Revised Common Lectionary (Semicontinuous)
99 Drottinn er konungur orðinn! Þjóðirnar skjálfi. Hann situr uppi yfir kerúbunum, jörðin nötri.
2 Drottinn er mikill á Síon og hátt upp hafinn yfir alla lýði.
3 Þeir skulu lofa nafn þitt, hið mikla og óttalega. Heilagur er hann!
4 Þú ert voldugur konungur, sem elskar réttinn, þú hefir staðfest réttvísina, rétt og réttlæti hefir þú framið í Jakob.
5 Tignið Drottin, Guð vorn, og fallið fram fyrir fótskör hans. Heilagur er hann!
6 Móse og Aron eru meðal presta hans, Samúel meðal þeirra er ákalla nafn hans, þeir ákalla Drottin og hann bænheyrir þá.
7 Hann talar til þeirra í skýstólpanum, því að þeir gæta vitnisburða hans og laganna, er hann gaf þeim.
8 Drottinn, Guð vor, þú bænheyrir þá, þú reynist þeim fyrirgefandi Guð og sýknar þá af gjörðum þeirra.
9 Tignið Drottin Guð vorn, og fallið fram fyrir hans heilaga fjalli, því að heilagur er Drottinn, Guð vor.
41 Daginn eftir möglaði allur söfnuður Ísraelsmanna í gegn þeim Móse og Aroni og sagði: "Þið hafið myrt lýð Drottins!"
42 En er múgurinn safnaðist saman í gegn þeim Móse og Aroni, varð þeim litið til samfundatjaldsins, og sjá, skýið huldi það og dýrð Drottins birtist.
43 Gengu þeir Móse og Aron þá fram fyrir samfundatjaldið.
44 Drottinn talaði við Móse og sagði:
45 "Víkið burt frá þessum söfnuði, og mun ég eyða honum á augabragði!" En þeir féllu fram á ásjónur sínar.
46 Og Móse sagði við Aron: "Tak eldpönnuna og lát eld í hana af altarinu, legg á reykelsi og far í skyndi til safnaðarins og friðþæg fyrir hann, því að reiði er út gengin frá Drottni, plágan byrjuð."
47 Aron tók hana, eins og Móse bauð, og hljóp inn í miðjan söfnuðinn, og sjá, plágan var byrjuð meðal fólksins. Og hann lagði á reykelsið og friðþægði fyrir lýðinn.
48 Og er hann stóð milli hinna dauðu og hinna lifandi, þá staðnaði plágan.
49 En þeir sem fórust í plágunni, voru fjórtán þúsundir og sjö hundruð, auk þeirra er fórust sökum Kóra.
50 Og Aron gekk aftur til Móse að dyrum samfundatjaldsins, og var plágan stöðnuð.
7 En endir allra hluta er í nánd. Verið því gætnir og algáðir til bæna.
8 Umfram allt hafið brennandi kærleika hver til annars, því að kærleikur hylur fjölda synda.
9 Verið gestrisnir hver við annan án möglunar.
10 Þjónið hver öðrum með þeirri náðargáfu, sem yður hefur verið gefin, sem góðir ráðsmenn margvíslegrar náðar Guðs.
11 Sá sem talar flytji Guðs orð, sá sem þjónustu hefur skal þjóna eftir þeim mætti, sem Guð gefur, til þess að Guð vegsamist í öllum hlutum fyrir Jesú Krist. Hans er dýrðin og mátturinn um aldir alda. Amen.
by Icelandic Bible Society