Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Revised Common Lectionary (Semicontinuous)

Daily Bible readings that follow the church liturgical year, with sequential stories told across multiple weeks.
Duration: 1245 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 104:24-34

24 Hversu mörg eru verk þín, Drottinn, þú gjörðir þau öll með speki, jörðin er full af því, er þú hefir skapað.

25 Þar er hafið, mikið og vítt á alla vegu, þar er óteljandi grúi, smá dýr og stór.

26 Þar fara skipin um og Levjatan, er þú hefir skapað til þess að leika sér þar.

27 Öll vona þau á þig, að þú gefir þeim fæðu þeirra á réttum tíma.

28 Þú gefur þeim, og þau tína, þú lýkur upp hendi þinni, og þau mettast gæðum.

29 Þú byrgir auglit þitt, þá skelfast þau, þú tekur aftur anda þeirra, þá andast þau og hverfa aftur til moldarinnar.

30 Þú sendir út anda þinn, þá verða þau til, og þú endurnýjar ásjónu jarðar.

31 Dýrð Drottins vari að eilífu, Drottinn gleðjist yfir verkum sínum,

32 hann sem lítur til jarðar, svo að hún nötrar, sem snertir við fjöllunum, svo að úr þeim rýkur.

33 Ég vil ljóða um Drottin meðan lifi, lofsyngja Guði mínum meðan ég er til.

34 Ó að mál mitt mætti falla honum í geð! Ég gleðst yfir Drottni.

Sálmarnir 104:35

35 Ó að syndarar mættu hverfa af jörðunni og óguðlegir eigi vera til framar. Vegsama þú Drottin, sála mín. Halelúja.

Jóel 2:18-27

18 Þá varð Drottinn fullur umhyggju vegna lands síns, og hann þyrmdi lýð sínum.

19 Drottinn tók til máls og sagði við lýð sinn: Sjá, ég sendi yður korn, vínberjalög og olíu, svo að yður skal nægja til saðnings. Og ég vil eigi láta yður verða framar að spotti meðal heiðingjanna.

20 Og óvininn, sem frá norðri kemur, mun ég reka langt burt frá yður og stökkva honum út á auðnir og öræfi. Skal fararbroddur hans lenda í austurhafinu og halaflokkurinn í vesturhafinu, þar skal fýla og illur daunn upp af honum stíga, því að hann hefir unnið stórvirki.

21 Óttast eigi, land! Fagna og gleðst, því að Drottinn hefir unnið stórvirki.

22 Óttist eigi, þér dýr merkurinnar, því að grashagar eyðimerkurinnar grænka, því að trén bera ávöxt, fíkjutrén og víntrén gefa sinn gróða.

23 Og þér Síonbúar, fagnið og gleðjist í Drottni, Guði yðar, því að hann gefur yður regn í réttum mæli og lætur skúrirnar ofan til yðar koma, haustregn og vorregn, eins og áður.

24 Láfarnir verða fullir af korni, og vínberjalögurinn og olían flóa út af þrónum.

25 Ég bæti yður upp árin, er átvargurinn, flysjarinn, jarðvargurinn og nagarinn átu, _ minn mikli her, er ég sendi móti yður.

26 Þér skuluð eta og mettir verða og vegsama nafn Drottins, Guðs yðar, sem dásamlega hefir við yður gjört, og þjóð mín skal aldrei að eilífu til skammar verða.

27 Og þér skuluð viðurkenna, að ég er meðal Ísraels og að ég er Drottinn, yðar Guð, og enginn annar. Og þjóð mín skal aldrei að eilífu til skammar verða.

Bréf Páls til Rómverja 8:18-24

18 Ég lít svo á, að ekki séu þjáningar þessa tíma neitt í samanburði við þá dýrð, sem á oss mun opinberast.

19 Því að sköpunin þráir, að Guðs börn verði opinber.

20 Sköpunin var undirorpin fallvaltleikanum, ekki sjálfviljug, heldur vegna hans, sem varp henni undir hann,

21 í von um að jafnvel sjálf sköpunin muni verða leyst úr ánauð forgengileikans til dýrðarfrelsis Guðs barna.

22 Vér vitum, að öll sköpunin stynur líka og hefur fæðingarhríðir allt til þessa.

23 En ekki einungis hún, heldur og vér, sem höfum frumgróða andans, jafnvel vér stynjum með sjálfum oss meðan vér bíðum þess, að Guð gefi oss barnarétt og endurleysi líkami vora.

24 Því að í voninni erum vér hólpnir orðnir. Von, er sést, er ekki von, því að hver vonar það, sem hann sér?

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society