Revised Common Lectionary (Semicontinuous)
55 En hann horfði til himins, fullur af heilögum anda og leit dýrð Guðs og Jesú standa til hægri handar Guði
56 og sagði: "Ég sé himnana opna og Mannssoninn standa til hægri handar Guði."
57 Þá æptu þeir hástöfum, héldu fyrir eyrun og réðust að honum, allir sem einn maður.
58 Þeir hröktu hann út úr borginni og tóku að grýta hann. En vottarnir lögðu yfirhafnir sínar að fótum ungum manni, er Sál hét.
59 Þannig grýttu þeir Stefán. En hann ákallaði Drottin og sagði: "Drottinn Jesús, meðtak þú anda minn."
60 Síðan féll hann á kné og hrópaði hárri röddu: "Drottinn, lát þá ekki gjalda þessarar syndar." Þegar hann hafði þetta mælt, sofnaði hann.
31 Til söngstjórans. Davíðssálmur.
2 Hjá þér, Drottinn, leita ég hælis, lát mig aldrei verða til skammar. Bjarga mér eftir réttlæti þínu,
3 hneig eyru þín til mín, frelsa mig í skyndi, ver mér verndarbjarg, vígi mér til hjálpar.
4 Því að þú ert bjarg mitt og vígi, og sakir nafns þíns munt þú leiða mig og stjórna mér.
5 Þú munt draga mig úr neti því, er þeir lögðu leynt fyrir mig, því að þú ert vörn mín.
15 En ég treysti þér, Drottinn, ég segi: "Þú ert Guð minn!"
16 Í þinni hendi eru stundir mínar, frelsa mig af hendi óvina minna og ofsækjenda.
2 Sækist eins og nýfædd börn eftir hinni andlegu, ósviknu mjólk, til þess að þér af henni getið dafnað til hjálpræðis,
3 enda "hafið þér smakkað, hvað Drottinn er góður."
4 Komið til hans, hins lifanda steins, sem hafnað var af mönnum, en er hjá Guði útvalinn og dýrmætur,
5 og látið sjálfir uppbyggjast sem lifandi steinar í andlegt hús, til heilags prestafélags, til að bera fram andlegar fórnir, Guði velþóknanlegar fyrir Jesú Krist.
6 Því svo stendur í Ritningunni: Sjá, ég set hornstein í Síon, valinn og dýrmætan. Sá sem trúir á hann mun alls eigi verða til skammar.
7 Yður sem trúið er hann dýrmætur, en hinum vantrúuðu er steinninn, sem smiðirnir höfnuðu, orðinn að hyrningarsteini
8 og: ásteytingarsteini og hrösunarhellu. Þeir steyta sig á honum, af því að þeir óhlýðnast boðskapnum. Það var þeim ætlað.
9 En þér eruð "útvalin kynslóð, konunglegt prestafélag, heilög þjóð, eignarlýður, til þess að þér skuluð víðfrægja dáðir hans," sem kallaði yður frá myrkrinu til síns undursamlega ljóss.
10 Þér sem áður voruð ekki lýður eruð nú orðnir "Guðs lýður". Þér, sem "ekki nutuð miskunnar", hafið nú "miskunn hlotið".
14 "Hjarta yðar skelfist ekki. Trúið á Guð og trúið á mig.
2 Í húsi föður míns eru margar vistarverur. Væri ekki svo, hefði ég þá sagt yður, að ég færi burt að búa yður stað?
3 Þegar ég er farinn burt og hef búið yður stað, kem ég aftur og tek yður til mín, svo að þér séuð einnig þar sem ég er.
4 Veginn þangað, sem ég fer, þekkið þér."
5 Tómas segir við hann: "Herra, vér vitum ekki, hvert þú ferð, hvernig getum vér þá þekkt veginn?"
6 Jesús segir við hann: "Ég er vegurinn, sannleikurinn og lífið. Enginn kemur til föðurins, nema fyrir mig.
7 Ef þér hafið þekkt mig, munuð þér og þekkja föður minn. Héðan af þekkið þér hann og hafið séð hann."
8 Filippus segir við hann: "Herra, sýn þú oss föðurinn. Það nægir oss."
9 Jesús svaraði: "Ég hef verið með yður allan þennan tíma, og þú þekkir mig ekki, Filippus? Sá sem hefur séð mig, hefur séð föðurinn. Hvernig segir þú þá: ,Sýn þú oss föðurinn`?
10 Trúir þú ekki, að ég er í föðurnum og faðirinn í mér? Orðin, sem ég segi við yður, tala ég ekki af sjálfum mér. Faðirinn, sem í mér er, vinnur sín verk.
11 Trúið mér, að ég er í föðurnum og faðirinn í mér. Ef þér gerið það ekki, trúið þá vegna sjálfra verkanna.
12 Sannlega, sannlega segi ég yður: Sá sem trúir á mig, mun einnig gjöra þau verk, sem ég gjöri. Og hann mun gjöra meiri verk en þau, því ég fer til föðurins.
13 Og hvers sem þér biðjið í mínu nafni, það mun ég gjöra, svo að faðirinn vegsamist í syninum.
14 Ef þér biðjið mig einhvers í mínu nafni, mun ég gjöra það.
by Icelandic Bible Society