Revised Common Lectionary (Semicontinuous)
23 Davíðssálmur. Drottinn er minn hirðir, mig mun ekkert bresta.
2 Á grænum grundum lætur hann mig hvílast, leiðir mig að vötnum, þar sem ég má næðis njóta.
3 Hann hressir sál mína, leiðir mig um rétta vegu fyrir sakir nafns síns.
4 Jafnvel þótt ég fari um dimman dal, óttast ég ekkert illt, því að þú ert hjá mér, sproti þinn og stafur hugga mig.
5 Þú býr mér borð frammi fyrir fjendum mínum, þú smyr höfuð mitt með olíu, bikar minn er barmafullur.
6 Já, gæfa og náð fylgja mér alla ævidaga mína, og í húsi Drottins bý ég langa ævi.
34 Orð Drottins kom til mín, svohljóðandi:
2 "Mannsson, spá þú um Ísraels hirða, spá þú og seg við þá: Svo segir Drottinn Guð: Vei hirðum Ísraels, er héldu sjálfum sér til haga. Eiga ekki hirðarnir að halda sauðunum til haga?
3 Mjólkurinnar neyttuð þér, klædduð yður af ullinni, slátruðuð alifénu, en sauðunum hafið þér eigi haldið til haga.
4 Þér komuð ekki þrótti í veiku skepnurnar og læknuðuð ekki hið sjúka, bunduð ekki um hið limlesta, sóttuð ekki það, er hrakist hafði, og leituðuð ekki hins týnda, heldur drottnuðuð þér yfir þeim með hörku og grimmd.
5 Og fyrir því tvístruðust þeir, af því að enginn var hirðirinn, og urðu öllum dýrum merkurinnar að bráð.
6 Sauðir mínir ráfuðu um öll fjöll og allar háar hæðir, sauðir mínir voru tvístraðir um allt landið, og enginn skeytti um þá og enginn leitaði þeirra.
7 Heyrið því orð Drottins, þér hirðar!
8 Svo sannarlega sem ég lifi, _ segir Drottinn Guð: Vissulega, af því að sauðir mínir urðu að herfangi og af því að sauðir mínir urðu öllum dýrum merkurinnar að bráð, með því að enginn var hirðirinn og með því að hirðar mínir skeyttu eigi um sauði mína, _ því að hirðarnir héldu sjálfum sér til haga, en sauðum mínum héldu þeir ekki til haga _
9 fyrir því heyrið orð Drottins, þér hirðar!
10 Svo segir Drottinn Guð: Sjá, ég skal finna hirðana og ég skal krefja sauða minna af hendi þeirra og gjöra enda á fjárgæslu þeirra. Og hirðarnir skulu ekki lengur halda sjálfum sér til haga, heldur skal ég hrífa sauði mína úr munni þeirra, svo að þeir verði þeim eigi framar að bráð.
11 Svo segir Drottinn Guð: Hér er ég sjálfur og mun leita sauða minna og annast þá.
12 Eins og hirðir annast hjörð sína þann dag, sem hann er á meðal hinna tvístruðu sauða sinna, þannig mun ég annast sauði mína og heimta þá úr öllum þeim stöðum, þangað sem þeir hröktust í þokunni og dimmviðrinu.
13 Og ég mun sækja þá til þjóðanna og saman safna þeim úr löndunum og leiða þá inn í land þeirra og halda þeim til haga á Ísraels fjöllum, í dölunum og á öllum byggðum bólum í landinu.
14 Ég mun halda þeim í góðu haglendi, og beitiland þeirra mun vera á háfjöllum Ísraels. Þar munu þeir liggja í góðu beitilandi og ganga í feitu haglendi á Ísraels fjöllum.
15 Ég mun sjálfur halda sauðum mínum til haga og sjálfur bæla þá, segir Drottinn Guð.
16 Ég mun leita að hinu týnda og sækja hið hrakta, binda um hið limlesta og koma þrótti í hið veika, en varðveita hið feita og sterka. Ég mun halda þeim til haga, eins og vera ber.
15 Allir tollheimtumenn og bersyndugir komu til Jesú að hlýða á hann,
2 en farísear og fræðimenn ömuðust við því og sögðu: "Þessi maður tekur að sér syndara og samneytir þeim."
3 En hann sagði þeim þessa dæmisögu:
4 "Nú á einhver yðar hundrað sauði og týnir einum þeirra. Skilur hann ekki þá níutíu og níu eftir í óbyggðinni og fer eftir þeim, sem týndur er, þar til hann finnur hann?
5 Og glaður leggur hann sauðinn á herðar sér, er hann finnur hann.
6 Þegar hann kemur heim, kallar hann saman vini sína og nágranna og segir við þá: ,Samgleðjist mér, því að ég hef fundið sauðinn minn, sem týndur var.`
7 Ég segi yður, þannig verður meiri fögnuður á himni yfir einum syndara, sem gjörir iðrun, en yfir níutíu og níu réttlátum, sem ekki hafa iðrunar þörf.
by Icelandic Bible Society