorru á dómsdegi en þeirri borg.
16 Sjá, ég sendi yður eins og sauði meðal úlfa. Verið því kænir sem höggormar og falslausir sem dúfur.
17 Varið yður á mönnunum. Þeir munu draga yður fyrir dómstóla og húðstrýkja yður í samkundum sínum.
18 Þér munuð leiddir fyrir landshöfðingja og konunga mín vegna þeim og heiðingjunum til vitnisburðar.
19 En þá er menn draga yður fyrir rétt, skuluð þér ekki hafa áhyggjur af því, hvernig eða hvað þér eigið að tala. Yður verður gefið á sömu stundu, hvað segja skal.
20 Þér eruð ekki þeir sem tala, heldur andi föður yðar, hann talar í yður.
21 Bróðir mun selja bróður í dauða og faðir barn sitt. Börn munu rísa gegn foreldrum og valda þeim dauða.
22 Og þér munuð hataðir af öllum vegna nafns míns. En sá sem staðfastur er allt til enda, mun hólpinn verða.
23 Þegar þeir ofsækja yður í einni borg, þá flýið í aðra. Sannlega segi ég yður: Þér munuð ekki hafa náð til allra borga Ísraels, áður en Mannssonurinn kemur.
by Icelandic Bible Society