Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Revised Common Lectionary (Semicontinuous)

Daily Bible readings that follow the church liturgical year, with sequential stories told across multiple weeks.
Duration: 1245 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 102:1-17

102 Bæn hrjáðs manns, þá er hann örmagnast og úthellir kveini sínu fyrir Drottni.

Drottinn, heyr þú bæn mína og hróp mitt berist til þín.

Byrg eigi auglit þitt fyrir mér, þegar ég er í nauðum staddur, hneig að mér eyra þitt, þegar ég kalla, flýt þér að bænheyra mig.

Því að dagar mínir hverfa sem reykur, bein mín brenna sem eldur.

Hjarta mitt er mornað og þornað sem gras, því að ég gleymi að neyta brauðs míns.

Sakir kveinstafa minna er ég sem skinin bein.

Ég líkist pelíkan í eyðimörkinni, er sem ugla í rústum.

Ég ligg andvaka og styn eins og einmana fugl á þaki.

Daginn langan smána óvinir mínir mig, fjandmenn mínir formæla með nafni mínu.

10 Ég et ösku sem brauð og blanda drykk minn tárum

11 sakir reiði þinnar og bræði, af því að þú hefir tekið mig upp og varpað mér burt.

12 Dagar mínir eru sem hallur skuggi, og ég visna sem gras.

13 En þú, Drottinn, ríkir að eilífu, og nafn þitt varir frá kyni til kyns.

14 Þú munt rísa upp til þess að miskunna Síon, því að tími er kominn til þess að líkna henni, já, stundin er komin.

15 Þjónar þínir elska steina hennar og harma yfir öskuhrúgum hennar.

16 Þá munu þjóðirnar óttast nafn Drottins og allir konungar jarðarinnar dýrð þína,

17 því að Drottinn byggir upp Síon og birtist í dýrð sinni.

Önnur bók Móse 13:17-22

17 Þegar Faraó hafði gefið fólkinu fararleyfi, leiddi Guð þá ekki á leið til Filistalands, þótt sú leið væri skemmst, _ því að Guð sagði: "Vera má að fólkið iðrist, þegar það sér, að ófriðar er von, og snúi svo aftur til Egyptalands,"

18 _ heldur lét Guð fólkið fara í bug eyðimerkurveginn til Sefhafsins, og fóru Ísraelsmenn vígbúnir af Egyptalandi.

19 Móse tók með sér bein Jósefs, því að hann hafði tekið eið af Ísraelsmönnum og sagt: "Sannlega mun Guð vitja yðar. Flytjið þá bein mín héðan burt með yður."

20 Þeir tóku sig upp frá Súkkót og settu búðir sínar í Etam, þar sem eyðimörkina þrýtur.

21 Drottinn gekk fyrir þeim á daginn í skýstólpa til að vísa þeim veg, en á nóttunni í eldstólpa til að lýsa þeim, svo að þeir gætu ferðast nótt sem dag.

22 Skýstólpinn vék ekki frá fólkinu á daginn, né heldur eldstólpinn á nóttunni.

Postulasagan 7:17-40

17 Nú tók að nálgast sá tími, er rætast skyldi fyrirheitið, sem Guð hafði gefið Abraham. Fólkið hafði vaxið og margfaldast í Egyptalandi.

18 ,Þá hófst til ríkis þar annar konungur, er eigi vissi skyn á Jósef.`

19 Hann beitti kyn vort slægð og lék feður vora illa. Hann lét þá bera út ungbörn sín, til þess að þjóðin skyldi eigi lífi halda.

20 Um þessar mundir fæddist Móse og var forkunnar fríður. Þrjá mánuði var hann fóstraður í húsi föður síns.

21 En er hann var út borinn, tók dóttir Faraós hann og fóstraði sem sinn son.

22 Móse var fræddur í allri speki Egypta, og hann var máttugur í orðum sínum og verkum.

23 Þegar hann var fertugur að aldri, kom honum í hug að vitja bræðra sinna, Ísraelsmanna.

24 Hann sá einn þeirra verða fyrir ójöfnuði, og rétti hann hlut hans, hefndi þess, sem meingjörðina þoldi, og drap Egyptann.

25 Hann hugði, að bræður hans mundu skilja, að Guð ætlaði að nota hann til að bjarga þeim, en þeir skildu það ekki.

26 Næsta dag kom hann að tveim þeirra, sem slógust. Hann reyndi að stilla til friðar með þeim og sagði: ,Góðir menn, þið eruð bræður, hví eigist þið illt við?`

27 En sá sem beitti náunga sinn órétti, hratt honum frá sér og sagði: ,Hver skipaði þig höfðingja og dómara yfir okkur?

28 Þú munt þó ekki vilja drepa mig, eins og þú drapst Egyptann í gær?`

29 Við þessi orð flýði Móse og settist að sem útlendingur í Midíanslandi. Þar gat hann tvo sonu.

30 Að fjörutíu árum liðnum ,birtist honum engill í eyðimörk Sínaífjalls í logandi þyrnirunna.`

31 Móse undraðist sýnina, gekk nær og vildi hyggja að. Þá hljómaði rödd Drottins:

32 ,Ég er Guð feðra þinna, Guð Abrahams, Ísaks og Jakobs.` En Móse skelfdist og þorði ekki að hyggja frekar að.

33 En Drottinn sagði við hann: ,Leys af þér skó þína, því að staðurinn, sem þú stendur á, er heilög jörð.

34 Ég hef sannlega séð áþján lýðs míns á Egyptalandi og heyrt andvörp þeirra og er ofan kominn að frelsa þá. Kom nú, ég vil senda þig til Egyptalands.`

35 Þennan Móse, er þeir afneituðu með því að segja: ,Hver skipaði þig höfðingja og dómara?` hann sendi Guð sem höfðingja og lausnara með fulltingi engilsins, er honum birtist í þyrnirunnanum.

36 Það var Móse, sem leiddi þá út og gjörði undur og tákn á Egyptalandi, í Rauðahafinu og á eyðimörkinni í fjörutíu ár.

37 Þessi er sá Móse, sem sagði við Ísraelsmenn: ,Spámann eins og mig mun Guð upp vekja yður, einn af bræðrum yðar.`

38 Hann er sá, sem var í söfnuðinum í eyðimörkinni, með englinum, er við hann talaði á Sínaífjalli, og með feðrum vorum. Hann tók á móti lifandi orðum að gefa oss.

39 Eigi vildu feður vorir hlýðnast honum, heldur hrundu honum frá sér og þráðu í hjörtum sínum Egyptaland.

40 Þeir sögðu við Aron: ,Gjör oss guði, er fyrir oss fari, því að ekki vitum vér, hvað orðið er af Móse þeim, sem leiddi oss brott af Egyptalandi.`

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society