Revised Common Lectionary (Semicontinuous)
29 Davíðssálmur. Tjáið Drottni vegsemd, þér guðasynir, tjáið Drottni vegsemd og vald.
2 Tjáið Drottni dýrð þá er nafni hans hæfir, fallið fram fyrir Drottni í helgum skrúða.
3 Raust Drottins hljómar yfir vötnunum, Guð dýrðarinnar lætur þrumur drynja, Drottinn ríkir yfir hinum miklu vötnum.
4 Raust Drottins hljómar með krafti, raust Drottins hljómar með tign.
5 Raust Drottins brýtur sundur sedrustré, Drottinn brýtur sundur sedrustrén á Líbanon.
6 Hann lætur Líbanonfjöll hoppa eins og kálfa og Hermonfjall eins og ungan vísund.
7 Raust Drottins klýfur eldsloga.
8 Raust Drottins lætur eyðimörkina skjálfa, Drottinn lætur Kadeseyðimörk skjálfa.
9 Raust Drottins lætur hindirnar bera fyrir tímann og gjörir skógana nakta, og allt í helgidómi hans segir: Dýrð!
10 Drottinn situr í hásæti uppi yfir flóðinu, Drottinn mun ríkja sem konungur að eilífu.
11 Drottinn veitir lýð sínum styrkleik, Drottinn blessar lýð sinn með friði.
13 Strúthænan baðar glaðlega vængjunum, en er nokkurt ástríki í þeim vængjum og flugfjöðrum?
14 Nei, hún fær jörðinni egg sín og lætur þau hitna í moldinni
15 og gleymir, að fótur getur brotið þau og dýr merkurinnar troðið þau sundur.
16 Hún er hörð við unga sína, eins og hún ætti þá ekki, þótt fyrirhöfn hennar sé árangurslaus, þá er hún laus við ótta,
17 því að Guð synjaði henni um visku og veitti henni enga hlutdeild í hyggindum.
18 En þegar hún sveiflar sér í loft upp, þá hlær hún að hestinum og þeim sem á honum situr.
19 Gefur þú hestinum styrkleika, klæðir þú makka hans flaksandi faxi?
20 Lætur þú hann stökkva eins og engisprettu? Fagurlega frýsar hann, en hræðilega!
21 Hann krafsar upp grundina og kætist af styrkleikanum, hann fer út á móti hertygjunum.
22 Hann hlær að hræðslunni og skelfist ekki og hopar ekki fyrir sverðinu.
23 Á baki hans glamrar í örvamælinum, spjót og lensa leiftra.
24 Með hávaða og harki hendist hann yfir jörðina og eigi verður honum haldið, þá er lúðurinn gellur.
25 Í hvert sinn er lúðurinn gellur, hvíar hann, og langar leiðir nasar hann bardagann, þrumurödd fyrirliðanna og herópið.
4 Mismunur er á náðargáfum, en andinn er hinn sami,
5 og mismunur er á embættum, en Drottinn hinn sami,
6 og mismunur er á hæfileikum að framkvæma, en Guð hinn sami, sem öllu kemur til leiðar í öllum.
7 Andinn opinberast í sérhverjum til þess, sem gagnlegt er.
8 Einum er fyrir andann gefið að mæla af speki, öðrum að mæla af þekkingu í krafti sama anda.
9 Hinn sami andi veitir einum trú, öðrum lækningagáfu
10 og öðrum kraft til að framkvæma undur. Einn fær spádómsgáfu, annar hæfileika að greina anda, einn að tala tungum og annar að útleggja tungutal.
11 En öllu þessu kemur til leiðar eini og sami andinn, og hann útbýtir hverjum einum eftir vild sinni.
12 Því að eins og líkaminn er einn og hefur marga limi, en allir limir líkamans, þótt margir séu, eru einn líkami, þannig er og Kristur.
13 Í einum anda vorum vér allir skírðir til að vera einn líkami, hvort sem vér erum Gyðingar eða Grikkir, þrælar eða frjálsir, og allir fengum vér einn anda að drekka.
by Icelandic Bible Society