Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Revised Common Lectionary (Semicontinuous)

Daily Bible readings that follow the church liturgical year, with sequential stories told across multiple weeks.
Duration: 1245 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 66:8-20

Þér lýðir, lofið Guð vorn og látið hljóma lofsöng um hann.

Hann veitti sálum vorum lífið og lét oss eigi verða valta á fótum.

10 Því að þú hefir rannsakað oss, ó Guð, hreinsað oss, eins og silfur er hreinsað.

11 Þú hefir varpað oss í fangelsi, lagt byrði á lendar vorar.

12 Þú hefir látið menn ganga yfir höfuð vor, vér höfum farið gegnum eld og vatn, en nú hefir þú leitt oss út á víðan vang.

13 Ég kem í hús þitt með brennifórnir, efni heit mín við þig,

14 þau er varir mínar hétu og munnur minn nefndi, þá er ég var í nauðum staddur.

15 Ég færi þér brennifórn af feitum dýrum, ásamt fórnarilm af hrútum, ég fórna nautum og höfrum. [Sela]

16 Komið, hlýðið til, allir þér er óttist Guð, að ég megi segja frá, hvað hann hefir gjört fyrir mig.

17 Til hans hrópaði ég með munni mínum, en lofgjörð lá undir tungu minni.

18 Ef ég hygg á illt í hjarta mínu, þá heyrir Drottinn ekki.

19 En Guð hefir heyrt, gefið gaum að bænarópi mínu.

20 Lofaður sé Guð, er eigi vísaði bæn minni á bug né tók miskunn sína frá mér.

Fyrsta bók Móse 7

Drottinn sagði við Nóa: "Gakk þú og allt fólk þitt í örkina, því að þig hefi ég séð réttlátan fyrir augliti mínu í þessari kynslóð.

Tak þú til þín af öllum hreinum dýrum sjö og sjö, karldýr og kvendýr, en af þeim dýrum, sem ekki eru hrein, tvö og tvö, karldýr og kvendýr.

Einnig af fuglum loftsins sjö og sjö, karlkyns og kvenkyns, til að viðhalda lífsstofni á allri jörðinni.

Því að sjö dögum liðnum mun ég láta rigna á jörðina fjörutíu daga og fjörutíu nætur, og ég mun afmá af jörðinni sérhverja skepnu, sem ég hefi gjört."

Og Nói gjörði allt eins og Drottinn bauð honum.

En Nói var sex hundruð ára gamall, þegar vatnsflóðið kom yfir jörðina.

Og Nói gekk í örkina, og synir hans og kona hans og sonakonur hans með honum, undan vatnsflóðinu.

Af hreinum dýrum og af þeim dýrum, sem ekki voru hrein, og af fuglum og af öllu, sem skríður á jörðinni,

kom tvennt og tvennt til Nóa í örkina, karlkyns og kvenkyns, eins og Guð hafði boðið Nóa.

10 Eftir sjö daga kom vatnsflóðið yfir jörðina.

11 Á sexhundraðasta aldursári Nóa, í öðrum mánuðinum, á seytjánda degi mánaðarins, á þeim degi opnuðust allar uppsprettur hins mikla undirdjúps og flóðgáttir himinsins lukust upp.

12 Og steypiregn dundi yfir jörðina fjörutíu daga og fjörutíu nætur.

13 Einmitt á þeim degi gekk Nói og Sem, Kam og Jafet, synir Nóa, og kona Nóa og þrjár sonakonur hans með þeim í örkina,

14 þau og öll villidýrin eftir sinni tegund og allur fénaðurinn eftir sinni tegund og öll skriðkvikindin, sem skríða á jörðinni, eftir sinni tegund, og allir fuglarnir eftir sinni tegund, allir smáfuglar, allt fleygt.

15 Og þau komu til Nóa í örkina tvö og tvö af öllu holdi, sem lífsandi var í.

16 Og þau, sem komu, gengu inn, karlkyns og kvenkyns af öllu holdi, eins og Guð hafði boðið honum. Og Drottinn læsti eftir honum.

17 Og flóðið var á jörðinni fjörutíu daga. Vatnið óx og lyfti örkinni, og hún hófst yfir jörðina.

18 Og vötnin mögnuðust og uxu stórum á jörðinni, en örkin flaut ofan á vatninu.

19 Og vötnin mögnuðust ákaflega á jörðinni, svo að öll hin háu fjöll, sem eru undir öllum himninum, fóru í kaf.

20 Fimmtán álna hátt óx vatnið, svo að fjöllin fóru í kaf.

21 Þá dó allt hold, sem hreyfðist á jörðinni, bæði fuglar, fénaður, villidýr og allir ormar, sem skriðu á jörðinni, og allir menn.

22 Allt sem hafði lífsanda í nösum sínum, allt sem var á þurrlendinu, það dó.

23 Og þannig afmáði hann sérhverja skepnu, sem var á jörðinni, bæði menn og fénað, skriðkvikindi og fugla loftsins. Það var afmáð af jörðinni. En Nói einn varð eftir, og það sem með honum var í örkinni.

24 Og vötnin mögnuðust á jörðinni hundrað og fimmtíu daga.

Postulasagan 27:13-38

13 Nú rann á hægur sunnanvindur. Hugðust þeir þá hafa ráð þetta í hendi sér, léttu akkerum og sigldu fram með Krít nærri landi.

14 En áður en langt leið, skall á af landi ofan fárviðri, hinn illræmdi landnyrðingur.

15 Skipið hrakti, og varð ekki beitt upp í vindinn. Slógum vér undan og létum reka.

16 Vér hleyptum undir litla ey, sem nefnist Káda. Þar gátum vér með naumindum bjargað skipsbátnum.

17 Þeir náðu honum upp og gripu til þeirra ráða, sem helst máttu til bjargar verða, og reyrðu skipið köðlum. Þeir óttuðust, að þá mundi bera inn í Syrtuflóa; því felldu þeir segl og létu reka.

18 Daginn eftir hrakti oss mjög undan ofviðrinu. Þá tóku þeir að ryðja skipið.

19 Og á þriðja degi vörpuðu þeir út með eigin höndum búnaði skipsins.

20 Dögum saman sá hvorki til sólar né stjarna, og ekkert lát varð á ofviðrinu. Tók þá að þrjóta öll von um það, að vér kæmumst af.

21 Nú höfðu menn lengi einskis matar neytt. Þá stóð Páll upp meðal þeirra og mælti: "Góðir menn, þér hefðuð átt að hlíta mínu ráði og leggja ekki út frá Krít. Þá hefðuð þér komist hjá hrakningum þessum og tjóni.

22 En nú hvet ég yður að vera vonglaðir, því enginn yðar mun lífi týna, en skipið mun farast.

23 Því að á þessari nóttu stóð hjá mér engill þess Guðs, sem ég heyri til og þjóna, og mælti:

24 ,Óttast þú eigi, Páll, fyrir keisarann átt þú að koma. Og sjá, Guð hefur gefið þér alla þá, sem þér eru samskipa.`

25 Verið því vonglaðir, góðir menn. Ég treysti Guði, að svo muni fara sem við mig hefur verið mælt.

26 Oss mun bera upp á einhverja eyju."

27 Á miðnætti, þegar vér höfðum hrakist um Adríahaf í hálfan mánuð, þóttust skipverjar verða þess varir, að land væri í nánd.

28 Þeir vörpuðu grunnsökku, og reyndist dýpið tuttugu faðmar. Aftur vörpuðu þeir grunnsökku litlu síðar, og reyndist dýpið þá fimmtán faðmar.

29 Þeir óttuðust, að oss kynni að bera upp í kletta, og köstuðu því fjórum akkerum úr skutnum og þráðu nú mest, að dagur rynni.

30 En hásetarnir reyndu að strjúka úr skipinu. Þeir settu bátinn útbyrðis og þóttust vera að færa út akkeri úr framstafni.

31 Þá sagði Páll við hundraðshöfðingjann og hermennina: "Ef þessir menn eru ekki kyrrir í skipinu, getið þér ekki bjargast."

32 Hermennirnir hjuggu þá festar bátsins og létu hann fara.

33 Undir dögun hvatti Páll alla að neyta matar og sagði: "Þér hafið nú þraukað hálfan mánuð fastandi og engu nærst.

34 Það er nú mitt ráð, að þér fáið yður mat. Þess þurfið þér, ef þér ætlið að bjargast. En enginn yðar mun einu hári týna af höfði sér."

35 Að svo mæltu tók hann brauð, gjörði Guði þakkir í allra augsýn, braut það og tók að eta.

36 Urðu nú allir hressari og fóru líka að matast.

37 Alls vorum vér á skipinu tvö hundruð sjötíu og sex manns.

38 Þá er þeir höfðu etið sig metta, léttu þeir á skipinu með því að kasta kornfarminum í sjóinn.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society