Revised Common Lectionary (Semicontinuous)
99 Drottinn er konungur orðinn! Þjóðirnar skjálfi. Hann situr uppi yfir kerúbunum, jörðin nötri.
2 Drottinn er mikill á Síon og hátt upp hafinn yfir alla lýði.
3 Þeir skulu lofa nafn þitt, hið mikla og óttalega. Heilagur er hann!
4 Þú ert voldugur konungur, sem elskar réttinn, þú hefir staðfest réttvísina, rétt og réttlæti hefir þú framið í Jakob.
5 Tignið Drottin, Guð vorn, og fallið fram fyrir fótskör hans. Heilagur er hann!
6 Móse og Aron eru meðal presta hans, Samúel meðal þeirra er ákalla nafn hans, þeir ákalla Drottin og hann bænheyrir þá.
7 Hann talar til þeirra í skýstólpanum, því að þeir gæta vitnisburða hans og laganna, er hann gaf þeim.
8 Drottinn, Guð vor, þú bænheyrir þá, þú reynist þeim fyrirgefandi Guð og sýknar þá af gjörðum þeirra.
9 Tignið Drottin Guð vorn, og fallið fram fyrir hans heilaga fjalli, því að heilagur er Drottinn, Guð vor.
9 Á áttunda degi kallaði Móse fyrir sig Aron og sonu hans og öldunga Ísraels
2 og sagði við Aron: "Tak þér nautkálf í syndafórn og hrút í brennifórn, gallalausa, og leið þá fram fyrir Drottin.
3 En til Ísraelsmanna skalt þú tala á þessa leið: ,Takið geithafur í syndafórn, og kálf og sauðkind, bæði veturgömul og gallalaus, í brennifórn,
4 og uxa og hrút í heillafórn, til þess að slátra þeim frammi fyrir Drottni, og matfórn olíublandaða, því að í dag mun Drottinn birtast yður."`
5 Og þeir færðu það, sem Móse hafði boðið, fram fyrir samfundatjaldið, og allur söfnuðurinn kom og nam staðar frammi fyrir Drottni.
6 Móse sagði: "Þetta er það, sem Drottinn hefir boðið. Gjörið það, og mun dýrð Drottins birtast yður."
7 Því næst mælti Móse til Arons: "Gakk þú að altarinu og fórna syndafórn þinni og brennifórn þinni, og friðþæg þú fyrir þig og fyrir lýðinn. Fram ber því næst fórnargjöf lýðsins og friðþæg fyrir þá, svo sem Drottinn hefir boðið."
8 Aron gekk þá að altarinu og slátraði kálfinum, er honum var ætlaður til syndafórnar.
9 En synir Arons færðu honum blóðið, og hann drap fingri sínum í blóðið og reið því á horn altarisins, en hinu blóðinu hellti hann niður við altarið.
10 En mörinn, nýrun og stærra lifrarblaðið úr syndafórninni brenndi hann á altarinu, svo sem Drottinn hafði boðið Móse.
11 En kjötið og húðina brenndi hann í eldi fyrir utan herbúðirnar.
22 Síðan hóf Aron upp hendur sínar yfir fólkið og blessaði það. Og hann sté niður, er hann hafði fórnað syndafórninni, brennifórninni og heillafórninni.
23 Móse og Aron gengu inn í samfundatjaldið, og er þeir komu út aftur, blessuðu þeir fólkið. Birtist þá dýrð Drottins öllum lýðnum.
24 Eldur gekk út frá Drottni og eyddi brennifórninni og mörnum á altarinu. En er allur lýðurinn sá þetta, hófu þeir upp fagnaðaróp og féllu fram á ásjónur sínar.
4 Eins og því Kristur leið líkamlega, svo skuluð þér og herklæðast sama hugarfari. Sá sem hefur liðið líkamlega, er skilinn við synd,
2 hann lifir ekki framar í mannlegum fýsnum, heldur lifir hann tímann, sem eftir er, að vilja Guðs.
3 Nógu lengi hafið þér gjört vilja heiðingjanna og lifað í saurlifnaði, girndum, ofdrykkju, óhófi, samdrykkjum og svívirðilegri skurðgoðadýrkun.
4 Nú furðar þá, að þér hlaupið ekki með þeim út í hið sama spillingardíki; og þeir hallmæla yður.
5 En þeir munu verða að gjöra reikningsskil þeim, sem reiðubúinn er að dæma lifendur og dauða.
6 Því að til þess var og dauðum boðað fagnaðarerindið, að þeir, þótt dæmdir væru líkamlega með mönnum, mættu lifa í andanum með Guði.
by Icelandic Bible Society