Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Revised Common Lectionary (Semicontinuous)

Daily Bible readings that follow the church liturgical year, with sequential stories told across multiple weeks.
Duration: 1245 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 99

99 Drottinn er konungur orðinn! Þjóðirnar skjálfi. Hann situr uppi yfir kerúbunum, jörðin nötri.

Drottinn er mikill á Síon og hátt upp hafinn yfir alla lýði.

Þeir skulu lofa nafn þitt, hið mikla og óttalega. Heilagur er hann!

Þú ert voldugur konungur, sem elskar réttinn, þú hefir staðfest réttvísina, rétt og réttlæti hefir þú framið í Jakob.

Tignið Drottin, Guð vorn, og fallið fram fyrir fótskör hans. Heilagur er hann!

Móse og Aron eru meðal presta hans, Samúel meðal þeirra er ákalla nafn hans, þeir ákalla Drottin og hann bænheyrir þá.

Hann talar til þeirra í skýstólpanum, því að þeir gæta vitnisburða hans og laganna, er hann gaf þeim.

Drottinn, Guð vor, þú bænheyrir þá, þú reynist þeim fyrirgefandi Guð og sýknar þá af gjörðum þeirra.

Tignið Drottin Guð vorn, og fallið fram fyrir hans heilaga fjalli, því að heilagur er Drottinn, Guð vor.

Fyrri bók konunganna 8:54-65

54 Þegar Salómon hafði lokið þessari bæn og grátbeiðni til Drottins, þá stóð hann upp frammi fyrir altari Drottins, þar sem hann hafði kropið á kné og fórnað höndum til himins.

55 Gekk hann nú fram og blessaði allan Ísraelssöfnuð hárri röddu og mælti:

56 "Lofaður sé Drottinn, sem veitt hefir hvíld lýð sínum Ísrael, eins og hann hefir heitið. Ekkert af öllum hans dýrlegu fyrirheitum, sem hann gaf fyrir þjón sinn Móse, hefir brugðist.

57 Drottinn, Guð vor, sé með oss, eins og hann hefir verið með feðrum vorum. Hann yfirgefi oss ekki og útskúfi oss ekki,

58 heldur hneigi hjörtu vor til sín, svo að vér göngum jafnan á hans vegum og varðveitum öll hans boðorð, lög og ákvæði, þau er hann lagði fyrir feður vora.

59 Og þessi mín orð, er ég hefi fram borið fyrir Drottin með grátbeiðni, séu nálæg Drottni, Guði vorum, dag og nótt, svo að hann rétti hlut þjóns síns og lýðs síns Ísraels, eftir því sem þörf gjörist á degi hverjum,

60 til þess að allar þjóðir á jörðinni komist að raun um, að Drottinn er Guð og enginn annar.

61 Hjörtu yðar séu heil og óskipt gagnvart Drottni, Guði vorum, svo að þér breytið eftir lögum hans og haldið boðorð hans, eins og nú."

62 Þá fórnaði konungur og allur Ísrael með honum sláturfórnum frammi fyrir Drottni.

63 Salómon fórnaði tuttugu og tvö þúsund nautum og hundrað og tuttugu þúsund sauðum í heillafórn, er hann færði Drottni. Þannig vígði konungur og allir Ísraelsmenn hús Drottins.

64 Þann dag vígði konungur miðhluta forgarðsins, sem er fyrir framan hús Drottins, því að þar fórnaði hann brennifórninni og matfórninni og hinum feitu stykkjum heillafórnanna, því að eiraltarið, sem stóð frammi fyrir Drottni, var of lítið til þess að geta tekið brennifórnina, matfórnina og hin feitu stykki heillafórnanna.

65 Þannig hélt Salómon hátíðina og allur Ísrael með honum, mikill söfnuður, norðan þaðan er leið liggur til Hamat, allt suður til Egyptalandsár. Þeir héldu hátíð frammi fyrir Drottni, Guði vorum, í sjö daga, og aðra sjö daga, fjórtán daga alls.

Jóhannesarguðspjall 3:31-36

31 Sá sem kemur að ofan, er yfir öllum. Sá sem er af jörðu, hann er af jörðu og talar af jörðu. Sá sem kemur af himni, er yfir öllum

32 og vitnar um það, sem hann hefur séð og heyrt, og enginn tekur á móti vitnisburði hans.

33 En sá sem hefur tekið á móti vitnisburði hans, hefur staðfest, að Guð sé sannorður.

34 Sá sem Guð sendi, talar Guðs orð, því ómælt gefur Guð andann.

35 Faðirinn elskar soninn og hefur lagt allt í hönd honum.

36 Sá sem trúir á soninn, hefur eilíft líf, en sá sem óhlýðnast syninum, mun ekki sjá líf, heldur varir reiði Guðs yfir honum."

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society