Revised Common Lectionary (Semicontinuous)
12 Sæl er sú þjóð er á Drottin að Guði, sá lýður er hann hefir kjörið sér til eignar.
13 Drottinn lítur niður af himni, sér öll mannanna börn,
14 frá bústað sínum virðir hann fyrir sér alla jarðarbúa,
15 hann sem myndað hefir hjörtu þeirra allra og gefur gætur að öllum athöfnum þeirra.
16 Eigi sigrar konungurinn fyrir gnótt herafla síns, eigi bjargast kappinn fyrir ofurafl sitt.
17 Svikull er víghestur til sigurs, með ofurafli sínu bjargar hann ekki.
18 En augu Drottins hvíla á þeim er óttast hann, á þeim er vona á miskunn hans.
19 Hann frelsar þá frá dauða og heldur lífinu í þeim í hallæri.
20 Sálir vorar vona á Drottin, hann er hjálp vor og skjöldur.
21 Já, yfir honum fagnar hjarta vort, hans heilaga nafni treystum vér.
22 Miskunn þín, Drottinn, sé yfir oss, svo sem vér vonum á þig.
19 Á þriðja mánuði eftir brottför Ísraelsmanna frá Egyptalandi, á þeim degi komu þeir í Sínaí-eyðimörk.
2 Þeir tóku sig upp frá Refídím og komu í Sínaí-eyðimörk og settu búðir sínar í eyðimörkinni. Og Ísrael setti búðir sínar þar gegnt fjallinu.
3 Gekk Móse þá upp til Guðs, og kallaði Drottinn til hans af fjallinu og sagði: "Svo skalt þú segja Jakobs niðjum og kunngjöra Ísraelsmönnum:
4 ,Þér hafið sjálfir séð, hvað ég hefi gjört Egyptum, og hversu ég hefi borið yður á arnarvængjum og flutt yður til mín.
5 Nú ef þér hlýðið minni röddu grandgæfilega og haldið minn sáttmála, þá skuluð þér vera mín eiginleg eign umfram allar þjóðir, því að öll jörðin er mín.
6 Og þér skuluð vera mér prestaríki og heilagur lýður.` Þetta eru þau orð, sem þú skalt flytja Ísraelsmönnum."
7 Og Móse fór og stefndi saman öldungum lýðsins og flutti þeim öll þau orð, er Drottinn hafði boðið honum.
8 Þá svaraði allur lýðurinn einum munni og sagði: "Vér viljum gjöra allt það, sem Drottinn býður." Og Móse flutti Drottni aftur orð fólksins.
9 Þá sagði Drottinn við Móse: "Sjá, ég vil koma til þín í dimmu skýi, svo að fólkið heyri, er ég tala við þig, og trúi þér ævinlega." Og Móse flutti Drottni orð lýðsins.
2 Þá er upp var runninn hvítasunnudagur, voru þeir allir saman komnir.
2 Varð þá skyndilega gnýr af himni eins og aðdynjanda sterkviðris og fyllti allt húsið, þar sem þeir voru.
3 Þeim birtust tungur, eins og af eldi væru, er kvísluðust og settust á hvern og einn þeirra.
4 Þeir fylltust allir heilögum anda og tóku að tala öðrum tungum, eins og andinn gaf þeim að mæla.
5 Í Jerúsalem dvöldust Gyðingar, guðræknir menn, frá öllum löndum undir himninum.
6 Er þetta hljóð heyrðist, dreif að fjölda manns. Þeim brá mjög við, því að hver og einn heyrði þá mæla á sína tungu.
7 Þeir voru frá sér af undrun og sögðu: "Eru þetta ekki allt Galíleumenn, sem hér eru að tala?
8 Hvernig má það vera, að vér, hver og einn, heyrum þá tala vort eigið móðurmál?
9 Vér erum Partar, Medar og Elamítar, vér erum frá Mesópótamíu, Júdeu, Kappadókíu, Pontus og Asíu,
10 frá Frýgíu og Pamfýlíu, Egyptalandi og Líbýubyggðum við Kýrene, og vér, sem hingað erum fluttir frá Róm.
11 Hér eru bæði Gyðingar og þeir sem tekið hafa trú Gyðinga, Kríteyingar og Arabar. Vér heyrum þá tala á vorum tungum um stórmerki Guðs."
by Icelandic Bible Society