Revised Common Lectionary (Semicontinuous)
16 Davíðs-miktam. Varðveit mig, Guð, því að hjá þér leita ég hælis.
2 Ég segi við Drottin: "Þú ert Drottinn minn, ég á engin gæði nema þig."
3 Á hinum heilögu sem í landinu eru og hinum dýrlegu _ á þeim hefi ég alla mína velþóknun.
4 Miklar eru þjáningar þeirra, er kjörið hafa sér annan guð. Ég vil eigi dreypa þeirra blóðugu dreypifórnum og eigi taka nöfn þeirra mér á varir.
5 Drottinn er hlutskipti mitt og minn afmældi bikar; þú heldur uppi hlut mínum.
6 Mér féllu að erfðahlut indælir staðir, og arfleifð mín líkar mér vel.
7 Ég lofa Drottin, er mér hefir ráð gefið, jafnvel um nætur er ég áminntur hið innra.
8 Ég hefi Drottin ætíð fyrir augum, þegar hann er mér til hægri handar, skriðnar mér ekki fótur.
9 Fyrir því fagnar hjarta mitt, sál mín gleðst, og líkami minn hvílist í friði,
10 því að þú ofurselur Helju eigi líf mitt, leyfir eigi að þinn trúaði sjái gröfina.
11 Kunnan gjörir þú mér veg lífsins, gleðignótt er fyrir augliti þínu, yndi í hægri hendi þinni að eilífu.
9 Hvað hefir unnusti þinn fram yfir aðra unnusta, þú hin fegursta meðal kvenna? Hvað hefir unnusti þinn fram yfir aðra unnusta, úr því þú særir oss svo?
10 Unnusti minn er mjallahvítur og rauður, hann ber af tíu þúsundum.
11 Höfuð hans er skíragull, hinir hrynjandi hárlokkar hans hrafnsvartir,
12 augu hans eins og dúfur við vatnslæki, baðandi sig í mjólk, sett í umgjörð,
13 kinnar hans eins og balsambeð, er í vaxa kryddjurtir. Varir hans eru liljur, drjúpandi af fljótandi myrru.
14 Hendur hans eru gullkefli, sett krýsolítsteinum, kviður hans listaverk af fílabeini, lagt safírum.
15 Fótleggir hans eru marmarasúlur, sem hvíla á undirstöðum úr skíragulli, ásýndar er hann sem Líbanon, frábær eins og sedrustré.
16 Gómur hans er sætleikur, og allur er hann yndislegur. Þetta er unnusti minn og þetta er vinur minn, þér Jerúsalemdætur.
6 Hvert er unnusti þinn genginn, þú hin fegursta meðal kvenna? Hvert hefir unnusti þinn farið, að vér megum leita hans með þér?
2 Unnusti minn gekk ofan í garð sinn, að balsambeðunum, til þess að skemmta sér í görðunum og til að tína liljur.
3 Ég heyri unnusta mínum, og unnusti minn heyrir mér, hann sem skemmtir sér meðal liljanna.
15 Ég minni yður, bræður, á fagnaðarerindi það, sem ég boðaði yður, sem þér og veittuð viðtöku og þér einnig standið stöðugir í.
2 Fyrir það verðið þér og hólpnir ef þér haldið fast við orðið, fagnaðarerindið, sem ég boðaði yður, og hafið ekki ófyrirsynju trúna tekið.
3 Því það kenndi ég yður fyrst og fremst, sem ég einnig hef meðtekið, að Kristur dó vegna vorra synda samkvæmt ritningunum,
4 að hann var grafinn, að hann reis upp á þriðja degi samkvæmt ritningunum
5 og að hann birtist Kefasi, síðan þeim tólf.
6 Því næst birtist hann meira en fimm hundruð bræðrum í einu, sem flestir eru á lífi allt til þessa, en nokkrir eru sofnaðir.
7 Síðan birtist hann Jakobi, því næst postulunum öllum.
8 En síðast allra birtist hann einnig mér, eins og ótímaburði.
9 Því ég er sístur postulanna og er ekki þess verður að kallast postuli, með því að ég ofsótti söfnuð Guðs.
10 En af Guðs náð er ég það sem ég er, og náð hans við mig hefur ekki orðið til ónýtis, heldur hef ég erfiðað meira en þeir allir, þó ekki ég, heldur náð Guðs, sem með mér er.
11 Hvort sem það því er ég eða þeir, þá prédikum vér þannig, og þannig hafið þér trúna tekið.
by Icelandic Bible Society