Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Revised Common Lectionary (Semicontinuous)

Daily Bible readings that follow the church liturgical year, with sequential stories told across multiple weeks.
Duration: 1245 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 33:12-22

12 Sæl er sú þjóð er á Drottin að Guði, sá lýður er hann hefir kjörið sér til eignar.

13 Drottinn lítur niður af himni, sér öll mannanna börn,

14 frá bústað sínum virðir hann fyrir sér alla jarðarbúa,

15 hann sem myndað hefir hjörtu þeirra allra og gefur gætur að öllum athöfnum þeirra.

16 Eigi sigrar konungurinn fyrir gnótt herafla síns, eigi bjargast kappinn fyrir ofurafl sitt.

17 Svikull er víghestur til sigurs, með ofurafli sínu bjargar hann ekki.

18 En augu Drottins hvíla á þeim er óttast hann, á þeim er vona á miskunn hans.

19 Hann frelsar þá frá dauða og heldur lífinu í þeim í hallæri.

20 Sálir vorar vona á Drottin, hann er hjálp vor og skjöldur.

21 Já, yfir honum fagnar hjarta vort, hans heilaga nafni treystum vér.

22 Miskunn þín, Drottinn, sé yfir oss, svo sem vér vonum á þig.

Önnur bók Móse 20:1-21

20 Guð talaði öll þessi orð og sagði:

"Ég er Drottinn Guð þinn, sem leiddi þig út af Egyptalandi, út úr þrælahúsinu.

Þú skalt ekki hafa aðra guði en mig.

Þú skalt engar líkneskjur gjöra þér né nokkrar myndir eftir því, sem er á himnum uppi, eður því, sem er á jörðu niðri, eður því, sem er í vötnunum undir jörðinni.

Þú skalt ekki tilbiðja þær og ekki dýrka þær, því að ég, Drottinn Guð þinn, er vandlátur Guð, sem vitja misgjörða feðranna á börnunum, já í þriðja og fjórða lið, þeirra sem mig hata,

en auðsýni miskunn þúsundum, þeirra sem elska mig og varðveita boðorð mín.

Þú skalt ekki leggja nafn Drottins Guðs þíns við hégóma, því að Drottinn mun ekki láta þeim óhegnt, sem leggur nafn hans við hégóma.

Minnstu þess að halda hvíldardaginn heilagan.

Sex daga skalt þú erfiða og vinna allt þitt verk,

10 en sjöundi dagurinn er hvíldardagur helgaður Drottni Guði þínum. Þá skalt þú ekkert verk vinna og ekki sonur þinn eða dóttir þín, þræll þinn eða ambátt þín eða skepnur þínar, eða nokkur útlendingur, sem hjá þér er innan borgarhliða þinna,

11 því að á sex dögum gjörði Drottinn himin og jörð, hafið og allt sem í þeim er, og hvíldist sjöunda daginn. Fyrir því blessaði Drottinn hvíldardaginn og helgaði hann.

12 Heiðra föður þinn og móður þína, svo að þú verðir langlífur í því landi, sem Drottinn Guð þinn gefur þér.

13 Þú skalt ekki morð fremja.

14 Þú skalt ekki drýgja hór.

15 Þú skalt ekki stela.

16 Þú skalt ekki bera ljúgvitni gegn náunga þínum.

17 Þú skalt ekki girnast hús náunga þíns. Þú skalt ekki girnast konu náunga þíns, ekki þræl hans eða ambátt, ekki uxa hans eða asna, né nokkuð það, sem náungi þinn á."

18 Allt fólkið heyrði og sá reiðarþrumurnar og eldingarnar og lúðurþytinn og fjallið rjúkandi. Og er fólkið sá þetta, skelfdust þeir og stóðu langt í burtu.

19 Þeir sögðu þá við Móse: "Tala þú við oss og vér skulum hlýða, en lát ekki Guð tala við oss, að vér deyjum ekki."

20 Og Móse sagði við fólkið: "Óttist ekki, því að Guð er kominn til þess að reyna yður og til þess að hans ótti sé yður fyrir augum, svo að þér syndgið ekki."

21 Stóð fólkið þá kyrrt langt í burtu, en Móse gekk að dimma skýinu, sem Guð var í.

Matteusarguðspjall 5:1-12

Þegar hann sá mannfjöldann, gekk hann upp á fjallið. Þar settist hann, og lærisveinar hans komu til hans.

Þá lauk hann upp munni sínum, kenndi þeim og sagði:

"Sælir eru fátækir í anda, því að þeirra er himnaríki.

Sælir eru sorgbitnir, því að þeir munu huggaðir verða.

Sælir eru hógværir, því að þeir munu jörðina erfa.

Sælir eru þeir, sem hungrar og þyrstir eftir réttlætinu, því að þeir munu saddir verða.

Sælir eru miskunnsamir, því að þeim mun miskunnað verða.

Sælir eru hjartahreinir, því að þeir munu Guð sjá.

Sælir eru friðflytjendur, því að þeir munu Guðs börn kallaðir verða.

10 Sælir eru þeir, sem ofsóttir eru fyrir réttlætis sakir, því að þeirra er himnaríki.

11 Sælir eruð þér, þá er menn smána yður, ofsækja og ljúga á yður öllu illu mín vegna.

12 Verið glaðir og fagnið, því að laun yðar eru mikil á himnum. Þannig ofsóttu þeir spámennina, sem voru á undan yður.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society